Endurskoðun grunnskólalaga

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:51:20 (4229)


[13:51]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hafa fullan fyrirvara á. Ég veit ekki í hvers umboði hæstv. menntmrh. lofar góðum viðtökum við frv. sem til að mynda stjórnarandstaðan hefur bókstaflega hvergi nálægt komið á nokkurn hátt. Þannig að það á eftir að sýna sig væntanlega.
    Í öðru lagi er mér varðandi yfirfærsluna til sveitarfélaganna ekki kunnugt um að þær starfsnefndir sem hæstv. ráðherra vitnaði til hafi tekið til starfa fyrr en þá tiltölulega mjög nýlega því upplýst var hér fyrir ekki löngu síðan að sú nefnd til að mynda sem ætti að skoða réttindamál kennara eða starfsmanna skólanna hafði ekki komið saman til fundar og var reyndar mjög seint sett á laggirnar eins og kunnugt er. Í ljósi þess hversu flókin og vandasöm þau mál eru hlýtur að vera nokkur vafi á því að undirbúningurinn sé á því stigi að þetta sé skynsamleg áætlun, burt séð frá því hvort það er það yfirleitt, að tímasetja þetta um mitt sumar 1995. Það getur ekki skipt sköpum hvort þetta er gert árinu fyrr eða árinu seinna þó svo menn kynnu að verða sammála um að gera það að lokum.