Endurskoðun grunnskólalaga

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:45:07 (4225)


[13:45]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. menntmrh. Mér leikur forvitni á að vita hvað líður störfum nefndar sem er að vinna að endurskoðun grunnskólalaganna. Ef ég man rétt var það hvorki meira né minna en 18 manna batterí sem hæstv. ráðherra setti í það mál, 17 plús 1 hafa sumir kallað það, þ.e. 17 úr kerfinu á Reykjavíkursvæðinu og einn utan af landi. Spurningin er hvort þess sé að vænta að frv. til laga um breytingu á grunnskólalögum komi fram og þá hvenær. Ég vil að vísu taka fram í leiðinni að ég sé enga ástæðu til að umbylta nýjum grunnskólalögum sem ágæt samstaða var um þegar þau voru afgreidd. Það sem á skortir er að standa við þau og framkvæma þau.
    Ég vil enn fremur í leiðinni spyrja hæstv. menntmrh. með vísan til þeirrar óvissu sem þessi endurskoðunarvinna hefur skapað um málefni grunnskólans, hvort það sé ætlan hæstv. ráðherra að halda við fyrri ákvörðun um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna um mitt sumar 1995, eftir eitt og hálft ár eða tæplega það, og hvort hæstv. ráðherra sé enn þeirrar skoðunar að það sé tæknilega framkvæmanlegt og skynsamlegt að halda við þá ákvörðun í ljósi þess hvernig það mál er á vegi statt hvað undirbúning snertir og í ljósi tengsla þess við breytingar ef verða kunna á grunnskólalögunum.