Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:33:44 (4389)


[16:33]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er að nokkru leyti dapurleg umræða, verð ég að segja. Hér hafa talað líklega tveir stjórnarsinnar fyrir utan hæstv. ráðherra og hlupu svo jafnharðan á dyr og þeir höfðu lokið máli sínu. Síðan hefur ýmist verið einn eða enginn stuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar í þingsalnum undir umræðunni.
    Ég tel að umræðan hafi að hluta til einnig verið dapurleg vegna þess að það er voðalega erfitt að koma hæstv. sjútvrh. til að ræða efnislega um þau mál sem á dagskrá eru og undir hans ráðuneyti heyra. Það er reynsla okkar hv. þm. sem höfum reynt það undanfarna vetur. Ég vek t.d. athygli á því að ég legg það orðið yfirleitt í vana minn við umræður af þessu tagi að spyrja hæstv. sjútvrh. a.m.k. einnar mjög skýrrar spurningar bara til þess að fá það fram, eins og jafnan gerist, að hann svarar henni ekki. Ég spurði hæstv. sjútvrh. --- og truflaði hann meira að segja í samtali við hv. þm. Árna Johnsen til þess að tryggja það að hann tæki eftir því að ég væri að leggja fyrir hann spurningar. --- Ég spurði hæstv. sjútvrh. jafneinfaldrar spurningar og þessarar:
    Getur hæstv. sjútvrh. upplýst okkur um það hvernig efnahagsreikningi hins nýja sjóðs verður háttað? Hve umfagsmikil verður hann, hve stór? Hvað er þarna í raun og veru um mikla stærð að ræða? Út af fyrir sig er hægt að reikna það út úr fskj. með frv. en ég spurði svona einfaldrar spurningar og bætti reyndar nokkrum við. Ekki datt hæstv. sjútvrh. í hug að svara frekar en venjulega. Hann hafði alls enga tilburði til þess að svara beinum spurningum sem fyrir hann voru bornar. En hann kom hér í ræðustólinn og sneri út úr mínum orðum, gerði mér upp skoðanir sem ég ekki hef og það geta menn lesið um ef þeir trúa ekki og sannfærst um það.
    Auðvitað er það svo að það ber að nýta fjárfestingu í greininni eins og kostur er. Hvaða heilvita maður mundi tala fyrir öðru? Það sem ég hef verið að reyna að fá hæstv. sjútvrh. til að átta sig á og skilja er að það eru fleiri leiðir gagnvart erfiðleikum sjávarútvegsins heldur en sú ein að draga saman. Það er líka hin leiðin, hæstv. sjútvrh., að sækja út á móti erfiðleikunum. Það er t.d. sú leið þegar afli minnkar á Íslandsmiðum eða kvóti, að fara á önnur mið og það datt nokkrum útgerðarmönnum í hug í sumar. Og er það þá ekki hagræðing? Er það ekki nýting á fjárfestingunni? Ég skyldi ætla það. Ef skipin geta skapað sér verkefni í einhverja mánuði á ári utan landhelginnar er það þá ekki jafngóður kostur og að leggja þeim eða hvað, hæstv. sjútvrh.?
    Ef við höfum tvö fiskvinnsluhús á einum stað og það er ekki bolfiskur lengur til að vinna nema í öðru þeirra, þá er til önnur leið en að loka hinu, úrelda það. T.d. sú að kaupa inn í það hráefni og vinna það þar. Eða gera eins og þeir gera á Reyðarfirði að setja upp sérvinnslu í gamla húsinu við hliðina á því nýja og vinna þar í neytendapakkningar handa þeim Marks og Spencer og félögum. Er það ekki jafngóð ráðstöfun a.m.k. ef ekki betri en sú að bera fé á menn til þess að loka húsunum? Væru þeir eitthvað betur staddir á Reyðarfirði ef þeir hefðu fengið fyrir nokkrum árum síðan peninga úr Úreldingarsjóði til að loka hjá sér gamla húsinu og tekið á sig þinglýsta kvöð um að vinna aldrei framar í því fisk? Hvernig væri þá ástandið í gömlu frystihúsunum núna sem verið er að setja í gang unnvörpum til að frysta loðnu ef Úreldingarsjóður sjútvrh. hefði starfað á undanförnum árum og borið fé á menn til þess að loka þeim og taka á sig þinglýsta kvöð um að það mætti aldrei vinna í þeim fisk framar? Þeir mættu það ekki, mennirnir. Það væri bannað að nýta húsin til slíkra hluta. Eða þau hús sem eru t.d. að kaupa hráefni úr Barentshafinu og halda uppi atvinnu með því að fá þannig hráefni?
    Er það ekki jafngott, hæstv. sjútvrh., að reyna að hafa slíka hugsun með gagnvart þeim erfiðleikum sem við eigum í í sjávarútveginum, en ekki bara þessa einhliða gamaldags samdráttarvolæðishugsun? Það er það sem ég er að gagnrýna. Ég er að reyna að fá hæstv. sjútvrh. inn á það spor að það sé hægt að sækja út gagnvart þessum erfiðleikum a.m.k. samtímis á þennan hátt. Að sjálfsögðu er ekki verið að tala fyrir því að ekki geti verið hagstætt og æskilegt að loka einhverjum húsum, enda hefur það verið gert. Af rekstrarlegum ástæðum hafa menn ósköp einfaldlega gert það þegar þeim hefur hentað. En hin leiðin er líka til að reyna að skapa þeim verkefni. Og það eru menn að reyna að gera víða í greininni. Sjútvn. er nýkomin úr ferð um Austfirði og það var gaman að sá hvernig þar er búið að setja í gang á nýjan leik fiskvinnslu í fjölmörgum húsum sem kannski hafa staðið tóm að mestu leyti undanfarnar vertíðir. En þar er nú ýmist verið að frysta loðnu eða verka síld o.s.frv. og ég hefði haldið að það væri alveg í góðu lagi,

hæstv. sjútvrh.?
    Það þýðir því ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma hér og setja einhverjar ræður á yfir mér eða okkur í Alþb. og ætla að fara að gera okkur upp þær skoðanir að við viljum annars vegar einhverja sérstaka óhagkvæmni, séum orðnir talsmenn hennar, og að hinu leytinu viljum við ekki auka tekjur greinarinnar með að reyna að sækja út. Það er einmitt það sem við erum að tala fyrir. Það er einmitt það.
    Hins vegar ætti hæstv. sjútvrh. að útskýra fyrir okkur hvernig það á að hjálpa sjávarútveginum að þurfa að fara að borga af þessum lánum 1996. Og hæstv. sjútvrh. sagði að það þyrfti að bæta afkomuna. Fyrst með því að úrelda og fækka skipum og minnka þar með tekjur og veltu í greininni. Síðan yrði afkoman orðin svo góð og greinin ætti að njóta hennar til að byggja sig upp. En þegar búið verður að draga saman hvað á þá að fara að gera 1996? Þá á að fara að skattleggja greinina. Ekki notar hún þá peninga í uppbyggingu og þróun í kringum aldamótin sem hún á þá að fara að borga aftur í formi þessa skatts.
    Ég held því að hæstv. sjútvrh. og við öll ættum að fara aðeins yfir stöðu þessara mála. Það hefur margt verið að breytast sem betur fer. Ég tel að íslenski sjávarútvegurinn hafi sýnt alveg aðdáunarverða þróunarhæfileika gagnvart þeim breytingum og þeim erfiðleikum sem hann hefur mætt.
    Ég minni t.d. á það að fram um 1980 vorum við að veiða örfá þúsund tonn af rækjum. Hvað gerist í kjölfar kvótans og breytinganna sem honum fylgja þegar minni verkefni verða til veiða á bolfiski og hefðbundnum veiðum? Flotinn færir sig yfir í aðrar greinar og á skömmum tíma fer rækjuveiðin upp í 30--40 þús. tonn. Hvað hefur verið að gerast núna síðustu árin? Menn hafa farið að sækja á Reykjaneshrygginn. Menn fóru í Smuguna. Menn fóru á Flæmska hattinn og eru að nýta tegundir sem þeir gerðu ekki áður. Það eru miklir möguleikar af þessu tagi sem við eigum að styðja og hvetja menn til að nýta en ekki bara bera á þá fé til þess að draga saman. Það er þannig, hæstv. sjútvrh., að það er hægt að mæta erfiðleikunum á fleiri vegu en þann einn.
    Ég held að það sé síðan afar illa útskýrt og rökstutt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hvaðan henni kemur sú speki að segja við okkur núna: Afkoman í sjávarútveginum er svo slæm að það kemur ekki til greina að vera að selja veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs eða leggja skatt á greinina núna en 1996 verður það hins vegar hægt. Hvaða vísindi liggja á bak við það að íslenskur sjávarútvegur verði orðinn svo vel staddur um mitt ár 1996 að hann geti þá farið að borga þennan skatt? Er það líklegt t.d. að hann muni á þessum skamma tíma þangað til ná svo niður sínum skuldum að honum veiti af að fá hverja krónu sem hann kynni að hafa í afgang til að lækka þær og þá ráðast í einhver ný verkefni? Ég hefði gaman af því að vita hvað kæmi út úr könnun ef sjávarútvegsfyrirtækin í landinu fengju spurningu og hún væri á þessa leið: Ef þið eigið kost á t.d. ákveðnum peningum, ákveðnum fjármunum, x milljónum króna hvað viljið þið gera? Ef þetta yrði veitt t.d. til greinanna til að sérhæfa hús, til að auka fullvinnslu og úrvinnslu, komast nær neytendunum. Væru menn til í það? Geta útgerðirnar með stuðningi og hvatningu af einhverju tagi leitað fyrir sér á fjarlægum miðum, sótt á dýpra vatn o.s.frv.? Mundu koma jákvæð svör við slíkum spurningum? Eða mundu menn almennt segja: Það sem við ætlum að gera við peningana er að loka hjá okkur húsunum, er að minnka flotann, er að draga saman veltuna í fyrirtækjunum hjá okkur. Ég er ekki í vafa um það hvert svarið yrði. Í 95 eða 99% tilvika mundu fyrirtækin velja það ef þau sjá sér kost á því, geta fengið stuðning til þess, að reyna að sækja fram, að reyna að mæta samdrætti í hefðbundnum greinum með því að auka veltuna annars staðar.
    Ég ætla ekki að ítreka spurningar mínar til hæstv. sjútvrh. Ég minni á það samkvæmt venju að ég hef borið þær fram. Ég er orðinn því næsta vanur að fá lítil svör. En út af fyrir sig væri fróðlegt að sjá hvaða meðferð þetta mál fær hjá hv. sjútvn. því að ég hef þá tilfinningu að það sé margt að breytast í þessum efnum og í hugsunarhætti manna almennt í greininni. Það verður gaman að fá gesti í viðtöl til að ræða við þá um þessa stöðu og hvernig ætti að nýta 4.000 millj. kr. ef þær verða teknar að láni. Ég er alveg sannfærður um það að hæstv. sjútvrh. á sér fáa skoðanabræður í því að rétt sé að beita slíkum peningum til að draga einhliða saman í sjávarútvegi á Íslandi.