Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 12:14:09 (4287)


[12:14]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er einmitt á þessu síðasta sviði sem hér var nefnt þar sem ekki hefur verið staðið að eins og þurft hefði að vera, að minnka stofnanaveldið hér í Reykjavík með því að færa þjónustuþættina út til landshlutanna, út í kjördæmin. En vegna flutnings á embætti veiðistjóra, sem kom fram í upphaflegri ræðu hv. þm. og hann var að telja að hefði verið til sérstakrar fyrirmyndar, þá tel ég mig hafa um það upplýsingar að það hafi verið þveröfugt, því miður. Ég óttast að upptaka þess máls, sem ég tel mig vita að hafi ríkt af hálfu viðkomandi ráðherra, hafi verið þannig að það verði til að hræða. Það verði til að hræða og það verði til að spilla verulega fyrir því markmiði sem ég held að a.m.k. allir umbjóðendur og þingmenn af landsbyggðinni hafi fullan skilning á og margir þingmenn einnig á höfuðborgarsvæðinu vilji taka undir. En það þýðir ekki og má ekki fara með fólk eins og þar sé um dauða hluti að ræða. Og ég tel það ekki til fyrirmyndar ef starfsmenn og yfirmenn viðkomandi embættis fá ekki um það upplýsingar, ég vildi segja fyrstir manna, að ráðgert sé að flytja viðkomandi stofnun heldur sé það tilkynnt eftir á, eftir að búið er að greina öllum landslýð frá því hvað til standi og það sé orðin ákvörðun viðkomandi ráðherra. Þannig komast menn ekki langt ef staðið er að málum með slíkum flumbrugangi.
    Ég geri ráð fyrir að þetta mál verði upplýst með skýrari hætti en tök eru á hér áður en langt um líður. En ég harma það að þetta slys hafi orðið í vinnubrögðum að því er varðar þennan tilflutning.