Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 14:42:43 (4364)


[14:42]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Í október 1991 birti núv. ríkisstjórn hvítbók sem stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar er m.a. vikið að stefnumótun í sjávarútvegsmálum með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:
    ,,Til að vinna að mótun heildstæðrar stefnu í þessum efnum hefur verið skipuð sérstök átta manna nefnd sem jafnframt hefur verið falið að fjalla um framtíðarmarkmið sjávarútvegsins og gera tillögur um hvernig ná megi þeim markmiðum sem sett verða þannig að sem víðtækust sátt takist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál. Við mótun fiskvinnslustefnu verður lögð áhersla á samvinnu og hagræðingu fyrirtækja til að auðvelda þeim að mæta harðnandi samkeppni. Nefndin mun í störfum sínum hafa samráð við sjávarútvegsnefnd Alþingis. Nefndin mun í samráði við ákvæði gildandi laga um fiskveiðistjórnun leggja mat á mismunandi kosti er til greina koma varðandi veiðar, vinnslu og markaðssetningu á sjávarfangi. Er þess að vænta að starf nefndarinnar verði traustur grundvöllur umræðna og ákvarðanatöku um grundvallaratriði sjávarútvegsstefnunnar.``
    Þessi nefnd, sem stundum var kennd við tvíhöfða, hefur satt að segja unnið bæði mikið verk og þarft. Í aprílmánuði, ef ég man rétt, 1993 lauk hún störfum með því að skila skýrslu sinni til sjútvrh., sem er fylgiskjal birt með stjfrv. um fiskveiðistjórnun.
    Nefndarmenn hafa áreiðanlega gert sér vonir um það að með þessu mikla starfi hafi þeir a.m.k. dregið saman á einn stað námu upplýsinga um stöðu sjávarútvegsins hér heima og reyndar sjávarútvegsins hjá ýmsum samkeppnislöndum og öðrum þjóðum. Ég er satt að segja sammála því mati nefndarmanna að þar með hafi þeir lagt grundvöll að vandaðri umræðu og málefnalegri skoðun á málefnum sjávarútvegsins. Það veldur mér nokkrum vonbrigðum að taka eftir því bæði við umræður um mótun fiskveiðistjórnunarstefnu og eins í þessu máli að þá skuli þess lítt gæta hversu feikileg vinna hefur verið lögð í skoðun og rannsókn staðreynda um stöðu og vandamál sjávarútvegsins.
    Það frv. sem hér sér dagsins ljós um Þróunarsjóð sjávarútvegsins á rætur sínar að rekja til umræðna, sem hafa orðið nokkrar á undanförnum missirum, fyrst og fremst um tvennt. Um mjög alvarlega skuldastöðu sjávarútvegsins, um offjárfestingu á liðnum árum og um takmarkaða og stundum lélega nýtingu þeirra fastafjármuna sem í greininni hafa verið festir.
    Svo háttar til með sjávarútveg Íslendinga að hann er þvílík uppistöðuatvinnugrein að það má segja að afkoma þjóðarinnar ráðist algjörlega af stöðu sjávarútvegsins. Í flestum öðrum löndum, samkeppnislöndum okkar, er þessu þveröfugt farið. Þar er sjávarútvegurinn yfirleitt aukabúgrein, stundum flokkaður undir landbúnað, og gjarnan háttar þannig til að það er ekki talið að sjávarútvegurinn geti staðið á eigin fótum eða staðið með sjálfstæðum hætti undir lífskjörum þess fólks sem við hann vinnur þannig að hann er niðurgreidd og styrkt aukabúgrein. Þetta er grundvallaratriði sem varðar rekstrarskilyrði íslensks sjávarútvegs. Hann er með öðrum orðum að keppa á erlendum mörkuðum við niðurgreiddar og styrktar greinar. Og þetta undirstrikar m.a. það að við, sjávarútvegsþjóð sem byggir afkomu sína á þessari grein, höfum ekki efni á því að búa sjávarútveginum þannig starfsskilyrði. Þvert á móti verður sjávarútvegurinn að standa á eigin fótum og hann verður að hafa burði til þess að leggja mikið af mörkum við að halda uppi okkar þjóðfélagi. Það verða ekki aðrir til þess.
    Ég vil þess vegna leggja á það áherslu að kveikjan að þeim hugmyndum sem hér eru settar fram með frv. um Þróunarsjóð er umræða um alvarleg vandamál sem lengi hafa hrjáð þennan höfuðatvinnuveg okkar án þess að á þeim væri tekið með fullnægjandi hætti. Þeir sem hafa gagnrýni fram að færa á þessa sjóðshugmyndir skyldu hafa það í huga að vandamálið hefur verið með okkur lengi og ég sakna þess að heyra ekki aðrar hugmyndir um það. Ég endurtek að þessi vandamál eru skuldastaða og offjárfesting í sjávarútveginum.
    Ég sé ástæðu til vegna þess að í þetta mál hefur verið lögð mikil vinna að rifja hér upp, með leyfi forseta, niðurstöður þessarar nefndar, sem ég hef vitnað til, um þau vandamál sem á að taka á með þessum sjóði. Ég leyfi mér þá að vitna í skýrslu sjútvrh. frá nefndarmönnum, með leyfi forseta, en þar segir:
    ,,Umframafkastageta er bæði í veiðum og vinnslu og varð hún enn sýnilegri en áður með tilkomu aflamarkskerfisins. Finna þurfti leið til að auðvelda sjávarútveginum að laga afkastagetu sína að minni heildarafla og markvissri sókn. Þá er skulda- og afkomustaða sjávarútvegsins slík að mikil gjaldþrot blasa við með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir fyrirtæki sem í hlut eiga, bankakerfið, lánasjóði og einstök byggðarlög ef ekkert verður að gert.
    Þróunarsjóðnum er fyrst og fremst ætlað að ná tökum á umframafkastagetu í greininni á þann hátt að framleiðslutæki sem tekin eru úr rekstri verði ekki tekin í notkun að nýju. Markmiðið er að taka húsnæði, áhöld og aðstöðu úr rekstri og draga þannig varanlega úr afkastagetu greinarinnar.`` --- Þetta er auðvitað sagt í ljósi þeirra staðreynda sem við blasa um hið mikla fall í aflaheimildum.
    ,,Hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er á þennan hátt að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Í því skyni getur sjóðurinn keypt fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki þeirra og greitt styrki vegna úreldingar fiskiskipa`` --- eins og við höfum þegar góða reynslu af. ,,Jafnframt er sjóðnum ætlað að stuðla að skipulagsbreytingum í sjávarútvegi í samvinnu við lánastofnanir enda leiði slík endurskipulagning til verulegrar hagræðingar. Þá er sjóðnum heimilt að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis með fjárhagslegri fyrirgreiðslu og hafa um það forustu. Þá getur hann einnig haft samstarf við alþjóðlegar lánastofnanir í þessu skyni.``
    Það er ástæða til þess að vekja athygli á þessum þætti. Stundum hafa menn hér við umræður um sjávarútvegsmál vakið athygli á því að sú breyting er að verða að því er varðar þessa höfuðatvinnugrein okkar að hún er ekki lengur bara stunduð á heimamiðum. Í vaxandi mæli þurfum við að beina sjónum okkar að fjarlægum veiðislóðum. Það hefur þegar verið gert, annars vegar eru mönnum í fersku minni veiðar íslenskra skipa í Smugunni en jafnframt er ástæða til að minna á að aðrar þjóðir leita í vaxandi mæli eftir samstarfi við Íslendinga. Ekki færri en tuttugu þjóðir hafa gert það með formlegum hætti þar sem boðið er upp á margvíslegt samstarf. Og er hægt að nefna mörg dæmi þar um. Nýjasta dæmið er t.d. í Namibíu þar sem við gerum okkur vonir um að samstarf af þessu tagi geti orðið farsælt og hagkvæmt báðum þjóðum en þannig háttaði til vegna þess hve skuldum hlaðin og veðsett sjávarútvegsfyrirtæki eru þá voru þau nánast bundin átthagafjötrum og gátu ekki sinnt þessum verkefnum, sýndu ekki frumkvæði til þess. Þannig að þetta getur þegar fram í sækir orðið eitt af mikilvægari verkefnum þessa sjóðs.
    Þá segir hér enn fremur:
    ,,Stofnfé sjóðsins skal vera eignir Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins. Sjóðurinn tekur við eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja svo og eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar. Ríkissjóður leggur sjóðnum til 4 milljarða króna að láni sem endurgreiðist á nokkrum árum. Jafnframt falla niður lagaákvæði um Hagræðingarsjóð sjvarútvegsins.
    Um úreldingarstyrki vegna fiskiskipa skulu gilda svipuð ákvæði og í lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.``
    Ég hygg að þessi ákvæði sem eru gamalkunn og við höfum reynslu af muni ekki valda miklum deilum.
    ,,Þá er sjóðnum ætlað að kaupa fiskvinnslustöðvar og föst framleiðslutæki þeirra í því skyni að auka arðsemi fiskvinnslu í landinu enda hafi viðkomandi stöð fengið útgefið fullgilt vinnsluleyfi eða að fiskvinnsla hafi verið stunduð á fasteigninni með tilskildu vinnsluleyfi síðustu ár og henni hafi ekki verið ráðstafað varanlega til annarra nota. Það er jafnframt skilyrði að eignir sem sjóðurinn kann að festa kaup á séu afhentar veðbandslausar.
    Stjórn sjóðsins skal leitast við að selja þær fasteignir sem sjóðurinn eignast til óskyldrar starfsemi. Skal þeirri kvöð þinglýst á fasteignirnar að þær verði ekki framar nýttar til fiskvinnslustarfsemi.
    Þá er samkomulag um að frá og með því fiskveiðiári sem hefst 1. sept. 1996 skuli innheimt gjald af úthlutuðu aflamarki. Upphæð þessa gjalds skal miðast við að sjóðurinn geti staðið undir skuldbindingum þeim sem hann tekur á sig. Skal gjaldið renna til sjóðsins á meðan hann starfar en sjóðurinn verður í eigu íslenska ríkisins. Þessi gjaldtaka er málamiðlun stjórnarflokkanna í veiðigjaldsmálinu. Þegar hún lá fyrir taldi nefndin ekki tilefni til að vinna frekar að þessum málaflokki.``
    Af þessu mál ljóst vera að meginmarkmið þessarar sjóðsstofnunar er að taka á vandamáli sem hefur verið vanrækt að taka á allt of lengi en er mjög aðkallandi og brýnt, skuldasöfnun í sjávarútvegi og offjárfesting, að gera fyrirtækjum í greininni kleift að lækka sínar skuldir, að bæta arðsemi þeirra fyrirtækja sem við síka fjárhagslega endurskipulagningu fá traustari starfsgrundvöll, að auka þannig arðsemi í greininni. Um þessi markmið getur ekki verið mikill ágreiningur. Það hvarflar ekki að mér annað en að öllum sem hér eru inni sé eins farið að við höfum öll áhyggjur af þessari miklu skuldasöfnun og við erum áreiðanlega öll sammála um að á því vandamáli verði að taka.
    Ef ég hef tekið rétt eftir þá hafa sumir þeir sem hér hafa talað fyrst og fremst notað það sem gagnrýniefni á þennan sjóð að hér sé um að ræða skattlagningu á sjávarútveginn. Meira að segja hv. 1. þm. Austurl. leyfði sér að nota það orð í þessari umræðu. Ég veit ekki af hverju menn sjá ástæðu til að fara svo ranglega með hugtök. Að sjálfsögðu er hér ekki um að ræða skattlagningu. Hefur einhverjum hv. þm.

dottið í hug að kalla tilfærslukerfi eins og var í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins skattlagningu á sjávarútveginn? Hefur einhverjum dottið í hug að kalla Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins skattlagningu á sjávarútveginn? Ég hef ekki heyrt það fyrr.
    Sjóður sem hefur það að markmiði að bæta fjárhagslega stöðu sjávarútvegsins, og vissulega er þetta millifærslusjóður, byggist að hluta til á eignum og skuldum annarra sjóða sem við könnumst við, hann byggist að hluta til á ríkisframlagi. Að öðru leyti á hann að byggjast á gjaldtöku innan greinarinnar og hann skilar öllu því fé til greinarinnar sjálfrar. Eins og reyndar, kannski í minna mæli, þeir sjóðir aðrir sem inn í hann renna og við höfum áður haft reynslu af.
    Ég vil einfaldlega biðja menn að villa ekki um fyrir öðrum með því að kalla þetta skattlagningu. Þetta er ekki skattlagning. Hér er ekki um að ræða að leggja skatt á sjávarútveginn sem eigi síðan að renna í ríkissjóð eftir almennum reglum skattalaga. Það er einfaldlega ekki svo, það er ekki rétt. Að svo miklu leyti sem hér er um millifærslusjóð að ræða þá kemur mér á óvart að heyra gagnrýni af þessu tagi frá ýmsum talsmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa einmitt sér í lagi verið fyrr á tíð í orði og verki talsmenn slíkrar millifærslusjóða.
    Það sem ég hef helst áhyggjur af í sambandi við þetta er hvernig til tekst í framkvæmdinni. Auðvitað er eðlilegt að menn spyrji sjálfa sig sem svo: Verður þetta einhver dæmigerður hefðbundinn millifærslu- og sukksjóður? Verður þetta úthlutunar- og skömmtunarkerfi sem unnt er að misbeita af hálfu framkvæmdarvaldsins í stað þess að fara þarna eftir almennum reglum? Það hlýtur að sjálfsögðu að ráðast af því hvernig til tekst um stjórn og framkvæmd en markmiðið með þessum sjóði er fyrst og fremst að taka á vandamálum sem við erum væntanlega öll sammála um að verði að taka á. Það verður að taka á skuldavanda sjávarútvegsins og það er ekki bara vandamál sjávarútvegsins það er líka vandamál þessa þjóðfélags sem getur haft hinar erfiðustu afleiðingar fyrir allt bankakerfið og lánakerfi þjóðarinnar ef það er einfaldlega látið dankast eða því slegið á frest eins og hefur verið allt of lengi.
    En ég bið menn, hver svo sem skoðun manna á þessu er, alla vega að halda því ekki fram að hér sé um að ræða skattlagningu af venjulegu tagi. Og allir þeir fjármunir sem hér eru enn skipulagðir til að taka á þessum vandamálum renna til greinarinnar sjálfrar. Að því er varðar þá gjaldtöku sem hér er komin til sögunnar með þessu frv. þá á hún fordæmi að því er varðar vissa þætti starfseminnar, þ.e. úreldingu fiskiskipa, bæði í lögum og reynslu frá fyrri tíð.
    Að sjálfsögðu er það svo grundvallaratriði og aðhaldsatriði að sjóðurinn á að standa undir skuldbindingum sínum. Það mun ráðast af því í framkvæmdinni hversu hratt hann gengur til verks við að beita sér fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu. Hann hefur lánsfjárheimildir en grundvallaratriðið er það og það er meginástæðan fyrir því að við jafnaðarmenn getum fallist á frv. í þessu formi að hann á sjálfur að standa undir skuldbindingum sínum og sú gjaldtaka sem um er að ræða á að tryggja það. Jafnframt látum við í ljósi þá von að þessar aðgerðir dugi til að auka arðsemi og bæta afkomu þeirra fyrirtækja sem við þetta komast á traustari grundvöll og eiga vonandi langt líf fram undan.
    Út frá þessum grundvallarsjónarmiðum hef ég ekki heyrt enn þá í þessari umræðu eiginlega neina marktæka gagnrýni og heldur ekki ábendingar um aðrar leiðir að settum markmiðum.