Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 17:41:35 (4336)


[17:41]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að leggja fram þessa þáltill. þar sem þá eru byggðamálin komin til umræðu á Alþingi í þessu formi og verða tekin til skoðunar eins og þar mælt er fyrir um í lögum um Byggðastofnun. Og þar sem ég á sæti í allshn. sem mun fá þessa þáltill. til meðferðar fæ ég tækifæri til að spyrja og væntanlega fá þar svör við ýmsum spurningum sem vakna óneitanlega við lestur þessarar tillögu.
    Í 1. hluta þáltill. er eitt af meginmarkmiðum byggðastefnu ríkisstjórnarinnar að efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf. Þá vaknar spurningin: Hvar telur hæstv. ríkisstjórn að sé hægt að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf? Því miður eru þær fréttir sem við höfum fengið að undanförnu af atvinnulífi nærri einhliða af erfiðleikum þess og síðustu daga hafa borist fréttir frá bankakerfinu þar sem sagt er að lausafjárstaða þess sé nú góð af því að lítil eftirspurn sé eftir fjármagni til uppbyggingar atvinnulífi sérstaklega þó frá fyrirtækjum eða öðrum sem bankarnir telja að séu hæfir til að taka lán.
    Þá vaknar spurningin hvort ekki er verið að útiloka einhverja staði sem ekki væri gott að gerðist með kröfunni um fjölbreytt atvinnulíf. Allir sem til þekkja vita að víðast hvar út um land er atvinnulíf einhæft. Þar er annaðhvort um að ræða landbúnað eða sjávarútveg sem atvinnulífið byggist á. Og ef ekki er lögð áhersla á að auka atvinnulífið nema þar sem það er fjölbreytt, reyndar bæði fjölbreytt og arðsamt, þá er það spurning hvort ekki er verið að sníða þeim svæðum sem vert er að efla of þröngan stakk.
    Síðar segir að það eigi að reka fjölbreytta þjónustu á hagkvæman hátt og þá er spurningin þessi: Hvað þýðir þetta? Að vísu segir hér síðar að það eigi ekki að draga úr opinberri þjónustu á vegum ríkisins en þó á að laga hana að íbúafjölda. Þýðir það að það eigi þá að gera miklu betur og auka svo mikið þar sem fjöldinn er meiri til þess að hún verði þá að einhverju leyti í samræmi við íbúafjölda? Þannig eru það sem sagt fjölmörg atriði sem vakna í þessu sambandi. Það er talað um jaðarsvæði og þar sé einkum horft til nýtingar náttúruauðlinda og ferðaþjónustu. Í skýrslu Byggðastofnunar er bent á að á þessum svonefndu jaðarsvæðum muni sauðfjárræktin vera undirstöðuatvinnuvegur. Miðað við þær vonir sem eru að vakna nú að sauðfjárrækt geti skapað sér sérstöðu vegna góðrar og sértaklega heilnæmrar framleiðslu þá er það hart ef ekki er litið til þeirra hluta þegar hugsað er um framtíðarmöguleika þessara svæða.
    Síðan kemur kafli um samræmingu aðgerða ríkisvaldsins og er vissulega ástæða til þess að taka undir að það þurfi að samræma betur. Við höfum allt of mörg dæmi nýleg um það þar sem ekki virðist vera samræmis gætt að fullu. Síðasta dæmið er reyndar héðan frá Reykjavík um byggingu Hæstaréttarhúss þar sem virtist ekki hafa verið nægilega horft fram í tímann og samræmi milli ráðuneyta. Það er því mikilvægt að þarna sé reynt að vinna betur. Og vonandi hefur sá tími, sem leið frá því að Byggðastofnun skilaði þessari ályktun á sl. sumri þangað til hún er flutt nú inn á Alþingi, verið notaður til þess að undirbúa þau vinnubrögð sem þarna er gert ráð fyrir þannig að allshn. geti fengið upplýsingar um það frá ráðuneytunum hvernig þessari samræmingarvinnu verður hagað.
    Eitt vil ég að lokum leggja sérstaka áherslu á og það er að fá upplýsingar um stöðu atvinnulífsins. Í síðasta kaflanum er rætt um atvinnulífið og lögð áhersla á að atvinnu í landinu verði búin þau skilyrði að fyrirtækin geti skilað arði. Miðað við þá stöðu sem atvinnulífið er í þá hljótum við að vilja fá að vita hvaða ráðstafanir atvinnuvegaráðuneytin eru að gera nú til þess að ná þessu markmiði. Og ég sakna þess auðvitað að ekki skuli vera neinar ábendingar að finna í þessari byggðaáætlun um það hvernig þar er verið að vinna og ætlað að gera í náinni framtíð þar sem við vitum að atvinnulífið er undirstaða byggðaþróunarinnar. Ég vil því leggja áherslu á að við munum í allshn. leita eftir því að fá upplýsingar um það hvernig iðnrn. er að vinna að áætlun um eflingu iðnaðar í landinu, sjútvrn. er að vinna að áætlun um eflingu sjávarútvegs í landinu og landbrn. að vinna að eflingu landbúnaðar í landinu nú í náinni framtíð. Þetta eru að sjálfsögðu mikilvægustu spurningarnar sem koma fram í hugann þegar við lesum og fjöllum um þessa þáltill. og ég vona sannarlega að umfjöllun Alþingis um þessi mál verði til þess að menn líti raunsærri augum á þau og þau verði tekin fastari tökum.