Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 15:13:24 (4308)


[15:13]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans við spurningum mínum. Hvað varðar skýrslu nefndar sem hæstv. ráðherra skipaði undir forustu Baldurs Guðlaugssonar þá kannast ég vel við það að samtöl nefndarmanna við þá sem nefndin hitti fyrir vestan væru skilgreind með þessum hætti og menn ræddu undir þeim formerkjum að samtölin færu ekki út um víðan völl eða a.m.k. ekki á opinberan vettvang. En það var ekki það sem ég var að spyrja um heldur hitt að þessi nefnd hlýtur að hafa skilað af sér einhverri skýrslu sem inniheldur einhverjar tillögur af því að nefndin var skipuð út af tilteknu vandamáli, vandamáli sem var atvinnuástand á norðanverðum Vestfjörðum. Og ég spyr um álitið og tillögurnar hverjar þær eru. Ég veit að menn hafa reynt að fá upplýsingar um þetta en ekki fengið. Mér þætti vænt um það ef hæstv. ráðherra gæti upplýst mig um þetta, annaðhvort með beinum svörum núna eða með því að senda mér og öðrum þingmönnum Vestfirðinga þessa skýrslu.
    Það voru forvitnileg svörin við vinnu fulltrúa ráðherra og Byggðastofnunar. Þau voru samt ekki það ljós að maður átti sig á því hvað er í farvatninu og ég spyr hvort hæstv. ráðherra geti ekki upplýst okkur örlítið meira um að hvaða innihald menn eru með í þessum viðræðum og svona í meginatriðum hvaða tillögur muni koma fram.