Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 11:06:03 (4279)


[11:06]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér eru til umræðu ársskýrslur Byggðastofnunar fyrir árin 1991 og 1992. Er það vissulega seint sem þær skýrslur koma til umræðu. Því hlýtur að koma í hugann ýmislegt sem gerst hefur á þeim tíma sem liðinn er síðan. Í þessum skýrslum er fyrst og fremst fjallað um rekstur Byggðastofnunarinnar sjálfrar og starfsemi hennar. Það er vissulega til fyrirmyndar að birta yfirlit yfir allar lánveitingar þannig að það kemur glöggt fram hvernig Byggðastofnun hefur ráðstafað sínu fjármagni. Hins vegar er í þessum skýrslum ekkert fjallað um árangurinn af því verkefni sem Byggðastofnun hefur, þ.e. að styrkja byggð í landinu og hvernig staða landsbyggðarinnar hefur þá verið á þessum tíma. Hæstv. forsrh. drap örlítið á það í sínu máli en afar stutt og hefði vissulega verið eðlilegt að þar hefði verið fjallað ítarlegar um stöðu landsbyggðarinnar og þróun.
    Hæstv. forsrh. sagði að það hefði verið erfiðar ytri aðstæður á þessu tímabili og því hefðu þær forsendur sem menn lögðu fyrir áætlunum fyrir fram brugðist, en orsakir þessa samdráttar ræddi hann ekki. Hann taldi þó að von væri til að nú væri eitthvað bjartara fram undan vegna vaxtalækkunarinnar. Þar með hljótum við að álykta að hinir háu vextir sem ríktu lengst af á þessum tíma og allt fram undir þetta hafi verið ein helsta orsök fyrir því hversu þungur róðurinn var og geta sjálfsagt flestir tekið undir það sem hafa staðið í atvinnurekstri. Því hefur hin mikla vaxtahækkun sem varð þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð áreiðanlega verið mjög mikið áfall fyrir byggðaþróun.
    Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að það hefur orðið samdráttur í lánveitingum. Út af fyrir sig er hægt að taka undir það að lánveitingar leysa ekki allan vanda. Sérstaklega þegar þungt er fyrir fæti hjá atvinnulífinu getur það verið skammgóður vermir að fá mikil lán. Þess vegna þarf að leita annarra úrræða og þá er það að sjálfsögðu sérstaklega eigið fjármagn sem þarf að reyna að auka. Því miður hefur það ekki vaxið á móti samdrætti í lánveitingum því að bæði hafa fjárveitingar til Byggðastofnunar lækkað og reglugerð, sem hæstv. forsrh. gaf út á þessu tímabili og nánar verður rædd hér af öðrum síðar, batt algerlega hendur Byggðastofnunar með að leggja fram eigið fjármagn eða hlutafé nema í gegnum atvinnuþróunarfélög. Þar hefur heldur ekki verið um háar upphæðir að ræða til stofnunar atvinnulífs eða rekstrar. Eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, þá er vitanlega þörf á miklu meira fjármagni til þeirra hluta, sérstaklega vegna þess hvað eiginfjárstaða atvinnulífsins í landinu er orðin slæm núna.
    Hæstv. forsrh. ræddi ekkert um stöðu atvinnulífsins að öðru leyti og vissulega væri ástæða til þess að taka atvinnumálaumræðu, en það verður ekki gert innan þess ramma sem þessi umræða leyfir. En við vitum að það eru fyrst og fremst landbúnaður og sjávarútvegur sem eru undirstaða atvinnulífsins í þessum dreifðu byggðum og ef þar er þungt fyrir fæti, þá leiðir af sjálfu sér að landsbyggðin er ekki vel á vegi stödd. Þar hafa orðið ýmsir erfiðleikar sem ekki hefur verið unnt að ráða við eins og samdráttur á mörkuðum hvað varðar landbúnaðinn. En þegar þannig stendur á er að sjálfsögðu enn þá mikilvægara að ríkisvaldið geri það sem í þess valdi stendur til þess að bæta stöðuna að öðru leyti. Ég vil því sérstaklega víkja örfáum orðum að því hvernig búið hefur verið að landbúnaðinum á þeim sviðum sem eru á valdi ríkisvaldsins, en þar er því miður, sérstaklega á síðasta ári, um mikla sorgarsögu að ræða.
    Það er alger forsenda fyrir því að einhver atvinnuvegur geti búið við viðunandi öryggi að vita við hvaða aðstæður hann á að búa í sínum atvinnurekstri frá hálfu ríkisvaldsins, en þar hefur því miður verið hver uppákoman eftir aðra allt sl. ár og ríkisvaldið hefur alls ekki sinnt þeirri frumskyldu sinni að hafa

mál þar í viðunandi horfi. Þar hafa önnur atriði ráðið heldur en sú skylda að hugsa um hagsmuni atvinnuvegarins.
    Við minnumst þess að á sl. vori þegar átti að afgreiða hér á Alþingi lög sem sköpuðu landbúnaðinum betri starfsskilyrði eða meira rekstraröryggi, þá ákváðu stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin að varpa hagsmunum atvinnuvegarins fyrir borð og afgreiddu ekki það mál og létu duttlunga og ósamkomulag innan ríkisstjórnarinnar ráða ferðinni. Afleiðingin af því hefur svo verið sú uppákoma sem hefur staðið alveg síðan. Það er vissulega algerlega ófyrirgefanlegt af ríkisvaldi að halda þannig á málum og því miður er ekki enn þá séð fyrir endann á því.
    Við vitum að samdráttur á mörkuðum landbúnaðarins hefur verið mikill og erfitt fyrir ríkisvaldið að ráða við það, en þeim mun brýnna er að halda þá vel á þeim málum sem eru í hendi ríkisvaldsins að gera. Og það er ótrúleg, má segja, fyrirlitning á því verkefni sem ríkisvaldið hefur tekið sér fyrir hendur, að annast hagsmuni undirstöðu þjóðfélagsins, að halda þannig á málum. Og því miður hefur ekki einu sinni verið látið nægja slíkt tómlæti. Við þekkjum líka öll þá umræðu og þá neikvæðu umfjöllun sem atvinnuvegurinn hefur fengið af hálfu ríkisfjölmiðils og ég skal ekki fara fleiri orðum um hér.
    Eins og ég sagði væri margt hægt að ræða um þetta liðna tímabil. Að sjálfsögðu er það samt framtíðin sem skiptir mestu máli. Um það mun verða fjallað hér á eftir þegar hæstv. forsrh. mælir fyrir byggðaáætlun næstu ára. Þá kemur vonandi í ljós í framsöguræðu hæstv. forsrh. hvernig ríkisstjórnin ætlar að snúa frá villu síns vegar og halda betur á byggðamálunum heldur en gert hefur verið að undanförnu.