Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:27:34 (4370)


[15:27]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem er til umræðu er hluti af þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sem ríkisstjórnin hefur þurft að standa fyrir og ætlar að beita sér fyrir til þess að takast á við þann mikla fortíðarvanda sem allar greinar sjávarútvegsins hafa staðið frammi fyrir og staðið í og gerir sjávarútveginum svo erfitt fyrir að takast á við þá erfiðleika í dag sem tengjast minnkandi sjávarafla.
    Sá vandi birtist fyrst og fremst eins og hér hefur komið fram í þessari umræðu í erfiðri skuldastöðu sjávarútvegsins og það er það sem þessum þróunarsjóði sem er til umræðu í frv. til laga er ætlað að takast á við en Þróunarsjóðnum er hins vegar ætlað að taka yfir atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar og greininni er þar með ætlað að standa undir að hluta auk þess sem Þróunarsjóðnum er ætlað að taka yfir Hlutafjársjóðinn.
    Með þessu frv. er lagður grunnur að sjóði sem sjávarútvegurinn byggir upp með framlögum af útgerð og fiskvinnslu og af aflaheimildum og með framlagi úr ríkissjóði til þess að standa undir hluta af þeim skuldbindingum sem sjóðurinn tekur við og greinin ber og getur ekki annað en borið.
    Þegar litið er til afkomu í sjávarútvegi má segja sem svo að greinin geti vart staðið undir nýrri skattlagningu. Auðvitað er hægt að taka undir það. Vissulega er það svo að mörg fyrirtæki geta ekki staðið undir auknum útgjöldum. Það vitum við. Engu að síður þarf að takast á við þann vanda sem tengist skuldastöðu í sjávarútvegi og með þessu frv. er leitast við að gera það.
    En þegar litið er á dæmið í heild og til framtíðar er ljóst að sjávarútvegurinn á ekki annarra kosta völ en byggjast upp af eigin ramleik svo afgerandi sem sjávarútvegurinn er í efnahagslífi okkar. Þegar tekið er tillit til þess hvernig gengisþróunin hefur verið sem hefur vissulega verið hagstæð síðustu missiri fyrir sjávarútveginn, tekið tillit til þess stöðugleika sem er á vinnumarkaði, tekið tillit til þess að það hefur verið leitast við að draga úr útgjöldum sjávarútvegsfyrirtækja m.a. með því að létta af aðstöðugjöldum, þá er alveg ljóst að það er ekki víst að í annan tíma séu betri aðstæður til þess að byggja slíkan sjóð upp sem er ætlað að styrkja sjávarútveginn þrátt fyrir það að aflaheimildir séu litlar núna og erfiðleikar séu í sjávarútvegi vegna þess að aflaheimildir eru minni en nokkru sinni fyrr.
    Þá er á það að líta og ástæða til þess að vekja athygli á því, ekki síst vekja athygli þeirra sem hafa mælt gegn samþykkt þessa frv. að meginþungi af greiðslum úr sjávarútvegi í Þróunarsjóðinn kemur þó ekki til fyrr en 1. sept. 1996 með nýju fiskveiðiári en stærsti hlutinn af innborgunum í sjóðinn er tengdur aflaheimildum.
    Þrátt fyrir samdrátt í aflaheimildum í þorski og erfiðleikum sem ég vil alls ekki gera lítið úr, síður en svo, þá er ljóst að engra annarra kosta er völ en þeirra að byggja upp sjóð fyrir sjávarútveginn með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég vil því, virðulegi forseti, lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Hins vegar er eðlilegt að um þetta frv. sé fjallað í tengslum við frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og ég lít svo á að það sé óhjákvæmilegt að fjalla um frv. um Þróunarsjóðinn rækilega í hv. sjútvn. og líta til þess um leið og nefndin tekur til umfjöllunar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.
    Ég verð að lýsa nokkurri undrun minni yfir því hversu ýmsir hv. stjórnarandstæðingar hafa haft allt á hornum sér í umræðunni gagnvart þessu frv. Ég held að það sé ekkert mikilvægara fyrir sjávarbyggðirnar í landinu og rauninni fyrir þjóðina alla en að við vinnum að því að efla sjóð sem hefur það meginmarkmið að styrkja sjávarútvegsfyrirtækin og ég tel að frv. sem hér er til umræðu muni geta með afgerandi hætti, ef staðið er að því eins og hér er gert ráð fyrir, styrkt sjávarútveginn. En aðalatriðið er spurningin um það hversu vel tekst til með að nýta auðlindina, hvernig tekst til að byggja upp fiskstofnana. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir í dag er auðvitað fyrst og fremst sá vandi sem tengist minni afla, minni aflaheimildum og því að tekjur hafa dregist saman sem því nemur.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., ég lýsi stuðningi mínum við það.