Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 14:31:03 (4303)


[14:31]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði enn sem ég vildi koma á framfæri í sambandi við þessar skýrslur og byggðamál sem við erum hér að ræða. Það er þá í fyrsta lagi í ársskýrslunni fyrir árið 1991. Þar er minnst á fjarvinnslu. Þar er sagt að það hafi verið hvatt mjög til þess að koma á fjarvinnslu og verið reiknað með því að það gæti orðið til þess að auka atvinnu úti um landið. Við kvennalistakonur vorum mjög meðmæltar þessum atvinnurekstri og töldum að þetta gæti bætt talsvert úr, sérstaklega í atvinnumöguleikum kvenna. Það sýndi sig að það dugði ekki einu sinni þó á fjárlögum 1991 væru ætlaðar sérstaklega 5 millj. kr. til þess að hvetja opinberar stofnanir til þess að sækja eða leita eftir því að fjarvinnustofur á landsbyggðinni ynnu ákveðin verkefni. Það átti að styrkja opinberar stofnanir og ýmsar stofnanir til þess að leita eftir þessu. En það segir í skýrslunni fyrir árið 1991 að það sé skemmst frá því að segja að ári seinna hafi engin opinber stofnun sótt um þetta framlag. Hér er ekki um stórar upphæðir að ræða en mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort ekkert frekar hafi verið gert í þessu. Það er ekki minnst á þetta í skýrslunni fyrir árið 1992. Var ekkert frekar gert í því að hvetja stofnanir til þess að nýta sér starfsemi fjarvinnustofa?
    Ég þekki til á fjarvinnustofunni á Hvammstanga þar sem menn höfðu góðar vonir um að það fyrirtæki gæti gengið. Á tímabili unnu þar einir sex starfsmenn, en síðast þegar ég frétti var ekki nema sem svaraði einu og hálfu ársverki þar eða það voru tveir starfsmenn sem sinntu þar einu og hálfu ársverki og það leit engan veginn vel út með framhaldið. Mér þætti því gaman að heyra hvernig það stendur núna, hvort Byggðastofnun hefur eitthvað frekar sinnt þessu sérstaka verkefni.
    Hér hefur áður verið nefnt og ég nefndi það í minni fyrri ræðu, að mér finnst stangast á tilgangur Byggðastofnunar samkvæmt lögunum og það að Byggðastofnun hefur sífellt haft skert fjármagn handa á milli til þess að vinna úr þeim hugmyndum sem hún gæti komið á framfæri og henni er gert skylt samkvæmt 3. gr. laganna.
    Ég vil þó einnig gagnrýna það að í 3. gr. segir líka, með leyfi forseta: ,,Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni m.a. að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða lífvænlegar byggðir fari í eyði.``
    Ég tel að þetta sé nokkuð fast að orði kveðið vegna þess að óæskileg byggðaröskun eða að lífvænlegar byggðir fari í eyði, það getur verið mjög misjafnt hvernig á að meta það hvort um lífvænlegar byggðir sé að ræða. Og það sem hér var sett fram t.d. í tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun, þar sem verið er að ræða um sérstök vaxtarsvæði, þá virtist mér að frekast sé verið að tala um staði þar sem íbúafjölgun hefði orðið síðustu árin. Það var ekki tekið mið af því hvort atvinna hefði verið stöðug. Þannig að það getur verið mjög misjafnt hvernig menn ætla sér að meta þetta og ég tel að þarna sé verið að sníða Byggðastofnun nokkuð þröngan stakk að eiga í sífellu að meta það hvort þetta sé óæskileg byggðaröskun sem hún ætlar að koma í veg fyrir eða hvort sérstaklega sé um lífvænlegar byggðir að ræða. Ef byggðir eiga undir högg að sækja og leita sér aðstoðar Byggðastofnunar þá tel ég að ekki sé hægt að úrskurða það eftir einhverjum lögum hvort þær séu lífvænlegar eða ekki.
    Það sem skiptir máli þegar verið er að ræða um byggðaþróun er hvernig lífskjörin eru. Það skiptir auðvitað máli hvernig aðstaða heimilanna er og það skiptir máli hvernig aðstaða er með atvinnu. Í dag mundum við segja að atvinnan skipti mestu máli vegna þess að við horfum upp á það að atvinnuleysið er sífellt vaxandi. En það er líka annað sem skiptir máli og það er jöfnun lífskjara, það er verðlag á nauðsynjavöru og það er orkuverð.
    Það var eitt af meginmarkmiðum núv. hæstv. ríkisstjórnar að jafna orkuverðið. Það hefur mjög lítið gerst í þeim málum og er ég ein af þeim sem hafa gagnrýnt það mjög hér á Alþingi hversu lítið hefur skeð í þeim málum. Og meðan það gerist ekki þá þýðir ósköp lítið að gera eitthvað annað. Í raun og veru þýðir það ósköp lítið. Meðan lífskjörin eru ekki jöfnuð þá hljóta menn alltaf, fyrr eða síðar, að leita frá þeim stað þar sem lífskjörin eru erfið og ekki hvað síst við það atvinnuástand sem nú er. Þeir hljóta að leita þangað sem lífskjörin eru jafnari og þar sem er ódýrara að lifa. Og það segir sig sjálft að þegar menn þurfa að borga þrefalt verð fyrir að hita húsið sitt, þá getur komið að því að það og ekkert annað reki menn til þess að flytja. Jafnvel þó að það sé meiri atvinna á þeim sama stað. Þá skiptir það kannski miklu máli fyrir fólk ef það ætlar sér að reyna að lifa á atvinnuleysisbótum. Þær eru jú þær sömu úti á landi og í þéttbýlinu á suðvesturhorninu.
    Það er mjög stórt atriði í byggðamálum að jafna lífskjörin. Atvinnustefnan er auðvitað líka byggðastefna og atvinnustefnan í dag er því miður ekki upp á marga fiska. Það hefur verið talað um að jafna aðstöðu atvinnulífsins, jafna þannig að fyrirtækin hefðu rekstrargrundvöll. Þau hafa það bara alls ekki. Og við horfum líka fram á það að bæði sjávarútvegur og landbúnaður eru þannig í stakk búnir að það er ekki sjáanlegt á næstu mánuðum eða árum nein sérstök aukning í þeim störfum. Aukningin hefur verið og er sjáanlega í þjónustustörfunum. Hún er í ferðaþjónustu og þjónustustörfum.
    Það hefur líka komið fram í öllum þeim atvinnuleysistölum sem við horfum upp á, ekki hvað síst núna síðasta mánuð þegar atvinnuleysi hefur aldrei verið jafnmikið og það var í janúar, þá er atvinnuleysi 10% hjá konum til jafnaðar. Ég mundi vilja beina því til hæstv. forsrh. og stjórnar Byggðastofnunar hvort ekki sé hægt að reyna að bregðast við þessu atvinnuleysi kvenna með því að skipa sérstakan atvinnuráðgjafa fyrir konur í öllum landshlutum. Það eru víða í gangi atvinnuátök svokölluð, atvinnuátök kvenna, og þar er líka að störfum sums staðar atvinnuráðgjafi sem er kona en það er ekki alls staðar. Og þetta vantar mjög víða þar sem konur eru að þreifa sig áfram með atvinnurekstur að hafa sérstakan atvinnuráðgjafa sem þær geta leitað til. Það er nú einu sinni svo að þær eiga hægar með að leita til kvenna heldur en til karla vegna þess að þegar þær eru að vinna að sinni atvinnusköpun þá gera þær það á allt annan hátt en karlar. Og það væri a.m.k. þess virði, tel ég, að stjórn Byggðastofnunar skoðaði það hvort ekki væri hægt í tengslum við þau þróunarverkefni sem hún vill vinna að samkvæmt lögunum að ráða í alla landshluta a.m.k. og helst víðar sérstakan atvinnuráðgjafa fyrir konur.