Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 16:08:20 (4317)


[16:08]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna því máli sem hér liggur fyrir til umræðu. Mér virðist ef ég skil rétt að hér sé með nýjum hætti tekið á afstöðu okkar til byggðamála til tryggingar og eflingar byggða um landið, til tryggingar og eflingar byggða sem dreifðar eru en liggja vel til hagkvæmrar nýtingar á auðlindum og náttúru. Að mínum skilningi snýst byggðastefnan því um málefni atvinnulífs á þessum slóðum, um nýsköpun og þróun viðskiptahugmynda, um staðsetningu opinberrar þjónustu, um aðgengi að henni, um opinberar framkvæmdir og ekki síst um samgöngur og samgöngubætur.
    Umræða um byggðamál hér á landi hefur gjarnan verið svo að landinu er skipt í tvo hluta og þeim nánast lýst sem um væri að ræða tvo heima, landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið, höfuðborgarsvæðið og landsbyggðin. Og þessi umræða hefur borið þess merki jafnframt að þegar aðrir málaflokkar eru ræddir eða þeirra málefni í ljósi byggðastefnu eða í ljósi tilhneigingar í byggðamálum, að þessi tvískipting lands og

þjóðar er í hugum þeirra sem ræða. Frá tveimur sjónarhornum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að forðast beri þennan skilning og þessa framsetningu á viðfangsefnum byggðamála og að forðast að hann ráði mótun og framkvæmd byggðastefnu. Fyrri ástæða mín er sú að þessi hugsun og skilningur á stöðu landshluta hvers gagnvart öðrum hefur alla burði til að undirstrika um of samkeppni á milli þeirra. Hann magnar togstreitu milli landsbyggðar og byggðarlaga og gerir lítið úr öllu því sem við íbúar þeirra eigum sameiginlegt en það hins vegar er miklu meira og fleira. En ekki aðeins það heldur líka þessir sömu hagsmunir sem fengist er við á sviði byggðamála. Þeir hagsmunir sem þar er tekið á undir merkjum byggðastefnu eru sameiginlegir hagsmunir okkar. Slæmt atvinnuástand er ekki einangrað viðfangsefni Reykjavíkur, Ólafsfjarðar né Grindavíkur. Það er sameiginlegt viðfangsefni okkar allra. Það er merki um að ástand í atvinnumálum á Íslandi öllu er ekki nægjanlega gott. Störf eru ekki í boði handa öllum vinnufúsum höndum. Mér sýnist að of oft hafi viðbrögð okkar og lausn við slíkum vanda í einu byggðarlagi verið á kostnað annars en vandinn þess vegna verið færður á milli jafnvel þegar um er að ræða kaup fiskiskipa eða einhverra ámóta atvinnutækja í krafti fyrirgreiðslu úr sameiginlegum sjóðum okkar. Og hann fer þá til þess að leysa vanda eins á kostnað annars.
    Önnur ástæða mín fyrir því að forðast beri fyrrnefndan skilning á byggðamálum er sú að hann einfaldar um of viðfangsefnin. Ég fyrir mitt leyti bý í landshluta sem er hvorki innan höfuðborgarsvæðisins né á landsbyggðinni í þeim skilningi sem viðhafður hefur verið. Það á við um stóran hluta Reykjaneskjördæmis og einkum um Suðurnes. Um skeið var atvinnufyrirtækjum þar ekki veitt fyrirgreiðsla sem önnur nutu vegna þess hvar þau voru stödd. Síðar fékkst því breytt og þau hafa nú um árabil setið við sama borð um fjármagn og fjármögnunarmöguleikar atvinnutækja þeirra til sjávar og lands eru þeir sömu og annarra. En fyrst eftir þá leiðréttingu var viðhöfð ámóta mismunun við kaup skipa með aflaheimildum milli landshluta og þannig stóð um árabil. Afleiðingin varð sú að sjávaútvegur í öðrum landshlutum fékk visst forskot, fyrra tímabilið til að byggja upp skip og vinnslustöðvar og hið síðara til að byggja upp eignarhald á aflaheimildum. Það er virðingarvert og mikilvægt að síðan hefur þessi mismunun verið leiðrétt en forskotið hefur hins vegar ekki verið unnið upp og verður ekki við núverandi aðstæður í sjávarútvegi, hvorki vegna ástands helstu fiskstofna né vegna núverandi fiskveiðistjórnarkerfis sem líklegt er að festist í sessi.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar og er enn að þeim sameiginlegu fjármunum sem við verjum í þágu byggðastefnu hefði að undanförnu mátt verja með öðrum hætti en gert hefur verið. Fremur en auka á skuldabyrði atvinnutækja og fyrirtækja með lánum til viðbótar eðlilegri fyrirgreiðslu annarra en banka, annarra framkvæmdasjóða, annarra fjárfestingarsjóða tel ég að heppilegra hefði verið frá upphafi að veita styrki vegna óhagræðis sem mátti rekja til staðsetningar. Að meginstofni hefði mátt verja fjármunum í þágu byggðastefnu til að flýta samgöngubótum og að styrkja þær samgöngubætur sem án þess hefðu ekki verið framkvæmdar. Samgöngubætur vinna upp stærstan hlut af óhagræði fyrirtækja vegna staðsetningar.
    Það er einnig mikilvægt að samgöngubætur innan héraðs, innan landshluta og milli landshluta koma líka til góða fólki og fjölskyldum ásamt fyrirtækjum. Ferðir og flutningar af hráefnum, aðföngum og afurðum á þjónustu, vinnuafli verða greiðari og ódýrari, þjónustan verður aðgengilegri þó að fjarlægðirnar sjálfar minnki ekki.
    Ég hef þá vitneskju og reynslu að þegar Reykjanebrautin var lögð varanlegu slitlagi, nýr þjóðvegur, sannkölluð hraðbraut á þeim tíma, þá breytti það mjög möguleikum ekki aðeins einstaklinga á Suðurnesjum heldur atvinnulífs til viðskipta. Viðskipti milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins stórjukust og hafa smám saman haldið áfram að aukast. Ég er sannfærður um að það sama verður ofan á með bættum samgöngum milli annarra landshluta, ekki aðeins milli landshluta heldur byggðarlaga. Þannig tel ég að það sem er verið að gera á Vestfjörðum muni skapa sambærileg skilyrði fyrir umbótum og aukinni hagkvæmni í rekstri fyrirtækja, í rekstri opinberrar þjónustu og til að bæta opinbera þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki á Vestfjörðum og mun skila þeim árangri eftir tiltölulega fá ár. Það skiptir hins vegar miklu máli, því að samhengi byggðamála eins og við ræðum það gjarnan er atvinnumál, að ný stefna leiði til þess að við dreifum þjónustustöðvum um landið. Við þekkjum það öll sem höfum alist upp úti á landi að þar er einhæfni atvinnulífs viss hemill í vegi framfara. Störf eru tiltölulega fábreytt og fyrir fólk sem hefur aflað sér nokkurrar menntunar er fátt í boði til að nýta hana sem best. Þar er einkum um að ræða kennslustörf og það eru margir kennararnir sem voru menntaðir til annars en að kenna. Ég tel þess vegna mikilvægt að í þessu samhengi verði staðsetning opinberra stofnana yfirleitt tekin til sérstakrar athugunar með tilliti til þess að dreifa þjónustunni, dreifa þeim störfum sem í boði eru. Ekki aðeins hjá þeim stofnunum sem þjóna eingöngu svæðisbundnum hlutverkum heldur einnig þeim sem þjóna landinu öllu á einhverju tilteknu sviði. Ég tel það skipta máli fyrir okkur að við tökum á þessu efni með nokkurri einbeitni og náum öllu meiri árangri en við höfum talað um um alllangan tíma, líklega allt frá því að við tókum upp hugtakið byggðastefna.
    Ég tel þó að við þurfum að fara með nokkurri gát sem varði hagkvæmni og sparnað í opinberri þjónustu. Ég tel að við náum ekki miklum sparnaði í henni með því að fækka einhliða svæðisskrifstofum ef það orð má nú nota um stofnanir eins og sýslumenn og aðrar. Ég tel að við náum ekki einhliða mikilli hagkvæmni eða sparnaði í opinberri þjónustu með því að fækka þeim á fjölmennustu stöðunum og ekki tel ég heldur að við náum með því fram nægilegum fjárhagslegum styrk til að halda þeim úti í hinum fámennari. Ég tel í raun og veru að við verðum að horfa á það viðfangsefni út frá sjónarmiðum byggðastefnu og nota fjármuni sem til þess eru ætlaðir.
    Virðulegi forseti. Ég vil að endingu taka undir málið sem hér er flutt. Ég leyfi mér að vona að við náum góðum tökum á því, það er nýtt viðfangsefni. Hér eru á ferðinni ný vinnubrögð til þess að taka upp stefnu til langframa og koma fram nýjum og breyttum vinnubrögðum.