Vinna við búvörulagafrumvarp

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 10:40:14 (4276)


[10:40]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það er afskaplega mikilvægt fyrir þessa atvinnugrein að geta búið við öruggar og ljósar reglur. Við lentum í því, ef ég má nota það orðalag, að dómur Hæstaréttar á dögunum skapaði mikla réttaróvissu. Viljinn stendur til þess að koma málum í það horf sem Alþingi vildi sjálft í desember og tryggja um leið að lögfræðilega sé vel frá hnútum gengið. Þannig að allir, jafnt í þessari grein sem öðrum, gangi ekki að því gruflandi hvaða lög eru í landinu um þessi efni. Það er afskaplega mikilvægt.
    Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. nefndi þá veit ég ekki annað en samkvæmt starfsáætlun þingsins sé miðað við það að sitjum hér út aprílmánuð að þingstörfum. Ég hef engar ráðagerðir um breytingar á því og ég er ekki í vafa um það að hv. landbn. klárar málið með sóma löngu fyrir þann tíma.