Stöðvun verkfalls fiskimanna

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 17:08:36 (4397)


[17:08]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Það gafst ekki langur tími í upphafi þessarar umræðu til að fara orðum um þetta

frv. en ég hafði þó tekið fram tvennt varðandi það. Það er annars vegar andstaða okkar kvennalistakvenna við setningu bráðabirgðalaga sem við teljum að sé bæði forkastanleg, gefi tækifæri til valdníðslu þegar heimild er beitt t.d. eins og í þessu dæmi og þar að auki gjörsamlega óþörf. Þessi heimild er óþörf og hana ber að nema úr gildi og þar af leiðandi höfum við kvennalistakonur flutt frv. þar sem við leggjum til að þessi heimild verði numin úr gildi og færum fyrir því rök sem ég gerði grein fyrir í upphafi máls míns.
    Annað sem ég hafði einnig getið um er að stjórnir, ekki einungis þessi stjórn sem nú situr heldur ríkisstjórnir á undanförnum árum, hafa beitt því valdi mjög ótæpilega að setja lög, bráðabirgðalög og önnur lög, bæði á kjaradeilur og kjarasamninga. Þetta er að sjálfsögðu óviðunandi og grefur undan lýðræði í landinu sem byggir m.a. á frelsi stéttarfélaga til frjálsra samninga. Það er ekki tilviljun að Íslendingar hafa þráfaldlega fengið áminningar varðandi þetta mál frá Alþjóðavinnumálastofnuninni og sérfræðinganefndum þeim sem sjá um að efni félagsmálasáttmála Evrópu sé framfylgt hér á landi. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessi efnisatriði en mér finnst nauðsynlegt hér að taka þetta sérstaklega fyrir.
    Varðandi efni þessa frv. þá er það mjög sérkennilegt að 1. gr. er í rauninni algjörlega í lausu lofti nú þegar þar sem nefnd sú sem átti að skila tillögum eigi síðar en 1. febr. hefur þegar lokið störfum og það er alveg ljóst að það er mikil andstaða við tillögur þessarar nefndar. Ég sé í rauninni ekki nokkurn tilgang í að samþykkja lög um úrlausn sem þegar hefur verið sýnt að muni ekki verða raunveruleg. Það er ekkert út á vinnubrögð nefndarinnar að setja. Hún skilaði af sér og vel tímanlega. Hitt er annað að viðtökurnar sem tillögurnar hafa fengið gefa ekki tilefni til að ætla að nokkuð verði gert með þær og þar af leiðandi er 1. gr. algjörlega út í hött.
    Allmargir stuðningsmenn eða alla vega meintir stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar hafa lýst efasemdum eða jafnvel fullri andstöðu við kvótaþingið sem er kjarni tillagna þríhöfða nefndarinnar sem sett var á laggirnar skv. 1. gr. Þar vil ég m.a. nefna Vilhjálm Egilsson sem er í sjútvn. og annar af formönnum tvíhöfða nefndarinnar. Hann hefur lýst sig fullkomlega mótfallinn kvótaþingi. Það hefur líka einn þingmanna Sjálfstfl. á Norðurl. e. gert, Tómas Ingi Olrich og hann gaf þessum hugmyndum þá einkunn að þarna væri hætta á að menn gætu lent í klónum á uppboðshöldurum og fengju ekki borgað. Þetta var hans mat á þeim vandamálum sem upp gætu komið ef þetta kvótaþing yrði sett á laggirnar. Ég sé út af fyrir sig ekki að það séu nein efni til þess að samþykkja þessi lög þar sem ljóst er að það sem var efnislega framlag ríkisstjórnarinnar og það eina sem hún ætlaði að leggja til eftir að hún stoppaði þetta löglega verkfall, það er orðið meira og minna í uppnámi og sjómannasamtökin setja mjög ströng skilyrði, sem mér sýnist ekki að sé nokkur vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar að uppfylla, fyrir því að líta á þessar hugmyndir. Það er í rauninni hvorki haus né sporður á því sem þarna er lagt til og því sem á að koma út úr þessu. Ég get ekki séð fyrir mér framhald málsins verði þessi lög látin standa og ég held að menn séu að fresta vandanum þar til þetta mál kemur aftur upp á borðið því að það mun gera það og kaupa sér gervifrið sem engum er í rauninni til gagns. Ég er alveg sannfærð um að sjómenn munu meta þá stöðu sem nú er ef þeir standa frammi fyrir því að þessi lög verði ekki staðfest. Og ég þarf ekki að rekja það fyrir neinum hér að þessi lög voru sett á afskaplega hæpnum forsendum og svo sannarlega ekki efni til þess að ætla að þau hafi notið meirihlutastuðnings hér á Alþingi þegar þau voru sett. Aðferðirnar voru forkastanlegar og þetta var bæði óþarft og ólýðræðislegt.
    Það kom fram á fundum hjá sjútvn. að sennilega hafa þessi bráðabirgðalög og sú ætlun margra að þau yrðu sett spillt mjög fyrir því og tafið að nauðsynleg lausn næðist á þessum málum. Ég held að það séu allir sannfærðir um að það var hægt að reyna betur og reyna til þrautar að ná saman um nefndaskipan til þess að ganga frá og leysa úr ágreiningsmálum. Við fulltrúar í sjútvn. leituðum eftir skoðunum beggja deiluaðila á því hvort þeir teldu að það hefði verið hægt að ná niðurstöðu. Það er skemmst frá því að segja að menn töldu almennt að þetta hefði verið afleit leið, að setja bráðabirgðalög á þessa vinnudeilu og þetta verkfall og að það séu leiðir til sem hefði þurft að kanna betur. Þannig að í rauninni hefur ríkisstjórnin með þessum hætti verið að spilla fyrir því og kannski að gera það sársaukafyllra að finna lausn í þessari erfiðu deilu.
    Menn hafa mikið rætt um þá yfirlýsingu sem hefur verið vilji til að taka jafnvel inn í lagatexta --- það var einn af stjórnarþingmönnum í sjútvn. sem hafði áhuga á því að sú yfirlýsing færi inn í lagatextann --- en þessi yfirlýsing tekur einmitt af öll tvímæli um það að sjómönnum er ekki ætlað að taka þátt í kvótakaupum. Það hefði verið afskaplega gott ef það hefði verið hægt að ná samkomulagi í kringum þessa yfirlýsingu í stað þess að fara út í leið sem mér sýnist að sé dæmd til að mistakast.
    Þar af leiðandi er það ekki bara vegna aðferðarinnar sem beitt var sem ég er fullkomlega andvíg þessari lagasetningu og staðfestingu bráðabirgðalaganna, heldur sýnist mér líka að efnislega séu þessi vinnubrögð mjög ámælisverð og ekki til þess fallin að leiða yfir okkur neina sátt í þessum erfiðu málum. Ég held líka að við séum að gera hlutina erfiðari heldur en þeir ella væru og ég held að þetta gefi því miður ekki það ráðrúm til að hugsa málin sem e.t.v. mætti með góðum vilja líta á að væri verið að gefa, heldur þvert á móti setji þetta málið í enn annan hnút þar sem nú er nýr þáttur kominn inn en það eru þessar hugmyndir um kvótaþing.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara neitt nánar út í þetta. Okkar megingagnrýni kom fram í fyrri hluta ræðu minnar en það er á þetta grundvallaratriði að setja ekki bráðabirgðalög vegna þess að þess gerist ekki þörf, að framkvæmdarvaldið misbeiti ekki sínu valdi sem það enn hefur því miður og að ríkisstjórnir eiga

ekki á nokkrum tímum að grípa með þessum hætti inn í kjaradeilur.