Stjórn fiskveiða

90. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 01:37:27 (4210)


[01:37]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem veldur því að ég kem hér í andsvari er fyrst og fremst þau ummæli hæstv. ráðherra sem raunar komu fram fyrr í máli hans í dag, að það þurfi að ná þessari niðurstöðu í sjávarútvegsumræðuna til þess að tryggja festu því ég hlýt að spyrja hann: Hvernig í ósköpunum hann getur dregið þá ályktun eftir þá umræðu sem verið hefur í dag, einkum þar sem átta meintir stjórnarsinnar hafa lýst ýmsum athugasemdum og jafnvel andstöðu við einstök ákvæði þessa frv., hvernig í ósköpunum getur hann litið á þetta sem grunn að festu?
    Varðandi það að ekki hafi neitt nýtt komið fram varðandi aðrar lausnir á fiskveiðistefnunni þá vil ég minna hann á það að byggðakvótastefna okkar kvennalistakvenna er ný að því leyti til að hún hefur ekki verið tekin til alvarlegrar umfjöllunar og þar af leiðandi væri kannski mál til komið að gera það.