Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 13:51:51 (4360)


[13:51]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það má segja að það frv. sem nú er loksins komið fram endurspegli á vissan hátt mjög langa umræðu innan núv. stjórnarflokka og núv. hæstv. ríkisstjórnar um það hvernig hagræða megi í sjávarútveginum og jafnframt hvernig mögulegt sé að skattleggja sjávarútveginn.
    Upphaf þessa máls er að nokkru leyti það að eitt fyrsta verkefni núv. hæstv. ríkisstjórnar var að breyta svokölluðum Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins verulega. Það var ákveðið að hætta að láta þær aflaheimildir sem sá sjóður hafði til umráða, að hámarki 12 þús. lestir er byggðust fyrst og fremst á þeirri skerðingu sem varð vegna útflutnings á ferskum fiski, renna til Hagræðingarsjóðs, en þess í stað rynnu heimildirnar, og þær voru auknar í 12 þús. tonn og festar þannig, til Hafrannsóknastofnunar. Með þessu var verið að láta undan kröfum Alþfl. sem hafði krafist þess þegar ríkisstjórnin var mynduð að sjávarútvegurinn greiddi þann rannsóknarkostnað sem felst í rekstri Hafrannsóknastofnunar. Þessu mótmæltum við stjórnarandstæðingar á sínum tíma og töldum að atvinnugreinin væri ekki á nokkurn hátt undir það búin miðað við aflasamdrátt að mæta slíkri skattlagningu.
    Það upphófst mikill vandræðagangur í kringum þetta mál og því var lofað að þessar veiðiheimildir færu til að jafna það áfall sem hafði komið fram vegna aflasamdráttarins og ríkisstjórnin kom með yfirlýsingu eftir yfirlýsingu í þessum málum. Ekki ætla ég að rekja þær en vil minna á að fyrst 23. nóv. 1992 kom yfirlýsing um stofnun þessa nýja sjóðs, sem nánast öllu átti að bjarga í sjávarútveginum. Lítið gerðist í framhaldi af þeirri yfirlýsingu, en síðan kom ný yfirlýsing 27. júní í sumar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Frv. til laga um stofnun Þróunarsjóðs sjávarútvegsins verður lagt fram strax í upphafi þings og afgreitt sem sjálfstætt þingmál og forgangsmál. Meginhlutverk sjóðsins verður að stuðla að aukinni hagkvæmni í veiðum og vinnslu. Ríkisstjórnin mun nú þegar gera ráðstafanir til þess að afla fjár til sjóðsins í samræmi við hlutverk hans þannig að unnt sé að undirbúa aðgerðir af hálfu sjóðsins um leið og hann verður formlega stofnsettur.``
    Það er væntanlega þessi yfirlýsing frá 23. júní 1993 sem nú er verið að koma í framkvæmd að nokkru leyti með því að mæla fyrir þessu frv. hér í dag og er það út af fyrir sig gott að ríkisstjórnin skuli loksins koma því frá sér ef það mætti verða til þess að breyta í einhverju þeirri miklu óvissu sem hefur ríkt í sjávarútveginum vegna umræðu um þetta mál. Það er búið að tala um það síðan núv. hæstv. ríkisstjórn var mynduð og það er fyrst núna sem það er lagt hér fram. Á sama tíma hefur í reynd dregið mjög úr úreldingu fiskiskipa í sjávarútveginum vegna þess að menn vænta þess að bætur vegna úreldingar verði hækkaðar og aðilar hafa staldrað við og beðið með það að úrelda sín fiskiskip. Það er m.a. vegna þess að hér er gert ráð fyrir því að hækka þessar bætur, sem ég er sammála og tel þetta vera nauðsynlegt skref. En sú óvissa sem hefur verið um málið að undanförnu hefur dregið mjög úr framkvæmdum í sambandi við úreldingu fiskiskipa.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessu óvissuástandi þurfi að linna nú þegar og þó fyrr hefði verið. Núv. hæstv. ríkisstjórn ber mikla ábyrgð í sambandi við þetta mál og þetta hefur verið vegna þess sundurlyndis sem gætt hefur milli flokkanna í þessu máli og um stjórn fiskveiða almennt.
    Ég vil taka fram að í þessu máli hefur ekki fremur en öðrum verið haft samráð á undanbúningsstigi við fulltrúa stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi, enda lítið lagt upp úr því af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar að reyna að skapa samstöðu um mál af þessu tagi. Það er jafnframt ljóst að þeir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi sem hafa tjáð sig um þetta mál hafa nánast allir lagst gegn því og er rétt að hugleiða hvernig stendur á því að þessir aðilar skuli ekki vilja ljá máli sem þessu liðsinni. Ég held að skýringarnar séu í sjálfu sér ósköp einfaldar. Þær eru fyrst og fremst þær að með þessu frv. er stefnt að því að innheimta sérstakt gjald af öllum úthlutuðum aflaheimildum sem nemi 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest.
    Eru aðstæður í sjávarútvegi í landinu með þeim hætti að það séu forsendur til þess að taka upp slíka gjaldtöku? Er mikið um það að fyrirtæki skili slíkri afkomu að það sé líklegt að þau geti staðið undir gjaldi sem þessu? Það má vel vera að svo sé í einhverjum tilvikum og þá undantekningartilvikum, en

flest sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa verið rekin með tapi. Þar af leiðandi er að mínu mati ekki tímabært að taka upp gjaldtöku sem þessa, þótt ég geti tekið undir það að það eigi að vinna sameiginlega að minnkun fiskiskipaflotans og til þess að það sé unnt þarf að sjálfsögðu að greiða eitthvert gjald. Það hefur flotinn gert. Það er jafnframt ljóst að aflaheimildir Hagræðingarsjóðs áttu að renna til þess verkefnis þar til núv. hæstv. ríkisstjórn ákvað að breyta því.
    Ég hef hins vegar mjög miklar efasemdir um það og hef ávallt haft, að sjóður sem þessi geti með fullnægjandi hætti keypt upp fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki þeirra í því skyni að auka arðsemi í fiskvinnslunni. Það er út af fyrir sig góð hugsun sem þar býr að baki. Það er hins vegar allt öðruvísi mál en það að kaupa upp fiskiskip, því þegar þessi fiskiskip hafa verið keypt, þá ber skylda til að eyða þeim eða koma þeim úr rekstri.
    Það er mikið til af alls konar húsnæði í landinu, húsnæði sem hefur verið notað til fiskvinnslu og er notað til fiskvinnslu í dag. Núna t.d., þegar þetta mikla ævintýri hefst í loðnunni, þá má segja að nánast hvert einasta fiskvinnsluhús á sunnanverðu, vestanverðu og austanverðu landinu sé nýtt til að bjarga þar verðmætum. Mikið af þessu húsnæði er sjálfsagt þannig að margir vildu losna við það og selja það til sjóðs sem þessa, en ég hef miklar efasemdir um að þetta sé mikilvægasta verkefnið til að styrkja stöðu íslensks sjávarútvegs. Í mörgum tilvikum eru þessi hús eign banka og sjóða sem liggja uppi með þau og ég hef ekki séð neina þá framkvæmd eða tillögur að framkvæmd í þessu máli sem hafa sannfært mig um að þarna sé stigið rétt skref.
    Að því er varðar yfirtöku á eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og hlutafjárdeildar Byggðastofnunar, þá er ljóst að hér er verið að gera ráð fyrir því að sjávarútvegurinn yfirtaki þessar skuldbindingar með sameiginlegum hætti og standi skil á því sem þarna kann að tapast, sem vonandi verður nú sem minnst, en þó liggur alveg ljóst fyrir að þar verður um nokkrar fjárhæðir að tefla. Það er ekki hægt að reikna með því að sjávarútvegurinn sé tilbúinn til að yfirtaka slíkar skuldbindingar við þær aðstæður sem nú eru og þarf ekki að fara mörgum orðum um það.
    Virðulegur forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að hafa mikið fleiri orð um þetta mál þó að vissulega mætti gera það. Ég get ekki stutt frv. sem hér er lagt fram nema það taki verulegum breytingum. Ég vona þrátt fyrir allt að það standi til að reyna að ná einhverri samstöðu um þessi mál hér á hv. Alþingi, þ.e. frv. til laga um stjórn fiskveiða og frv. til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Yfirlýsingar ganga mjög í tvær áttir um þessi mál. Annars vegar er því haldið fram að það sé búið að semja um það að þessi frumvörp verði afgreidd nánast óbreytt og þá má segja að það sé lítið fyrir okkur sem erum í stjórnarandstöðu annað að gera en að benda á þá ágalla sem eru á þessum frumvörpum og það sem betur má fara, án þess að gera ráð fyrir því að mikið verði á það hlustað. Þetta eru hins vegar svo mikilvæg mál og skipta svo miklu máli í sambandi við framvindu okkar atvinnu- og efnahagslífs að ég hefði talið að það væri allra hluta vegna skynsamlegt að reyna að skapa sem mesta sátt um þau.
    Mér er hins vegar ljóst að þegar núv. ríkisstjórn var mynduð var það ein af aðalástæðunum fyrir stofnun hennar að ná samkomulagi um einhvers konar skattlagningu sjávarútvegsins, veiðileyfagjald. Alþfl. hefur túlkað þetta mál sem fyrsta skref í þá átt. Hér sé verið að stíga fyrsta skrefið til þess að taka upp veiðileyfagjald. Og meðan það er opinber tilgangur þessa máls, þá held ég að það sé alveg ljóst að um það getur ekki skapast nein samstaða við Framsfl.
    Ég vil leggja á það áherslu að sjávarútvegurinn hefur enga möguleika í dag til að standa undir skattlagningu af þessu tagi. Það blasa við mikilvæg verkefni í greininni eins og að byggja upp fiskstofnana og grynnka á skuldum sem eru allt of miklar. Á meðan slíkt ástand varir er út í hött að vera að eyða tíma í að finna út leiðir til skattlagningar. Því miður hefur núv. hæstv. ríkisstjórn notað það sem af er kjörtímabilinu í slíkar bollaleggingar og á meðan hefur sjávarútvegurinn beðið í ofvæni hver verði niðurstaðan. Ég ætla ekki að segja til um það, en trúlega verður niðurstaðan engin því á stjórnarheimilinu virðast menn ekki geta komið sér saman um neitt annað en að sitja. Það sé hins vegar rétt að sitja þótt menn séu ósammála, hvort sem það er um landbúnaðarmál eða sjávarútvegsmál. Þannig að ég á svona heldur von á því að það verði svipuð niðurstaða í þessu máli, að menn verði áfram ósammála en verði hins vegar sammála um að sitja. En það er illt til þess að vita að stærstu og mikilvægustu atvinnuvegir þjóðarinnar þurfi að búa við slíkt stjórnarfar næstu mánuðina.