Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:44:13 (4390)


[16:44]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hringlandahátturinn í málflutningi hv. 4. þm. Norðurl. e. er varla svaraverður, en vegna ræðu hans vil ég minna á að í upphafsræðu minni tók ég mjög skýrt fram um allar tölulegar staðreyndir varðandi stofnun þessa sjóðs og þurfti ekki mikið til fyrir þá sem hlustuðu að draga af því þá ályktun að umfang efnahagsreikningsins yrði einhvers staðar á bilinu 7--8 milljarðar kr.
    Ég vil líka minna á að í upphafsræðu minni í þessari umræðu tók ég það mjög skýrt fram að íslensk fiskiskip hafa verið að sækja á úthafsmiðin og ég svaraði áhyggjum þeirra sem hafa talað um það að menn hafi ekki tekið nægjanlega mikið af skipum úr umferð einmitt á þann veg að íslenskir útgerðarmenn hafa nýtt aðstæðurnar og sótt út á við, til að mynda í úthafskarfann og þar höfum við stóraukið okkar hlutdeild.
    Það er kjarni þessa máls og óþarfi að setja á langar ræður um þetta. Aðalatriðið er það að sjávarútvegurinn hefur þrátt fyrir örðugleika verið að sækja fram, verið að sækja í nýja stofna, verið að sækja út á við. Sjávarútvegurinn er í mikilli vöruþróun, er að stíga stór skref fram á við í bættri nýtingu og meðferð afurðanna. En það mætti hins vegar halda af þeim ræðum sem hv. 4. þm. Norðurl. e. heldur hér að það sé allt í niðurníðslu og ekkert geti gerst í þessari atvinnugrein af því að hann getur ekki brotið niður það stjórnkerfi sem sjávarútvegurinn býr við. Þvert á móti. Við þetta stjórnkerfi og við þá erfiðleika sem sjávarútvegurinn hefur búið hefur hann verið að sækja fram. Og það er ánægjulegt til þess að vita að hv. þm. hefur komið auga á nokkrar staðreyndir þar um í ferð sinni með sjútvn. út um landsbyggðina.