Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:04:13 (4367)


[15:04]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ja, fátækleg voru svörin eins og við mátti búast frá hæstv. ráðherra. Og rétt er að segja honum það ef hann veit það ekki. Ég hef nú grun um að hann viti betur en hrein ósannindi eru það að haft hafi verið samráð við sjútvn. í þessu máli.
    Þeir aðilar sem unnu að þessu máli komu tvisvar sinnum á fund nefndarinnar að beiðni nefndarinnar sjálfrar, höfðu ekki frumkvæði og sögðu hvað? Pass, ekkert annað en pass. Þeir höfðu ekkert að segja, hæstv. ráðherra, ekkert að segja nefndinni.
    Ráðherra svarar hins vegar engu öðru. Hann svarar engu um samkeppnisstöðu greinarinnar. Hvað segir hann um það: Hefur samkeppnisstaða greinarinnar verið bætt? Hefur hún verið bætt? ( Gripið fram í: Hann veit ekkert um það.) ( Utanrrh.: Hvað á hv. þm. við?) Hv. þm. á við það sama og ráðherrann var að tala hér um í ræðu sinni og sló fram sem fullyrðingum sem standast ekki. Sama er með auðlindaskattinn. Auðvitað er það auðlindaskattur, hæstv. ráðherra, þegar ríkisstjórnin leggur það til að í hvert skipti sem sjómaður kemur að landi með afla þá skuli gjaldtökumenn Friðriks Sophussonar, hæstv. fjmrh., standa á bryggjusporðinum og rukka menn um gjald fyrir það að róa til fiskjar. Auðvitað er það auðlindagjald og ekkert annað. Þannig er komið fyrir íslenskri þjóð.