Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:26:44 (4386)


[16:26]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er alveg ljóst að í þessu frv. eru nokkur atriði sem víkja að þessu en það er ekki burðarásinn í frv. Burðarásinn í frv. er þessi millifærsluæfing varðandi gömlu skuldbreytingarmilljarðana plús einhverjar vangaveltur um það hvernig eigi að hagræða frystihúsum.
    Það sem ég var hins vegar að benda á hér er að við erum búin að bíða í 16 mánuði eftir að fá frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins hérna inn. Á þeim tíma hefur glatast eða a.m.k. seinkað framkvæmd á dýrmætum tækifærum sem hefði verið hægt að taka á ef raunverulegur þróunarsjóður hefði verið settur upp og bundinn eingöngu við að hafa hér árlega, fimm, sex eða sjöhundruð milljónir í hreint áhættufjármagn til að veita inn í fyrirtækin. Þegar ég hef nefnt það og við alþýðubandalagsmenn þá hafa menn stundum sagt: Það fjármagn er ekki til.
    Ég bendi mönnum á það, eru menn búnir að gleyma því að undir forustu fráfarandi iðnrh. Jóns Sigurðssonar og formanns Landsvirkjunar, Jóhannesar Nordals, hafa líklegast um 2 milljarðar nú þegar verið settir í framkvæmdir og annað vegna væntanlegs álvers á Keilisnesi. Er það ekki áhættufjármagn sem kannski tapast alltaf í framtíðinni? Það sýnist mér. Blönduvirkjun? Eru það ekki um 14 milljarðar sem hafa verið settir í hana? Þannig að það er búið að setja um 16 milljarða í framkvæmdir og spekúlasjónir í orkugeiranum án þess að það hafi skilað krónu í nýjum gjaldeyristekjum. Og bara sú upphæð ein hefði dugað sjávarútveginum til 600--700 millj. kr. áhættusjóðs á ári langt fram í næstu öld. Halda menn að verðmætasköpun í sjávarútvegi hefði ekki verið margföld ef það hefði verið gert?
    Það sem ég var að segja áðan er að við skulum bara taka á hinum raunverulegu þróunarverkefnum og mynda sérstaka löggjöf um þau og sækja það fjármagn og geyma svo bara deiluna um þessa millifærslumilljarða þangað til síðar.