Stöðvun verkfalls fiskimanna

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 15:42:18 (4269)


[15:42]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég setti ekki fram slíkar kröfur um slíka athugun. Þær voru settar hér fram með eftirminnilegum hætti við 1. umr. málsins og ég bjóst við því að þeim yrði fylgt eftir í nefndarstarfi hv. sjútvn. Það var ekki gert. Það sýnir að þær kröfur sem settar voru fram við 1. umr. málsins, um að ég mundi fresta fundi sem forseti, þær voru órökstuddar og ekki mark á þeim takandi. Þessar kröfur fólu það m.a. í sér að forseti hefði átt að misbeita valdi sínu í þágu pólitísks málstaðar og misnota þannig þingið í þágu hluta hv. þm. eða hluta af stjórnarandstöðunni sem þar talaði. Það gerði ég ekki og það var rétt og hefur komið fram að sú afstaða var rétt.