Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 16:17:00 (4318)


[16:17]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu er vafalaust vel meint og gerð af góðum hug en út af fyrir sig bjargar hún sem slík ekki miklu. Það skiptir máli hvernig fjármagni er varið á hverjum tíma og hversu miklu fjármagni er varið á hverjum tíma. Það er það sem gildir, ekki það hvað sett er á blað. Og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki meðhöndlað byggðamál með þeim hætti að maður geti leyft sér að vera reglulega bjartsýnn um framgang byggðamála nú alveg á næstunni.
    Það er kannski eðlilegt að maður spyrji sig til hvers byggðastefna sé. Ég vil orða það svo að hún eigi að vera til þess að jafna lífsafstöðu þegnanna. Það er líka hægt að spyrja hvort það sé þörf á henni. Ég tel að það sé alveg tvímælalaust vegna þjóðarbúskaparins, nýtingar landsins og auðlinda þess og eins er rétt að hafa það í huga að búferlaflutningar kosta feikna mikið fé í fjárfestingum þar sem fólkið sest að og þar fyrir utan getur stefnt í hreinan voða vegna þess hvernig atvinnuástand er nú ef mikil byggðaröskun á sér stað.
    Rétt er að spyrja sig einnig hvernig tekist hafi á undanförnum árum. Ég tel að það hafi tekist allvel og mjög vel á stundum og það væri áreiðanlega öðruvísi um að litast á Íslandi ef upp úr 1970 hefði ekki verið hafist handa um markvissa byggðastefnu. Það hafa verið hæðir og lægðir í þessu eða öldudalir og öldutoppar en það er enginn vafi á því að þeir sem hafa unnið að byggðamálum hafa náð verulegum árangri á mörgum sviðum og fyrir það megum við vera þakklát.
    Fyrst og fremst hefur verið sinnt þróunarverkefnum og nýsköpun með einum eða öðrum hætti og það er allt gott um það. En eins og ástandið er orðið núna þá held ég að það sé allra mest um vert að reyna að verja það sem fyrir er. Framleiðsluatvinnuvegirnir eru undirstaða byggðar á landsbyggðinni, bæði til sjávar og sveita. Við búum við mikla skerðingu fiskveiðiheimilda og miklar hömlur í sjávarútvegi og að sjálfsögðu kemur það niður á þessum framleiðslubyggðarlögum. Ég er nú persónulega vonlítill um að sjávarútvegurinn eða þorskstofninn rétti við með núverandi fiskveiðistjórn, þ.e. að takmarka aflann, og þær friðunaraðgerðir sem núna eru eru fyrst og fremst að takmarka tonnatöluna. Það eina sem dugir til þess að byggja upp þorskstofn hér við land aftur er að friða hrygningarþorskinn og þó að menn dragi enn meira úr en veiði vertíðarþorskinn, þá hef ég enga von um það að það takist að byggja stofninn upp aftur.
    Landbúnaðurinn er í afar mikilli kreppu. Hann er undirstaða byggðar og í raun réttlæting byggðar í mörgum byggðarlögum þessa lands. Sérstaklega er illa kreppt að sauðfjárræktinni. Hún er eina kjötframleiðslugreinin sem býr við framleiðslutakmarkanir og það hefur tekist mjög illa til og þessar framleiðslustakmarkanir hafa komið mjög hart niður á sauðfjárræktinni. Framleiðslutakmarkanirnar hafa orsaka það að meðan ein greinin er í hafti en hinar frjálsar, þá hafa þær aukið sína markaðshlutdeild á kostnað dilkakjötsframleiðslunnar. Búvörulögin voru að sjálfsögðu sett af góðum hug á sínum tíma en þrátt fyrir það að ég vissi að þau voru sett af góðum hug, þá treysti ég mér ekki til þess að styðja þau á þeim tíma vegna þess að ég sá fram á hvernig þróunin mundi verða. Og sá búvörusamningur sem var gerður á síðasta kjörtímabili hefur líka sína galla.
    Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir því hversu gífurleg framleiðsluskerðing hefur átt sér stað í sauðfjárræktinni. Þar sem var 400 ærgilda bú, og þá er ég að tala um sauðfjárræktarsvæði, verðlagsárin 1989--1990, þá er það nú í haust 288,6 ærgildi sem framleiða má í staðinn fyrir 400 og næsta haust verða þessi 400 ærgildi komin niður í 261,9 ærgildi. Þetta segir náttúrlega sína sögu að skerða svona um 34,5% en laun bóndans hafa lækkað á þessu tímabili um hvorki meira né minna en 43,4%. Bændur á þessum svæðum eru að sjálfsögðu að éta upp eignir sínar. Ekki nóg með að jarðirnar séu í kyrrstöðu og mannvirkin illa nýtt og lítið nýtt og ekki hægt að halda þeim við. Menn eru bókstaflega að éta upp það litla sem þeir eiga og þegar það er búið blasir ekkert annað en gjaldþrot við. Og það er tómt mál að tala um byggð í stórum héruðum ef sauðfjárrækt leggst af.
    Innanlandsmarkaðurinn er of lítill til þess að taka við bæði dilkakjötinu og hinni stórauknu framleiðslu af hvíta kjötinu og nautakjöti. Menn tala gjarnan um það að framleiðslutakmarkanirnar í nautgriparæktinni hafi tekist, þ.e. það er jafnvægi í mjólkurframleiðslunni eða svo gott sem. En hvernig er þetta jafnvægi fengið? Það er fengið með því að gefa kálfunum umframmjólk og þar með búa til kjöt úr umframmjólkinni og þrengja enn á kjötmarkaðnum. Og nú er reyndar komið svo að það stefnir í hrein vandræði með nautakjötsframleiðsluna. Eina leiðin til þess að komast út úr þessum vandræðum er sú að flytja út eitthvað af kjöti. Fyrir nokkrum árum lögðum við af útflutningsbætur vegna þess að þá fékkst áfkaflega lítið fyrir dilkakjötið. Það hefur breyst. Dálítið fæst fyrir það núna og það er alls ekki orðið vonlaust verk að flytja út dilkakjöt og það sem við verðum að snúa okkur að er að taka upp útflutningbætur aftur í einhverjum mæli til þess að treysta byggðina, til þess að yfirleitt að sauðfjárræktin eigi nokkra framtíð fyrir

sér. Og ef sauðfjárræktin er látin hrynja svona eins og hún hefur gert á undanförnum árum, þá er tómt mál að vera að tala um byggðastefnu.