Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:40:42 (4374)


[15:40]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. vitnar til þess að það hefur verið lögð áhersla á það af hálfu aðila í fiskvinnslu að halda bæri stöðugleika á vinnumarkaði o.s.frv. sem auðvitað tengist því að greinin byggist fyrst og fremst á því að tekjurnar séu viðunandi. Hvað hefur gerst síðan árið 1990 í sjávarútvegi? Eru sömu aflaheimildir? Er líklegt að hjá fyrirtækjum á Norðurl. v., sem hafa svipuð útgjöld í dag og voru 1990 en minni

kvóta, sé svipuð afkoma? Það væri fróðlegt ef hv. þm. færi aðeins yfir þá hluti. Það er allt önnur staða í sjávarútvegi í dag vegna minni aflaheimilda og þetta veit auðvitað hv. þm. en reynir hins vegar að slá höfðinu við steininn og sannfæra hv. þm. um að það sé hægt að bera saman árið 1990 og árið 1994. Þingmaðurinn hlýtur að vita hvaða veiðiheimildir voru árið 1990 og hvaða veiðiheimildir eru í dag. Það er grundvallaratriðið. Hins vegar eru aðstæður miklu betri, rekstraraðstæður miklu betri að öðru leyti vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, minni verðbólgu, lægri vaxta o.s.frv. Þetta ætti hv. þm. að kynna sér.