Stöðvun verkfalls fiskimanna

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 15:38:45 (4267)


[15:38]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mitt andsvar lýtur að því sem ekki kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og ekki kemur fram á nál. 592, en rifja upp að við 1. umr. þessa máls fór stór hluti af þeim tíma í að fjalla um hvort rétt hafi verið staðið að útgáfu þessara bráðabirgðalaga. Það komu hér fram mjög alvarlegar ásakanir í garð sumra hæstv. ráðherra og einnig í garð forseta sem sat þá á forsetastóli og var ég sjálfur. Það kom fram krafa um að ég frestaði fundi um nokkra daga þangað til hæstv. forsrh. kæmi heim, svo alvarlegt var málið, sem ég neitaði. En ég heyrði þá þær alvarlegustu ásakanir sem ég hef heyrt hér í þingsal í garð forseta við hans störf. Ég bjóst þess vegna við því að þær ásakanir sem komu hér fram á hendur hæstv. ráðherra yrðu skoðaðar gaumgæfilega að frumkvæði þeirra sem þær settu fram í starfi hv. sjútvrn. og kannað hvort fótur og rök lægju að baki. Það var ekki gert. Ekki ein einasta spurning eða ósk kom fram um þetta mál. Ráðuneytisstjórinn í forsrn. mætti meira að segja fyrir hv. sjútvn. en var ekki spurður um þetta atriði. Ég lít svo á að þarna voru fram settar órökstuddar dylgjur og öll þau orð dæmd dauð og ómerk.