Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:56:32 (4377)


[15:56]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Aðalatriði þessa máls er að það er þörf á þeim aðgerðum sem hér er verið að mæla fyrir um. Það er hins vegar svo ástatt í sjávarútvegi í dag að það eru ekki aðstæður til þess að innheimta það gjald sem hv. þm. beitti sér fyrir að yrði lagt á sjávarútveginn á sínum tíma með sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs. Þess vegna hefur verið tekin ákvörðun um að fresta þeirri tekjuöflun í þrjú ár. Þá er hins vegar gert ráð fyrir því að breyta forminu á þessari innheimtu. En hér er fyrst og fremst verið að fresta innheimtu og gjaldtöku sem hv. þm. beitti sér fyrir á sínum tíma og ég tel það vera eðlilegt og nauðsynlegt vegna aðstæðna í greininni og væri alveg fráleitt að taka ekki tillit til þess þó að kosningar eigi að fara fram til Alþingis á næsta ári.