Vinna við búvörulagafrumvarp

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 10:35:02 (4273)


[10:35]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að málefni landbúnaðarins hafa verið í brennidepli hjá stjórnarflokkunum síðustu daga og nú er landbn. boðuð á fund í hádeginu til þess að fjalla um frv. til breytinga á búvörulögum.
    Nú lesum við það í Morgunblaðinu í morgun að fulltrúi Alþfl. í nefndinni og talsmaður flokksins í þessum málum lýsir því yfir að málið sé svo heitt pólitískt að það sé ekki á færi hv. landbn. að fjalla um málið og það verði að leysast á ráðherragrundvelli. Títtnefndur fulltrúi Alþfl., talsmaður í þessum málaflokki, vitnar stöðugt í samkomulag stjórnarflokkanna um þetta mál sem ekki megi brjóta út af.
    Virðulegur forseti. Nú hlýt ég að spyrja hvort svo sé komið að hæstv. forsrh. hafi hugsað sér að taka málið út úr þinginu aftur, samanber þær yfirlýsingar Alþfl. að málið sé á því stigi að landbn. sé ekki treystandi til að fjalla um það frekar og það verði að fara til ríkisstjórnarinnar aftur.
    Ég verð að segja það að mér finnst málatilbúnaður rkisstjórnarinnar síðasta árið í þessu máli þannig að ég sé ekki hvernig hún ætlar að vinna úr þessu frekar. Ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé meiningin að taka málið aftur út úr þinginu og það fari aftur á umfjöllunarstig ríkisstjórnar.