Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 15:49:53 (4315)


[15:49]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og hæstv. forsrh. sagði áðan hefur þessari umræðu verið skipt nokkuð í tvennt og fyrst reynt að skoða skýrslurnar eins og þær liggja fyrir og söguna og síðan horft til framtíðar.
    Ég vil nú taka undir það sem hv. þm. Ragnar Arnalds sagði áðan um vaxtarsvæði. Ég minnist þess að þegar ég sá fyrstu drög að þessari skýrslu töldum við kvennalistakonur, sem skoðuðum skýrsluna eins og hún leit út þá, að einmitt væri ekki hægt að segja um fyrir fram hvar vaxtarsvæði ættu að vera. Eins og hv. þm. er kunnugt á Kvennalistann engan fulltrúa í stjórn Byggðastofnunar og hefur þar af leiðandi ekki haft tækifæri til að hafa áhrif á þessa tillögumótun. En við fjölluðum um hana og sendum stutta umsögn um það hvernig okkur litist á hana eins og hún leit út fyrir ári síðan og vildum þá í upphafi taka fram að við vorum efnislega sammála þeim áhersluatriðum sem var unnið út frá sem snertu það að setja fram slíka stefnumótandi byggðaáætlun. Við nefndum jafnvel vaxtarsvæði í þeirri skýrslu þó við gagnrýndum jafnframt að þau væru skilgreind að fullu eins og þar var gert.
    Við teljum að þessi skilgreining sé mjög umdeilanleg og eigi ekki við rök að styðjast og teljum það m.a. varhugavert að binda skilgreiningu á héraðskjarna við ákveðinn fjölda íbúa eins og þeir eru dag. Það hafa aðrir þættir áhrif, svo sem íbúaþróun síðustu ára og atvinnuástand á staðnum hlýtur líka að hafa ákveðið vægi. Og af því að hv. þm. Ragnar Arnalds nefndi áðan Hvammstanga sem merki um það að enginn hefði getað séð fyrir hvort væri vaxtarsvæði, þá dettur mér annar staður í hug, þ.e. Flúðir. Ég man eftir því að fyrir allmörgum árum kom ég þangað og hefði þá ekki dottið í hug að Flúðir yrðu að því vaxtarsvæði sem síðan hefur orðið og þannig getum við áreiðanlega rakið fleiri dæmi.
    Það var einnig nefnt a.m.k. í fyrstu drögum um þessa tillögu að Hólmavík væri ekki vaxtarsvæði en nú vill svo til að Hólmavík hefur verið sá staður þar sem íbúaþróun hefur verið örust á Vestfjörðum. Það er því ýmislegt svona sem ekki er hægt að sjá fyrir og setja inn í ákveðinn ramma.
    Það má líka nefna þá vinnu sem nú er verið að vinna í sambandi við sameiningu sveitarfélaga því að þótt sveitarfélög hafi kannski ekki verið sameinuð eins og margir áttu von á í þeim kosningum sem fóru fram í haust, þá er þó verið að ræða sameininguna og útlit fyrir að það starf muni skila sér sem unnið var við að undirbúa þær kosningar. Þær umræður eru í gangi og við sameiningu sveitarfélaga munu auðvitað skapast ný vaxtarsvæði.
    Eitt finnst mér athyglisvert í þáltill. sem ég vil gagnrýna. Í fyrsta lið b stendur: ,,Ný opinber þjónusta sem almenningur þarf að leita til og þjóna skal heilum landshlutum skal fyrst og fremst vera í stærstu þéttbýlisstöðunum eða þar sem hagkvæmt þykir.`` Mér finnst þetta ákvæði stangast á við stefnu ríkisstjórnarinnar, ef hún ætlar að standa við þá stefnu að flytja ríkisstofnanir út á land því með því að flytja ríkisstofnanir og þjónustu við almenning, opinbera þjónustu, frá Reykjavík er verið að flytja hana til minni svæða og þar á hún að þjóna því svæði og öllu landinu jafnframt um leið. Ég tel þessa grein um að opinber þjónusta þurfi fyrst og fremst að vera í stærstu þéttbýlisstöðunum alls ekki raunhæfa því að auðvitað er alveg eins hægt að þjóna landinu og stóru svæði frá minni þéttbýlisstöðum og frá þeim stærstu.
    Það kom fram í máli hæstv. forsrh. áðan að þó að Byggðastofnun hafi látið vinna byggðaáætlanir fyrir ýmis svæði undanfarin ár, þá hafa þær byggðaáætlanir ekki verið lagðar fram sem stefnumótandi og samþykktar af þinginu. Það er því breyting núna að leggja fram till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlanir og ég tel það vera af hinu góða að það sé gert. Það má líka nefna að fyrir ýmsar ríkisstofnanir hafa verið gerðar áætlanir. Það má nefna vegáætlun, hafnaáætlun, flugmálaáætlun og það er hreint ekki óeðlilegt að sett sé fram þál. um byggðaáætlun.
    Það má kannski gagnrýna það að hún sé aðeins til þriggja ára því að 1994 er byrjað og hún á að ná til ársins 1997. Það er frekar stuttur tími til að setja fram áætlun og ég hafði haldið að hún mætti ná yfir lengra tímabil en þetta er fyrsti vísir að þessu og kannski breytist það þannig að hægt verði að setja sér markmið til lengri tíma sem ég held að sé alveg nauðsynlegt, ekki hvað síst í byggðamálum.
    Í d-lið eru nefnd jaðarsvæði. Þar verði einkum horft til nýtingar náttúruauðlinda og ferðaþjónustu. Á jaðarsvæðum er einnig oftastnær byggt eitthvað á sauðfjárrækt. Sá atvinnuvegur á mjög undir högg að sækja og það fólk sem hefur hingað til lifað af þeirri atvinnugrein lifir í dag undir fátæktarmörkum. Því miður geta mjög margir bændur ekki lengur lifað af búum sínum og lifa undir fátæktarmörkum. Við vitum að það er mjög mikil gerjun, eins og við höfum sagt hér, í kringum þennan atvinnuveg, ekki hvað síst í sambandi við innflutningsmálin. Ég ætla reyndar ekki að gera þau að umtalsefni. Það hefur verið gert svo oft. En það verður að taka á því hvernig á að fara með þessa stétt að öðru leyti þannig að hún geti lifað. Mér sýnist að það gæti að einhverju leyti komið meira inn í stefnumótandi byggðaáætlun hvernig á að fara með þá sétt sem eru bændur þessa lands.
    Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er búinn að þessu sinni og verð að hlíta því.