Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 12:35:09 (4290)


[12:35]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Því miður gat ég ekki hlýtt á ræðu forsrh. þegar hann kynnti þessa skýrslu í morgun, en hef reynt að kynna mér það samt sem áður þó að ég hafi misst af framsöguræðunni.
    Það eru mjög stór mál sem við erum að ræða hér, bæði skýrslu Byggðastofnunar og síðar í dag byggðaáætlun. Ég ætla að reyna að halda mig við það sem mér finnst athyglisverðast í skýrslunum tveimur og fara heldur í áætlunina síðar í dag.
    Þessar tvær skýrslur gefa það greinilega til kynna, og ég heyrði það raunar í máli hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, að það hafa orðið þáttaskil í starfi stofnunarinnar frá árinu 1991. Það er alveg greinilegt ef maður lítur yfir bæði lögin um Byggðastofnun, sem breytt var á árinu 1991, og þá reglugerð sem síðan er sett á árinu 1992, að það er verið að þrengja mjög hag stofnunarinnar til þess sem áður hafði verið ákveðið með lögum frá 1985. Hér með er Byggðastofnun algerlega bannað að eiga hlut í fyrirtækjum nema það séu atvinnuþróunarfélög og hugsanlega geta atvinnuþróunarfélögin staðið að því á ýmsan hátt. Ég verð samt að lýsa því yfir að á þessum tíma þegar lögin voru samþykkt 1991 með þessum breytingum, þá leist mér svo á að það væri rétt að stefna frekar í það að Byggðastofnun hefði með þróunarmálin að gera, að hún hefði mótandi áhrif, að hún gerði áætlanir sem fylgt væri eftir heldur en beinlínis að pólitískt kjörnir fulltrúar tækju ákvörðun um í hvaða fyrirtæki sérstaklega væri veitt fjármagn.
    Hins vegar er því ekki að leyna að Byggðastofnun var líka áður en þessi breyting kom til áhættulánasjóður fyrirtækja, bæði til þess að byggja sig upp, til þess að endurskipuleggja og til þess að stofna ný fyrirtæki. Hún var sá áhættulánasjóður sem hún er í raun og veru ekki lengur. Og það hefur oft og tíðum komið fram í umræðum sérstaklega um byggðamál og atvinnumál að menn sakna þess nú að enginn slíkur sjóður sé til sem hafi það hlutverk að vera áhættulánasjóður því það er aldrei hægt að koma á fót neinum fyrirtækjum og stuðla verulega að nýsköpun ef ekki er til áhættulánsfé
    Það kemur líka fram í þeim reikningum sem við skoðum hér fyrir árið 1991 og 1992 að Byggðastofnun og byggðasjóður var þessi áhættulánasjóður. Það sjáum við á gjöldum sem eru í reikningi að á árinu 1991 er framlag í afskriftareikning útlána tæpir 2 milljarðar kr. Það hefur hins vegar minnkað á árinu 1992 í 140 millj. Nú er ekki þar með sagt að það þurfi að afskrifa þetta allt saman, en þó er rétt að geta þess að árið 1991 lagði ríkissjóður einnig fram 1.200 millj. kr. til þess að koma til móts við erfiða stöðu Byggðastofnunar. Hins vegar er Byggðastofnun nú gert með þessum nýju lögum að varðveita sitt eigið fé og standa, eins og hvert annað fyrirtæki, ábyrgt fyrir sínu fjármagni og það ávaxti sig á eðlilegan hátt og Byggðastofnun sé nánast rekin eins og fyrirtæki. Það vil ég gagnrýna því að ég tel að það geti ekki farið saman við það hlutverk Byggðastofnunar að styðja við byggðir í landinu, styðja við atvinnuþróun og skapa skilyrði fyrir byggðirnar til að þróast á eðlilegan hátt. Það getur ekki farið saman þetta hlutverk Byggðastofnunar og það að hún hefur ekki fjármagn til áhættulána og að hana eigi að reka nánast eins og vel rekið fyrirtæki. Það gengur bara ekki upp þannig að mér finnst ekki algert samræmi í því hvernig ætlast er til Byggðastofnun sé rekin.
    Ég tel að það hljóti að koma í framhaldi af breyttu hlutverki Byggðastofnunar að hún hafi ákveðið fjármagn til að efla nýsköpun og að sú staðreynd sé viðurkennd að það fé skilar sér ekki alltaf til baka. Það er áhættufé og verður að vera það.
    Það er reyndar eitt sem ég hefði viljað spyrja hæstv. forsrh. um. Í ársreikningi fyrir árið 1991, þar sem verið er að gera grein fyrir efnahagsreikningi Byggðastofnunar, stendur að ábyrgð utan efnahagsreiknings sé 16 millj. 710 þús. Þetta er ekki í árrsreikningi fyrir 1992 og reyndar er sýnt í ársreikningi 1991 að þetta hefur einnig verið á árinu 1990. Þá hafa verið rúmar 22 millj. en 16 millj. ári síðar. Mér leikur forvitni á að vita hvaða ábyrgðir koma inn í Byggðastofnun utan efnahagsreiknings.
    Eins og ég sagði áðan held ég að það þurfi að skoða það hlutverk sem Byggðastofnun hefur fengið með þessum lögum og það þarf að vera samstarf milli ríkisins, milli Byggðastofnunar stjórnar hennar og sveitarfélaganna. Mér er kunnugt um að sú byggðaáætlun sem við ætlum að ræða í dag kom fram fyrir rúmu ári síðan en ég hygg að það hafi verið hætt við að leggja hana fram þá vegna þess að þá stóð yfir mikil umræða og vinna við sameiningu sveitarfélaga. Og í raun og veru var ekki hægt að leggja fram þá áætlun fyrr en séð væri hvernig færi með þá vinnu sem þá væri í gangi um sameiningu sveitarfélaga. Ég held að það hafi verið rétt að leggja ekki fram þessa byggðaáætlun þá þó svo að í lögum um stofnunina segi að hún hefði átt að vera komin fram fyrir tveimur árum síðan.
    Ég vildi einnig varpa þeirri spurningu til hæstv. forsrh. um þær byggðaáætlanir sem unnar hafa verið á undanförnum árum: Hvernig hefur verið staðið að því að framfylgja þeim? Hefur þeim byggðaáætlunum sem gerðar hafa verið yfirleitt verið framfylgt? T.d. hafa verið gerðar byggðaáætlanir fyrir Vestfirði. Hvernig hefur þeim verið framfylgt? Ég gat ekki fundið neitt um það sérstaklega í þessum skýrslum. Þótt hér séu rakin ákveðin mál sem stofnunin hefur tekið fyrir er þess ekki sérstaklega getið hvernig hafi verið farið með þær byggðaáætlanir sem Byggðastofnun hefur haft með að gera.
    Hins vegar eru átaksverkefni á árinu 1992. Þau eru vaxandi þáttur í starfi stofnunarinnar og það hygg ég að sé af hinu góða, en mér er spurn hvort það sé unnið þá skipulega, hvort þessum átaksverkefnum sé dreift eftir einhverju skipulagi milli landshluta eða fer það mest eftir því sem sótt er eftir frá hverjum stað fyrir sig?
    Það er einnig talað um að Byggðastofnun eigi að styðja við og hafa umsjón með starfsemi atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni. En ég veit ekki hvort atvinnuráðgjafar starfa í öllum landshlutum. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort svo er og hvernig þeirra starf er hugsað og framkvæmt.
    Ég sé að tími minn er að verða búinn í þetta sinn. Ég hef ýmsar fleiri spurningar en læt þetta duga að þessu sinni.