Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:31:23 (4388)


[16:31]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það væri æskilegt ef talsmenn Sjálfstfl. í þessari umræðu, hv. þm. Sturla Böðvarsson og hæstv. sjútvrh., kæmu sér saman um það hvernig þeir telja ástandið vera í sjávarútveginum. Hv. þm. Sturla Böðvarsson lýsti því áðan að þetta væri voðalegt ástand og kenndi um aflabresti. En hæstv. sjútvrh. var hins vegar í andsvari sínu réttilega að benda á að það merkilega er að margir athyglisverðir hlutir hafa verið að gerast í sjávarútvegi. Grandi t.d. hefur aldrei skilað glæsilegra ári heldur en á sl. ári. Síðasta ár er eitthvert mesta aflaár í sögu Íslendinga. Öflugu sölusamtökin eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskar sjávarafurðir hafa sjaldan eða aldrei skilað eins glæsilegu ári og árinu 1993.
    Það er nefnilega mjög merkilegt að barlómurinn í hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Sturlu Böðvarssyni varðandi sjávarútveginn endurspeglar ekki ástandið eins og það er á vettvangi fyrirtækjanna. Vegna hvers?

Jú, vegna þess að þeir sem hafa stýrt þessum fyrirtækjum hafa reynst vera nægilegir dugnaðarmenn til þess að bregðast við þessum aðstæðum með nýjum hætti. Og eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á áðan, þegar nokkrir af þessum dugnaðarmönnum fóru að sækja í Smuguna hver var þá helsti úrtölumaðurinn í nokkra daga? Það var hæstv. sjútvrh. Og það er einmitt þessi hugsun sem við höfum verið að gagnrýna í Alþb., þessi svartnættishugsun gagnvart sjávarútveginum, að sjá alltaf aflabrest og erfiðleika og koma til þjóðarinnar og telja henni sífellt trú um að nú verði menn að sætta sig við hitt og þetta vegna þess. Það er ástæðan fyrir því að við erum að gagnrýna þetta þróunarsjóðsfrv. vegna þess að við teljum að það eigi að taka á möguleikum sjávarútvegsins með allt öðrum hætti en þessi ríkisstjórn hefur verið að gera.