Vinna við búvörulagafrumvarp

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 10:38:04 (4275)


[10:38]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að skilja orð hæstv. forsrh. svo að hann geri ekkert með yfirlýsingar Alþfl. í málinu. Ég hlýt í framhaldi af því að grennslast eftir því hvort málum sé þá þannig komið fyrst hæstv. forsrh. treystir landbn. til þess að fjalla um málið að hann sé þá tilbúinn til þess að láta meirihlutavilja Alþingis koma fram í málinu við afgreiðslu. Ég spyr að gefnu tilefni þar sem í eilítið svipaðri stöðu

í fyrravor brá hæstv. forsrh. á það ráð að slíta þingi í hasti til þess að vilji Alþingis næði ekki fram að ganga. Ég hlýt því að skilja þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. sem svo að hann sé orðinn svo þreyttur á Alþfl. í þessu máli að nú eigi bara að láta á það reyna hver sé vilji Alþingis í málinu af því að það liggi ljóst fyrir að stjórnarflokkarnir geti ekki myndað neina heildstæða línu í þessu brýna hagsmunamáli fyrir heilan atvinnuveg á Íslandi sem á að fara að starfa eftir nýjum leikreglum um næstu áramót. En hæstv. ríkisstjórn getur ekki einu sinni komið sér saman um eftir hvaða lögum á að starfa, hvað þá að við höfum séð nokkuð frá hæstv. ríkisstjórn um það hvernig á að beita þeim tollígildum sem við höfum heimild til að gera.