Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:59:39 (4379)



[15:59]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er kjarni málsins að það er verið að færa þessi mál nær því horfi sem þau voru áður en síðasta breyting var gerð á lögum um Hagræðingarsjóð í upphafi þessarar ríkisstjórnar og hélt ég að það ætti fremur að leiða til þess að það yrði minni ágreiningur okkar í millum um þau efni þegar málin væru færð nær því horfi sem hv. 1. þm. Austurl. beitti sér fyrir að þau kæmust í á árinu 1990 en slík breyting ætti ekki að leiða til aukinna deilna. Og ég held að það sé í sjálfu sér gott fyrir sjávarútveginn að þær breytingar skuli nú gerðar að þessi tekjustofn og þessi tekjuöflun nýtist greininni í gegnum þennan sjóð og fari ekki til annarra þarfa og við ættum að geta verið sammála um að það er spor fram á við fyrir sjávarútveginn.