Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:31:18 (4251)


[14:31]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það sem einkum hefur vakið athygli mína í umræðum um málið að undanförnu er að það hefur verið litið svo á að Frakkar geti, ef það virkar ekki að misbeita heilbrigðisreglum og smásmygli af ýmsu tagi, gripið til öryggisákvæðisins, sem oft hefur verið alger nauðvörn og við Íslendingar höfum einnig vissulega velt mikið fyrir okkur. Miðað við þann gang mála sem þá hefst sýnist mér ekki að mótaðgerðir okkar vegi nokkurn skapaðan hlut í þeirri innanlandspólitík sem vissulega er verið að reka í Frakklandi. Þá er augljóst mál að það eru meiri hagsmunir að hafa sjómenn góða, það hefur þegar komið í ljós, en það hvort Íslendingar kaupa nokkrum rauðvínsflöskum, bílum eða ilmvatnsglösum meira eða minna af Frökkum því að það eru okkar möguleikar til þess að halda uppi vörnum. Þannig að ég óttast að ef þetta getur heyrt undir öryggisreglurnar og það hef ég ekki heyrt vefengt, þá muni það verða næsti möguleiki Frakka að nýta sér þá leið. Ég verð að viðurkenna það að ég held að við stöndum jafnvel verr með EES-samninginn en án hans í ljósi þessa.