Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 12:11:38 (4286)


[12:11]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í sambandi við þá ákvörðun hæstv. umhvrh. að flytja embætti veiðistjóra til Akureyrar, þá held ég að einmitt hafi verið mjög vandað til alls undirbúnings hvað það mál snertir. En eins og ég nefndi í minni ræðu þá er þetta viðkvæmt mál og snertir hagsmuni alla vega starfsfólksins. Ef starfsfólkið treystir sér ekki til að flytja með má búast við að það verði ekki auðvelt að standa að slíkum flutningi. Alla vega er hann sársaukafullur fyrir það starfsfólk sem ekki flyst með stofnuninni. Eigi að síður er slíkt óhjákvæmilegt. En að undirbúningi málsins var að því er ég best veit mjög vel staðið.
    Í sambandi við orð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar þá langar mig til að segja enn fremur að þetta með að flytja ríkisstofnanir út á land er verkefni sem þessi ríkisstjórn tók upp. Síðast árið 1975 kom fram skýrsla með tillögum um að flytja 25 stofnanir frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Engin af þeim tillögum komst til framkvæmda þannig að málið hefur að mestu legið í þagnargildi síðan þar til þessi nefnd núna skilar sinni skýrslu með sínum tillögum. Auðvitað er eðlilegt að þetta taki allt sinn tíma og þarfnast náttúrlega þess að það sé vel undirbúið og vel rætt. Ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson leggur áherslu á það. Það þarf líka að skoða það og meta í framtíðinni hvernig og hvort við getum skipt stofnununum upp og flutt hluta þeirra á landsbyggðina þótt miðstöðvar verði hér í Reykjavík.