Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 10:41:27 (4277)


[10:41]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mun í fáum orðum fjalla um ársskýrslur Byggðastofnunar fyrir árin 1991 og 1992 en mun verja megintíma mínum þegar næsta mál verður tekið á dagskrá.
    Umræður um starfsemi Byggðastofnunar á árinu 1991 hafa því miður ekki farið fram en þeim var frestað ítrekað á síðasta þingi. Ég tæpi því með örfáum orðum á nokkur meginatriði sem snerta starfsemi þeirrar stofnunar fyrir það ár.
    Á árinu 1991 var lögum um Byggðastofnun breytt og henni falin ný verkefni. Markmið lagabreytingarinnar var einkum að draga úr mikilvægi lánastarfsemi hennar en leggja þess í stað aukna áherslu á hlutverk hennar í atvinnuþróunarstarfi. Segja má að árið 1991 hafi verið ár uppgjörs varðandi fjárhag og fjárhagsstarfsemi stofnunarinnar en þá fór fram endurmat á afskriftareikningi hennar. Þetta var m.a. gert mögulegt með því að á árinu yfirtók ríkissjóður 1,2 milljarða af skuldum stofnunarinnar við Framkvæmdasjóð Íslands. Með þessu færðist eiginfjárstaða Byggðastofnunar nær raunveruleikanum, líkt og segir í ársskýrslu árssins 1991.
    Fjármál Byggðastofnunar hafa komið áður til ítarlegrar umræðu í þinginu á undanförnum missirum. Því er óþarfi eftir umræður sem m.a. fóru fram þegar rætt var um starfsemi Byggðastofnunar árið 1990 og um skýrslu fortíðarvandanefndar að ræða þau mál ítarlega nú.
    Sem áður segir setti forsrn. stofnuninni reglugerð í febrúarmánuði 1992. Í reglugerðinni eru sett nánari ákvæði um ýmis atriði í starfsemi stofnunarinnar, m.a. er þar fjallað um hlutverk byggðaáætlana, bæði svæðisbundinna áætlana og hina stefnumótandi byggðaáætlun til fjögurra ára fyrir landið allt, en rætt verður nánar um þá áætlun undir næsta lið.
    Þá er í reglugerðinni fjallað ítarlega um fjárhagsmálefni stofnunarinnar. Þar er m.a. sett ákvæði um að henni sé ætlað að varðveita raungildi eigin fjár síns. Stofnuninni er þannig sett mjög ákveðið fjárhagslegt markmið. Jafnframt er henni ætlað að leggja tiltekið framlag í sérstakan afskriftareikning sem nemur þeirri áhættu sem stofnunin telur felast í einstökum lánveitingum. Stofnuninni er ekki heimilt að taka meiri áhættu á ári en sem svarar þeirri fjárhæð sem lögð er á afskriftareikning samkvæmt rekstraráætlun.
    Í reglugerðinni eru tekin af tvímæli um að stofnuninni sé ekki heimilt að leggja fram hlutafé í fyrirtæki beint. Hér á eftir verður nokkuð vikið að því hvernig til hefur tekist með framkvæmd reglugerðarinnar.
    Verulegar skipulagsbreytingar hafa staðið yfir hjá Byggðastofnun á undanförnum árum. Þessar breytingar stefna að því að færa verulegan hluta af starfsemi stofnunarinnar frá Reykjavík til landsbyggðarinnar. Á árinu 1992 var opnuð skrifstofa á Egilsstöðum og á haustdögum 1993 á Sauðárkróki. Jafnframt hefur starfsmönnum á aðalskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík verið fækkað og eru stöðugildi þar 20, 10 færri en fyrir tveimur árum.
    Aðalskrifstofa Byggðastofnunar í Reykjavík annast samskipti við miðstjórnarkerfi stjórnsýslu og fjármagns, gerð stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir landið allt og samræmingar og stoðhlutverk fyrir svæðisskrifstofur. Hins vegar er skrifstofan í Reykjavík svæðisskrifstofa fyrir Vesturland, Suðurnes og Suðurland sem er innan þjónustusvæðis höfuðborgarinnar.
    Önnur starfsemi stofnunarinnar fer fram á svæðisskrifstofunum fjórum: Á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Egilsstöðum.
    Samkvæmt reglugerðinni um Byggðastofnun skal stofnunin gera rekstraráætlun fyrir ár hvert þar sem fram komi áætlaðar tekjur og hvernig þeim sé ráðstafað í rekstrarkostnað, styrki og framlag í afskriftarsjóð.
    Áætlun ársins 1992 stóðst í öllum meginatriðum. Stjórn stofnunarinnar samþykkti 240 lánsumsóknir að upphæð 1 milljarði 243 millj. kr. en þar af voru nær 500 millj. kr. ógreiddar í árslok. Útborguð lán voru 920 millj. kr. og hafa þau farið minnkandi frá árinu 1988. Er það í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að draga úr lánastarfsemi en auka á móti vægi annarra þátta.
    Í samræmi við reglugerðarákvæði var á árinu 1992 framkvæmt áhættumat samhliða ákvörðun veitingu lána og var þá tekið mið af áætluðu endursöluverði veða, forgangi veðhafa, fjárhag fyrirtækjanna og rekstarmöguleikum þeirra. Lagt var í varasjóð til að mæta áhættu hvers láns og samtals ráðstafaði stofnunin 140 millj. kr. af tekjum sínum til að mæta áhættu af nýjum útlánum á árinu. Með þessum hætti er stofnunin mun betur í stakk búin til að verjast hugsanlegum áföllum í framtíðinni.
    Áhætta í útlánum hefur aukist mjög á síðustu árum. Vegna þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í íslensku atvinnulífi hefur fjárhagsstaða margra fyrirtækja versnað. Afli hefur dregist verulega saman á ýmsum stöðum og verð á mikilvægustu fiskafurðum fór mjög lækkandi. Söluverð atvinnuhúsnæðis hefur lækkað verulega og á síðari missirum hefur orðið verðlækkun á skipum og aflaheimildum. Tryggingar fyrir lánum Byggðastofnunar hafa því versnað. Nýlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar vaxta munu þó koma skuldugum fyrirtækjum mjög til góða og draga úr útlánatöpum banka og sjóða þegar til lengri tíma er horft. M.a. vegna þess forgangs um tryggingar sem aðrir opinberir sjóðir njóta umfram Byggðastofnun er óhjákvæmilegt að stofnunin taki áhættu í útlánum enda er það í samræmi við hlutverk hennar. Engu að síður er mikilvægt að stofnunin fylgist vel með áhættu í nýjum útlánum þannig að hún geti fjármagnað hana á hverju ári með tekjum sínum. Það markmið náðist á árinu 1992.
    Það er því ljóst að almennt hafa ákvæði reglugerðarinnar um fjárhagsstjórnun Byggðastofnunar reynst vel en á hinn bóginn er ljóst að útlánatap vegna eldri lána kann að aukast frá því sem áður hafði verið áætlað vegna erfiðari ytri aðstæðna.
    Samkvæmt reglugerðinni er stofnuninni ekki lengur heimilt að leggja fram hlutafé í fyrirtæki önnur en fjárfestingar- og þróunarfélög. Á árinu 1992 gerðist stofnunin hluthafi í Iðnþróunarfélagi Eyjafjarðar hf. og greiddi að mestu fyrir með hlutabréfum í fyrirtækjum á svæðinu sem stofnunin hafði eignast. Stofnunin gerðist einnig hluthafi í atvinnuþróunarfélagi í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar með er stofnunin hluthafi í öllum atvinnuþróunarfélögum á landsbyggðinni sem rekin eru með hlutafélagsformi. Þau hlutabréf sem stofnunin á hafa verið auglýst til sölu í samræmi við fyrirmæli í reglugerð. Sá þáttur í starfsemi Byggðastofnunar sem hefur vaxið mest er stuðningur við atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni. Það starf er þó enn í mótun og ljóst að árangur af því ræðst mjög af fjárhagsgetu stofnunarinnar.
    Á árinu 1992 námu styrkveitingar hennar samtals um 95 millj. kr. Gert hefur verið samkomulag við flest landsvæði um fyrirkomulag atvinnuráðgjafar og stofnunin hefur stutt tímabundin átaksverkefni á nokkrum stöðum. Til þessara verkefna fóru samtals 38 millj. kr. Þá hefur stofnunin stutt ýmiss konar verkefni í ferðaþjónustu og fóru til þess rúmar 10 millj. kr. Til nýsköpunarverkefna fóru tæplega 15 millj. kr. Framkvæmdastyrkir vegna fiskeldis námu 22 millj. kr. og til ýmissa verkefna fóru um 11 millj. kr. Styrkveitingar hafa heldur dregist saman í heild en til atvinnuráðgjafar árið 1993 var veitt sömu fjárhæð og á árinu 1992. Varðandi samdrátt í styrkveitingum vil ég nefna að ég tel sterklega koma til álita að enn frekar verði dregið úr útlánaáhættu og framlögum í afskriftareikning en að styrkir til atvinnuþróunarverkefna verði auknir þess í stað.
    Virðulegi forseti. Ég mun á eftir ræða ítarlegar um starfsemi Byggðastofnunar og þá stefnumótun sem stjórn Byggðastofnunar hefur gert og ríkisstjórnin samþykkt.