Búvörulagafrumvarp o.fl.

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 13:40:22 (4400)

[13:40]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er kannski vandséð hvort þessi fyrirspurn er beinlínis um störf þingsins. Ég held að hún sé um störf framkvæmdarvaldsins, en það er sjálfsagt að svara spurningu hv. þm.
    Sérfræðingar utanrrn. í milliríkjasamningum sem og viðskrn. hafa ævinlega verið reiðubúnir og lýst sig reiðubúna til að koma til fundar við hina þrjá virtu lögfræðinga sem mér skilst að séu í þjónustu formanns landbn. Eftir því var ekki óskað heldur var óskað eftir því að þeir kæmu á fundinn einungis til þess að undir þá yrðu borin tæknileg atriði. Því verki var lokið. Allir þessir sérfræðingar höfðu verið með lögfræðingunum og skýrt fyrir þeim hver munur væri á verðjöfnunargjöldum og tollum í GATT-kerfi þannig að því verki var lokið.
    Mér skilst, án þess að ég hafi um það óyggjandi upplýsingar, að lögfræðingarnir hafi svarað því til að þetta stæði ekki til. Þeir væru verktakar í þjónustu formanns landbn. og þeirra verkefni væri að semja frv. að hans fyrirsögn og þegar það var upplýst var vandséð hvaða erindi sérfræðingar utanrrn. ættu á slíkan fund. En ég endurtek: Það stóð til boða og stendur enn til boða að þeir ræði við lögfræðingana á réttum forsendum.