Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:28:53 (4250)


[14:28]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Mér finnst þetta næsta einkennilegur málflutningur hjá þeim sem efast um að við Íslendingar höfum rétt samkvæmt EES-samningnum til þess að taka á þessu máli og knýja frönsku ríkisstjórnina til að breyta um stefnu. Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins eða Evrópusambandsins er auk þess á sama máli, að franska ríkisstjórnin hafi brotið þá samninga sem hún hefur gert. Og það styrkir ekki málstað okkar að flytja ræður eins og fluttar hafa verið um það að við höfum engin tæki til þess að fá þessari ákvörðun hnekkt. Við höfum þau tæki og þeim tækjum á að sjálfsögðu að beita.

    Það hefur komið fram í umræðum um þetta mál að hér er um pólitískar ákvarðanir frönsku ríkisstjórnarinnar að ræða til stuðnings 16 þúsund sjómönnum sem stunda fiskveiðar í Frakklandi. Og ég ítreka að þetta er pólitísk ákvörðun sem verður náttúrlega að ræða við Frakka einnig á pólitískum forsendum um leið og beitt er þeim tækjum sem við höfum til að brjóta ákvarðanir á bak aftur samkvæmt alþjóðasamningum. Og ég minni á það að á sínum tíma þegar François Mitterrand, forseti Frakklands, kom í opinbera heimsókn hingað til Íslands þá lýsti hann því yfir að hann hefði mikinn skilning á sérstöðu Íslendinga sem fiskveiðiþjóðar og sjávarútvegsþjóðar. Hann bauðst til þess þegar hann var hér á landi að leggja Íslendingum lið til þess að þeir gætu stundað sínar fiskveiðar og staðið að sínum sjávarútvegi sem fiskveiðiþjóð eins og þeir hljóta að muna sem tóku þátt í viðræðum við forsetann á sínum tíma.
    Ég tel að nú sé ástæða til þess fyrir hæstv. utanrrh. um leið og ég tel að hann hafi haldið rétt á málum varðandi þetta gagnvart Frökkum á vettvangi EES að leita til forseta Frakklands og minna á þær pólitísku yfirlýsingar sem hann gaf þegar hann kom hingað í opinbera heimsókn og vekja máls á þessu með pólitískum rökum eins og þarf að gera því að hér er um pólitískar ákvarðanir franskra stjórnvalda að ræða til þess að hjálpa sínum sjómönnum.