Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 17:04:48 (4330)


[17:04]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að þessi ályktun, till. til þál., er hér komin fram, um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árið 1994 til ársins 1997. Víst eru þetta almenn orð sem hér hafa verið sett á blað. Eigi að síður bind ég mjög miklar vonir við þessi orð, að þau marki leiðina og leggi grundvöll sem síðan verði hægt að byggja á til þess að styrkja byggðirnar um landið. En það eru nokkur atriði sem ég sakna að ekki er að finna í þessari till. til þál.
    Eins og kunnugt er er það mikið vandamál sem við eigum við að etja sem búum á landsbyggðinni hvað verðlag á nauðsynjavörum er mishátt eftir því hvort það er í strjálbýli eða hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi verðmunur hefur komið greinilega fram í verðkönnunum á undanförnum mánuðum og árum og þarna er náttúrlega um gífurlega mikinn aðstöðumun að ræða.
    Ég hefði viljað sjá að á þessu máli hefði verið tekið í þeirri till. til þál. sem hér er til umræðu þar sem hefði mátt benda á leiðir til þess að jafna vöruverð í landinu.
    Þá sakna ég þess einnig að ekki skuli vera komið inn á þann vanda sem fólginn er í misháu verði á húshitun eftir því hvar búið er á landinu. Þar er um mikinn mun að ræða og skapar aðstöðumun eftir því hvar búið er á landinu. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur reynt að taka á þessu máli og varið auknum fjármunum til þess að greiða niður húshitunina á köldum svæðum landsbyggðarinnar, á rafkyndingarsvæðunum, og einnig leitast við að taka á skuldamálum hitaveitna víða um land. En auðvitað má gera betur. Eigi að síður ber að fagna því að við síðustu fjárlagagerð samþykkti hv. Alþingi 50 millj. kr. fjárveitingu til viðbótar því sem áður hafði verið gerð tillaga um, að hækka framlagið til niðurgreiðslu á húshitun á köldum svæðum landsbyggðarinnar um 50 millj. kr. Mér sýnist að þessi aukna fjárveiting eigi að geta skilað a.m.k., ef hún kemur öll inn í verðið, 10% lækkun á húshituninni á þessum svæðum og því ber að fagna.
    En það er áhyggjuefni eigi að síður að á meðan ríkisstjórnin hefur verið að auka fjárveitingar til niðurgreiðslna á húshitun á köldum svæðum landsbyggðarinnar hefur raforkuverðið frá Landsvirkjun verið að hækka. Þannig að þegar litið er yfir þessa þróun þá gera hinar auknu fjárveitingar Alþingis ekki meira en svo að greiða niður hækkanirnar til Landsvirkjunar. Þetta er náttúrlega mjög alvarleg þróun hjá fyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem á að vísu við uppsafnað skuldavandamál að etja núna eða síðustu tvö ár, en áður hafði þetta fyrirtæki sýnt mikinn og góðan hagnað. Það hefði mátt búast við því að fjármunir hefðu verið til í gildum sjóðum til að takast á við erfið ár. Einnig hefur verið ráðist í virkjanir sem ekki hafa skilað neinum arði enn, sem við sitjum uppi með. Og það má segja sem svo að þeir sem búa við dýran kyndingarkostnað á rafhitunarsvæðunum eru þá frekar en aðrir að borga niður slíka virkjun.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur reynt að bregðast við þessu með því að auka framlög til niðurgreiðslna á raforkunni og ég trúi ekki öðru en þeir fjármunir sem Alþingi samþykkti að verja til viðbótar núna, um 50 millj. kr., skili sér algjörlega til lækkunar á verðinu til neytenda og það verður fylgst með því. Það verður fylgst gjörla með því.
    Hæstv. forseti. Ég hef áður komið inn á það mál sem ég ber mjög fyrir brjósti og það er flutningur ríkisstofnana út á land. Ég hefði viljað sjá betur tekið á því máli í þessari till. til þál. Ég treysti því eigi að síður að sú skýrsla sem nefnd um flutning opinberra stofnana út á land hefur skilað til ríkisstjórnarinnar eigi eftir að skila árangri í framkvæmdum. Það má aftur vekja athygli á því að hæstv. umhvrh. hefur tekið ákvörðun um að flytja embætti veiðistjóra norður á Akureyri og því ber að fagna. Framsfl. var í ríkisstjórn í 20 ár og stofnaði fjöldann allan af nýjum stofnunum í Reykjavík. Og það virtist vera aðalbaráttumál hans að halda fram byggðastefnu sem var fólgin í því að byggja Reykjavík upp og nágrenni og

það kemur m.a. í ljós í sambandi við staðsetningu opinberra stofnana hér. Það tókst þó í lokin að flytja eina stofnun út á land, Skógrækt ríkisins. En ég vil fagna því eigi að síður að það tókst mjög gott samkomulag í þeirri nefnd, allra þingflokka, sem fjallaði um flutning opinberra stofnana út á land. Það var virkilega ánægjulegt að starfa í þeirri nefnd og þar skapaðist breið samstaða og þar var unnið vel og ég er viss um að það mun skapast hér breið samstaða um þær niðurstöður og þær komast í framkvæmd fyrr en seinna. En þetta er erfitt mál og þetta er flókið mál og það er ekki ástæða til að rasa um ráð fram í þeim efnum. Það verður að vanda vel til verksins og ég trúi því að verið sé að vinna að því máli.
    Hæstv. forseti. Það má segja að þegar sé farið að starfa samkvæmt þeirri till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun sem hér liggur fyrir. Framlög til samgöngumála á núverandi kjörtímabili hafa verið meiri en gerst hefur á undanförnum árum og það gildir einnig til hafnargerðar og því ber að fagna. Það er dæmi um að þar er vel að verki staðið, enda var það löngum mælikvarði á það hvort ríkisstjórn væri byggðavæn eður ei og það er vissulega framlag sem hefur skilað sér til byggðanna.