Endurskoðun grunnskólalaga

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:52:37 (4230)

[13:52]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er ekkert óeðlilegt við það þótt þær tvær nefndir sem ég gat um áðan hafi tekið til þess að gera nýlega til starfa. Það er t.d. ekki hægt að reikna út kostnaðinn við yfirfærslu grunnskólans fyrr en frv. liggur fyrir í endanlegri mynd vegna þess að það verður að sjálfsögðu tekið mið af hinum nýjum lögum en ekki þeim sem gilda í dag.
    Varðandi hina nefndina sem vinnur að athugun á réttindamálum kennara, þá veit ég það af viðtölum við formann nefndarinnar að þar eru mál í mjög eðlilegum farvegi og starfið gengur vel. Formaðurinn hefur haft af mjög eðlilegum ástæðum samstarf við mig um það sem þar er verið að gera. Þar hefur verið safnað miklum upplýsingum og málið allt í, eins og ég segi, mjög eðlilegum farvegi. Menn mega orða það svo ef þeir vilja að stjórnarandstaðan hafi hvergi komið nærri. Þó er mér kunnugt um að starfsmenn nefndarinnar, 18 manna nefndarinnar, hafi á fyrri stigum málsins alla vega mætt eftir beiðni á fundum þingflokka stjórnarandstöðunnar. Ég veit ekki hvort þeir hafa mætt hjá Alþb. Því miður veit ég það ekki.