Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:24:41 (4385)


[16:24]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er út af fyrir sig réttmæt gagnrýni að frv. er of seint fram komið og ég fagna því einfaldlega að fá gagnrýni úr þeirri áttinni. Hitt hygg ég að sé misskilningur hjá hv. þm. að þetta frv. miði ekki að því að gefa íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum meira svigrúm til þess að nýta það hugvit og þá verkþekkingu sem þar er fyrir hendi. Þvert á móti er þetta ein af mikilvægum forsendum þess að nýta það hugvit og þá þekkingu sem við ráðum yfir. Fyrirtæki sem eru bundin á skuldaklafa vegna fjárfestingar sem ekki nýtist nema að takmörkuðu leyti hafa minna svigrúm en nauðsynlegt er til þess að nýta aðra krafta eins og hugvit og verkþekkingu. Og það er einmitt til þess að skapa þetta svigrúm sem við teljum nauðsynlegt að ganga hraðar fram í aðlögun greinarinnar að þessum nýja veruleika sem við búum við með minni aflaheimildum sem frv. er flutt. Ég vil líka minna á að í frv. eru skýr ákvæði um það að sjóðurinn á að

styrkja verkefni þar sem íslenskur sjávarútvegur er að leita út á við, sjávarútvegsverkefni erlendis. Þannig að þessu leyti er beinlínis gert ráð fyrir því að sjóðurinn taki til að mynda á verkefnum eins og hv. þm. nefndi með samstarfsverkefni í Namibíu, sem ég ætla að geti verið mjög góður kostur, lyftistöng bæði fyrir íslenskan sjávarútveg og sjávarútveg Namibíu sem verið er að byggja upp. Það er beinlínis gert ráð fyrir því í frv. að við getum tekist á við slík verkefni sem ég er sammála hv. þm. að er þáttur í þeirri framfararsókn í íslenskum sjávarútvegi sem við þurfum að standa að þrátt fyrir þrengingarnar.