Álag á virðisaukaskatt

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:41:12 (4219)


[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að það er kominn tími til að endurskoða þær álögur sem um getur í virðisaukaskattslögunum enda eru þær, eins og fram kom hans máli, settar á þeim tíma sem verðbólga var mun meiri en nú. Þetta hefur verið til umræðu í ráðuneytinu en enn hefur ekki komið frv. fram um þetta efni.
    Ég vil einnig geta þess hér að til umræðu er, sem er skylt þessu, að kanna skattalögin yfir höfuð með tilliti til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á íslensku efnahagslífi því almennt er talið að það sé heppilegra að hverfa frá alls konar verðbindingum sem voru sett í skattalög á sínum tíma til þess að verjast verðbólgunni en eru nú úrelt orðin eftir að hagstjórn hefur breyst mikið hér á landi.
    Um það hvort þetta ákvæði hafi náð tilgangi sínum vil ég segja að það hefur án efa talsverða þýðingu að álögurnar séu háar. Ég held að það sé þó ekki úrslitaatriði hvort þetta er 1% eða 2%. Ég bendi á að öll innheimta er nú miklu harðari en nokkurn tíma áður, ekki síst vegna þess að fyrir örfáum árum breyttist staða þessara krafna ríkissjóðs á þá leið að þessar kröfur eru ekki lengur forgangskröfur í gjaldþrotabú.