Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 15:18:02 (4312)


[15:18]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu um stefnumótandi áætlun í byggðamálum 1994--1997. Í lögum um Byggðastofnun, nr. 64/1985, með áorðnum breytingum, segir í 8. gr.:
    ,,Byggðastofnun gerir tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn. Ráðherra leggur þá tillögu fyrir Alþingi til afgreiðslu.``
    Í sömu grein laganna segir að í tillögunni skuli koma fram stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og tengsl hennar við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum svo og við áætlanir á sviði opinberrar þjónustu í landinu.
    Í 12. gr. reglugerðar um stofnunina frá 5. febr. 1992 segir að forsrh. skuli kynna stjórn Byggðastofnunar stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og á hvaða atriði lögð skuli áhersla við gerð áætlunarinnar þegar vinna að undirbúningi hennar hefst. Í samræmi við þetta ritaði ég stjórn Byggðastofnunar bréf, dags. 28. febr. 1992, þar sem kynnt eru þau almennu markmið sem ríkisstjórnin leggur áherslu á í byggðamálum og þau atriði sem óskað var að fjallað yrði um í hinni stefnumótandi áætlun í byggðamálum. Afrakstur þeirrar vinnu sem í kjölfar þessa fylgdi getur að líta í ritinu Breyttar áherslur í byggðamálum sem geymir tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum 1994--1997.
    Áður en ég vík að efni tillögunnar vil ég í stuttu máli gera grein fyrir hvernig staðið var að undirbúnig hennar. Meginefni bréfsins frá stjórn Byggðastofnunar frá 28. febr. 1992 lýtur að svokölluðum vaxtarsvæðum. Í fyrsta lagi er stofnunin beðin að skilgreina það hugtak á greinargóðan hátt. Forsenda slíkrar skilgreiningar sé að byggðir innan vaxtarsvæða tengist eða geti tengst með traustum og góðum samböndum og myndi eða geti myndað sameiginlegt þjónustu- og atvinnusvæði.
    Í öðru lagi komi fram mat stofnunarinnar á því hvaða svæði landsbyggðarinnar teljist vaxtarsvæði samkvæmt þeim skilyrðum sem stofnunin setur og þeim viðmiðunum sem hún telur eðlilegar. Við slíkt mat verði m.a. tekið tillit til búsetuþróunar og breyttra atvinnu- og framleiðsluhátta.
    Í þriðja lagi geri stofnunin tillögur um hvernig hægt sé að efla vaxtarsvæðin sérstaklega en meðal forsendna eflingar þeirra sé aukið samræmi í uppbygging og dreifingu opinberrar þjónustu á landsbyggðinni og markviss aðstoð við uppbyggingu atvinnulífsins þar. Að auki er farið fram á að fjallað verði um hvernig örva megi fjárfestingu í atvinnulífi á landsbyggðinni, í flutningi stofnana og verkefnis hins opinbera, faglega þjónustu sveitarfélaganna í landinu, fjárveitingar til byggðamála og að hugmyndir um svæðisbundnar byggðaáætlanir verði útfærðar nánar.
    Líkt og fram kemur í bréfinu og áður hefur verið boðað er það meginatriði stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum að stuðla að eflingu vaxtarsvæða landsbyggðarinnar, þ.e. samfelldum atvinnu- og þjónustusvæðum sem hafi bolmagn til að koma til móts við kröfur almennings um fjölbreytt atvinnuframboð og nútímalega þjónustu. Stjórn og starfsmenn Byggðastofnunar hafa unnið tillöguna að stefnumótandi áætlun í byggðamálum á grundvelli þessa bréfs. Verkið tók öllu lengri tíma en upphaflega var áformað, m.a. vegna þess að hér er um að ræða fyrstu áætlanir sinnar tegundar og vegna þess að í lögum er kveðið á um að Byggðastofnun hafi samráð við fjölda aðila, stofnana og sveitarfélaga við gerð áætlunarinnar.
    Uppkast að þeirri tillögu sem hér er lögð fram var sent til umsagnar vel á annað hundrað aðila í þjóðfélaginu. Þar á meðal voru sveitarstjórnir, héraðsnefndir og búnaðarfélög og aðilar vinnumarkaðarins, bæði á landsvísu og héraðssamtök þar sem þau eru til. Fundir til kynningar drögunum voru haldnir með ýmsum aðilum víða um land. Þá var uppkastið sent til ráðuneyta og fjölmargra opinberra stofnana. Byggðastofnun bárust skriflegar umsagnir frá um 60 aðilum. Þær voru mjög mismunandi en þó var þeim flestum sameiginlegt að hugmyndir um samræmingu og ákvarðanatöku um opinbera þjónustu og framkvæmdir mæltust vel fyrir. Helsti ásteytingarsteinninn var hugmynd um landshluta og héraðskjarna en þar voru á lofti tvenns konar sjónarmið. Þótti sumum of langt gegnið að leggja mikla áherslu á fáa kjarna en aðrir voru þeirrar skoðunar að það væri gengið allt of stutt. Þarna kom í ljós að í þjóðfélaginu eru mjög skiptar skoðanir um þessi mál.
    Byggðastofnun skilaði forsrh. tillögunni síðla sumars 1993 og ber hún þess glögglega merki að reynt hefur verið að taka tillit til mismunandi sjónarmiða innan stjórnar stofnunarinnar og í þjóðfélaginu almennt. Það er hins vegar fagnaðarefni að samstaða skuli hafa náðst um þá tillögu sem hér er kynnt og vil ég leyfa mér að færa stjórn Byggðastofnunar þakkir fyrir það hvernig hún hefur að málinu unnið en ég tel að mjög vel megi una við þá tillögu þótt auðvitað sé um sumt nokkuð vikið frá áherslum ríkisstjórnarinnar.
    Tillagan markar nokkur skil í umræðu um byggðamál. Til þessa hefur almennt verið gengið út frá því að byggðamynstrinu skuli haldið óbreyttu og það skuli vera meginmarkmið aðgerða stjórnvalda. Segja má að fram komi í áætluninni viðurkenning þess að stjórnvöld ein og sér geti ekki ákveðið að koma í veg fyrir breytingar á byggðamynstrinu og að það hvar fólk velur sér búsetu ræðst ekki nema að ákveðnu leyti af vilja stjórnvalda. Því sé hlutverk stjórnvalda ekki það að stríða gegn breytingum heldur miklu frekar að leitast við að hafa jákvæð áhrif á þróunina og samræma hana öðrum markmiðum í efnahags- og atvinnumálum.
    Ég tel mikið unnið með því að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga í stjórn Byggðastofnunar skuli hafa sameinast um að nálgast þetta viðfangsefni, mótun nýrrar byggðastefnu, af meiri framsýni en áður hefur verið gert.
    Í þeirri till. til þál. sem stjórn Byggðastofnunar hefur samið og hér er mælt fyrir segir að meginmarkmið byggðastefnu séu eftirtalin:
    Að treysta byggðina þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með hagkvæmum hætti.
    Að efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf og veita þjónustu að kröfum nútímaþjóðfélags.
    Að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega.
    Þessi meginmarkmið eru e.t.v. ekki ýkjafrábrugðin þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa unnið eftir í byggðamálum hvað það varðar að landinu skuli haldið í byggð þar sem hagkvæmt er að nýta auðlindir þess og að sporna eigi við fólksflutningum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Það er raunar ástæða til að vekja athygli á því að ef litið er á síðasta áratug, frá 1983--1993, þá hefur íbúum fjölgað víðar en á höfuðborgarsvæðinu þó fjölgunin hafi verið mest þar eða 20,1%. Þannig fjölgaði um 10,1% á Suðurnesjum um 3,5% á Suðurlandi og um 2,1% á Norðurlandi eystra. Annars staðar hefur íbúum fækkað, mest á Vestfjörðum um 7,9%, um 4% á Vesturlandi og um 2,5% á Norðurlandi vestra en á Austurlandi hefur íbúafjöldi því sem næst staðið í stað. Þessar breytingar á búsetu endurspegla og haldast í hendur við miklar breytingar á efnahagslegu umhverfi og atvinnulífi landsmanna.
    Undanfarna áratugi hefur störfum í landbúnaði fækkað jafnt og þétt en samkvæmt vinnuaflsspá Þjóðhagsstofnunar voru um 5.900 ársverk í landbúnaði á árinu 1993 og hafði þeim fækkað um 2.400 ársverk á 13 árum. Ársverkum í sjávarútvegi, veiðum og vinnslu, fækkaði um rúmlega 2.000 á sama 13 ára tímabili. Í iðnaði voru ársverk um 26.500 á síðasta ári en í heild voru þau ívið færri á árinu 1993 en þau voru árið 1980 þó nokkurra sveiflna hafi gætt. Þjónusta, einkaþjónusta og opinber þjónusta hefur á hinn bóginn vaxið mikið bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Útlit er fyrir að störfum í landbúnaði muni enn fækka á komandi árum og að í sjávarútvegi muni störfum ekki fjölga svo um muni á næstu árum nema til komi magnaukning í botnfiskveiðum. Þá eru blikur á lofti varðandi iðnaðinn sem stendur í alþjóðlegri samkeppni og það er alveg ljóst að vexti í þjónustugreinum eru takmörk sett og þar gætir víða samdráttar.
    Það er ekki síst í ljósi þessa sem mikilvægt er að sérstaklega verði hugað að hvernig skjóta megi

frekari stoðum undir atvinnulíf og búsetu á landsbyggðinni. Gild rök hníga að því að afar erfitt sé að stuðla að aukinni fjölbreytni atvinnulífs, fjölbreyttari og betri þjónustu o.s.frv. nema á tiltölulega fáum stöðum á landinu þar sem flestir eigi aðgang að henni. Ég vitna til greinargerðar Byggðastofnunar um Breyttar áherslur í byggðamálum. Þar segir á bls. 57, með leyfi forseta:
    ,,Hugmyndin er sú að sameina kraftana á ákveðnum svæðum sem talið er að hafi betri vaxtarskilyrði en önnur. Þannig eru meiri líkur til þess að hægt sé að snúa vörn í sókn á landsbyggðinni. Þó að það sé æskilegt út frá mörgum sjónarmiðum að efla vöxt á öllum þéttbýlisstöðum landsbyggðarinnar er það markmið einfaldlega utan þess sem hægt er að ná.``
    Enn segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:
    ,,Fjölbreytt atvinnulíf getur ekki þróast á fámennum stöðum jafnvel þó sá atvinnurekstur sem fyrir er gangi vel. Tilvist öflugra þéttbýliskjarna er forsenda fyrir því að unnt sé að virkja margföldunaráhrif fjárfestinga og vaxtar í atvinnulífi á svæðinu og þannig stuðla að eftirsóknarverðu umhverfi fyrir búsetu og fjölbreyttu atvinnulífi.``
    Það er nýmæli að Alþingi álykti sérstaklega um að efla vaxtarsvæði með þeim hætti sem hér er lagt til. Undir 1. tölul. þáltill. er m.a. fjallað um hvernig efla eigi vaxtarsvæðin. Þar segir að leggja eigi áherslu á samgönguframkvæmdir, m.a. gerð heilsársvega sem þjóna hagsmunum atvinnulífsins og stækka þjónustusvæðin.
    Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því sem fram kemur í áliti meiri hluta samgn. þingsins um vegáætlun að útgjöld til samgöngumála hafa vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og voru á árinu 1993 tæpum tveimur milljörðum kr. hærri en á árinu 1990. Í vegáætlun 1993--1996 eru boðaðar mestu framkvæmdir sem ráðist hefur verið í til þessa í samgöngumálum. Þessar framkvæmdir munu víða valda verulegum bótum með stækkun atvinnu- og þjónustusvæða og ég tel að a.m.k. framkvæmdir á borð við þær sem senn verður lokið við á norðanverðum Vestfjörðum muni breyta umtalsvert forsendum byggðar á því svæði. Stofnunin leggur til undir lið 1.b að ný opinber þjónusta sem almenningur þarf að leita til og þjóni heilum landshlutum skuli fyrst fremst vera í helstu þéttbýlisstöðunum eða þar sem hagkvæmt þykir og að stefnt verði að því að draga ekki úr þeirri obinberu þjónustu á vegum ríkisins sem nú er veitt á landsbyggðinni. Þetta tel ég vera skynsamlegt enda sé það meginregla að opinber þjónusta sé staðsett þar sem það er hagkvæmt og heppilegt fyrir þá sem eftir henni leita. Þetta kann vitaskuld að þýða endurskoðun á framkvæmd og staðsetningu þeirrar þjónustu sem veitt er í dag.
    Samfara samdrætti í hefðbundnum búgreinum hefur orðið vöxtur í nýjum greinum til sveita, aðallega ferðaþjónustu en einnig í vissum héruðum í skógrækt og landgræðslu. Vonir standa til að framhald geti orðið á þeirri þróun. Það getur þó ekki orðið um land allt og það mun aldrei vega upp á móti samdrættinum sem orðið hefur. Þar sem svo er ástatt kann að vera að skynsamlegt sé að huga að leiðum til að auðvelda bændum að bregða búi. Útfærsla slíkra ráðstafana er þó vandasöm og þær mundu ef í þær væri ráðist þarfnast gaumgæfilegs undirbúnings. En að þessu er vikið í skýrslu Byggðastofnunar.
    Í bréfi mínu til Byggðastofnunar með fyrirmæli um gerð hinnar stefnumótandi byggðaáætlunar var farið fram á að stofnunin gerði tillögur um það með hvaða hætti mætti auka samræmingu á sviði opinberrar þjónustu og framkvæmda. Mörgum finnst að ríkisvaldið komi ekki fram sem einn aðili og að ekki sé gætt nægilega vel að því að framkvæmdir á einu sviði geta haft áhrif á þjónustu sem veitt er. Einkum er um það að ræða að framkvæmdir undangenginna ára til að bæta samgöngur í landinu hafa ekki haft samsvarandi áhrif á það hvar og hvernig þjónustu ríkisvaldið veitir. Það er deginum ljósara að hér er ekki um auðvelt verk að ræða ekki síst vegna þess að litlar skyldur hafa hvílt á ráðuneytunum í þessu efni. Nú ríkja erfiðleikar í þjóðarbúskapnum og fyrirtæki og heimili í landinu hafa þurft að grípa til samdráttaraðgerða og ýtrasta sparnaðar. Því er óhjákvæmilegt að ríkisvaldið hugi að því hvernig hægt er að veita þjónustu á sem hagkvæmastan hátt með tilliti til heildarhagsmuna. Þess vegna tek ég undir þá tillögu að komið verði á formlegum samstarfsvettvangi ráðuneytanna í þessu markmiði. Aukin samræming milli einstakra sviða opinberrar stjórnsýslu er hluti af nútímalegum vinnubrögðum í stjórnsýslunni og forsenda þess að áætlanir í einstökum málaflokkum geti staðist til lengri tíma.
    Í athugun er í fjmrh. hvort taka eigi upp fjárlagagerð til lengri tíma en eins árs í senn. Margt bendir til að slíkt sé skynsamlegt og í fullu samræmi við þau markmið sem fram koma í 2. tölul. þáltill. Slíkt starf mun þó ekki skila tilætluðum árangri nema að því tilskildu að nauðsynleg samræming fari fram og eigi sér stað á milli ráðuneyta.
    Verði þáltill. þessi samþykkt er nauðsynlegt að ákveða hvaða farvegur verður fundinn fyrir þetta mikilvæga verkefni. Fyrirsjáanlega mun það að miklu leyti gerast með samvinnu milli ráðuneytanna á embættismannastigi og í ríkisstjórn en eðlilegt er að forsrh. fari með skipulagningu samvinnunnar. Í tillögunni leggur Byggðastofnun til að forsrh. leggi fram skýrslu um framkvæmd þessarar áætlunar í byrjun hvers árs. Ekki verður séð í fljótu bragði að það sé nauðsynlegt enda gefst tækifæri til að ræða þau mál við árlega umræðu um byggðamál og við endurskoðun stefnumótandi áætlunar í byggðamálum sem fram á að fara annað hvert ár. Einnig er lagt til að forsrh. skipi nefnd til að endurskoða ákvæði laga um áætlanagerð á vegum ríkisins. Lagaákvæði um hvernig ríksvaldið skipuleggur þjónustu sína til lengri tíma litið eru mjög mismunandi eftir málaflokkum. Ef takast á að ná fram þeirri samræmingu sem hér er gerð tillaga um er nauðsynlegt að samræma ákvæði laga um áætlanagerð þannig að hún falli að þeirri heildarstefnumótun sem hér

er kynnt.
    Ákvæði um svæðisbundnar byggðaáætlanir voru lögfest árið 1991 og nánari ákvæði um þær eru sett í reglugerð frá 1992. Í tillögu Byggðastofnunar að stefnumótandi byggðaáætlun eru gerðar ítarlegri tillögur um hlutverk þessara áætlana. Lagt er til að þær verði eins og eins konar rammasamningur milli viðkomandi sveitarstjórna og ríkisvaldsins um fyrirkomulag opinberrar þjónustu og framkvæmda auk þess sem þar verði fjallað um atvinnuþróun og aðgerðir ríkis og heimaaðila til eflingar atvinnulífi. Markmið þessa er að sveitarfélögin geti búið við nokkra vissu um áform ríkisvaldsins og tekið mið af þeim.
    Þriðji tölul. þáltill. fjallar um valddreifingu frá ríki til sveitarfélaga. Við undirbúning þess átaks til sameiningar sveitarfélaga sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir hefur komið fram skýr vilji ríkisstjórnarinnar til að færa verkefni til sveitarfélaga. Sameiningartillögur umdæmanefnda fengu dræmar viðtökur kjósenda í kosningunum 20. nóv. sl. en þó fara nú víða fram viðræður um sameiningu og margt bendir til að sveitarfélög verði sameinuð allvíða. En sameining þeirra og efling er forsenda þess að verkefnaflutningur geti átt sér stað í umfangsmiklum mæli.
    Tilraun sú sem senn verður ráðist í með rekstur reynslusveitarfélaga er þáttur í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að færa vald, ákvarðanir og ábyrgð heim í hérað. Þau markmið sem fram koma undir 4. tölul. tillögunnar, nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi, falla vel að almennri stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Atvinnulífið í landinu verður að búa við þau skilyrði að það geti skilað arði. Með almennum aðgerðum hefur ríkisstjórninni tekist á kjörtímabilinu að laga rekstrarskilyrði atvinnulífsins verulega með afnámi aðstöðugjaldsins, lágu raungengi, átaki til lækkunar vaxta og skattalækkun. Ég tel mikilvægt að fram komi í tillögunni stuðningur við atvinnuþróun og atvinnuþróunarfélög.
    Varðandi tillögu um framlög af fjárlögum til byggðamála, sem fram kemur í töflu aftast í þskj., vil ég undirstrika þann fyrirvara ríkisstjórnarinnar að fjárhæð taki mið af þróun fjárlaga hverju sinni. Vafalaust þarfnast þau áform sem fram koma í töflunni ítarlegrar skoðunar í meðförum þingsins. Til að mynda tel ég nauðsynlegt að færa rök fyrir því hvers vegna fyrirhugað er að auka framlög í afskriftasjóð um 75 millj. á árinu 1997 og vara við því að svo langt verði gengið í áhættusömum lánveitingum Byggðastofnunar til fyrirtækja að framlög til atvinnuþróunarstarfsins verði afgangsstærð.
    Gerð stefnumótandi áætlunar í byggðamálum hefur tengst fjölda aðila. Allt frá upphafi þess nefndarstarfs sem lagði grunninn að lagabreytingunni um Byggðastofnun árið 1991 hefur verið reynt að ná til sem flestra í þeim tilgangi að stefna stjórnvalda um þróun byggðar nyti víðtæks stuðnings. Sú áætlun sem hér hefur verið kynnt er ekki áætlun í eiginlegum skilningi heldur er hér fyrst og fremst um almenna markmiðssetningu stjórnvalda að ræða sem á að stuðla að því að styrkja forsendur búsetu á landsbyggðinni og felur í sér ásetning um breytt og samræmd vinnubrögð við ákvörðunartöku er lýtur að uppbyggingu og dreifingu þjónustu hins opinbera.
    Í þessari áætlun og þessari framsögu hefur ekki verið rætt sérstaklega um vanda einstakra atvinnugreina, byggðarlaga eða landshluta. Eðli málsins samkvæmt er byggðastefna langtímastefna, byggðin í landinu getur ekki tekið grundvallarbreytingum á stuttum tíma. Það er von mín að jafvíðtæk samstaða náist um afgreiðslu þessarar þáltill. hér í þinginu eins og náðist í stjórn Byggðastofnunar.
    Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að leggja til að þáltill. þessari verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.