Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 13:06:53 (4296)


[13:06]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Stjórn Byggðastofnunar er hluti af framkvæmdarvaldinu og ég er þeirrar skoðunar og hef ekkert farið leynt með það að ég tel að menn ættu að draga úr frekar en auka skörunina sem er á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég tel að þingmenn eigi að draga úr því fremur en að viðhalda eða auka að sitja í stjórnum stofnana sem heyra undir framkvæmdarvaldið og útdeila þar peningum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það séu heppilegustu mennirnir sem eiga allt sitt undir vinsældum kjósenda að hafa mikla peninga undir höndum til útdeilingar.