Búvörulagafrumvarp o.fl.

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 13:44:43 (4403)


[13:44]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það voru afar athyglisverðar yfirlýsingar sem hæstv. utanrrh. gaf hér áðan og segja mikið um samkomulagið eða réttara sagt ósamkomulagið á stjórnarheimilinu. Ég vil taka það skýrt fram að mitt mál áðan beindist að störfum þingsins því að það er ekki starfandi í nefndum þingsins öðruvísi en við vitum á hvaða forsendum er verið að vinna. Hæstv. utanrrh. lýsti því yfir áðan að þær breytingartillögur sem hafa verið unnar af lögfræðingahópnum væru ekki á nokkurn hátt á ábyrgð Alþfl. Ég gat ekki skilið hans yfirlýsingu öðruvísi en svo. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir áframhaldandi vinnu að málinu, og ég hlýt að ganga eftir því við hæstv. utanrrh., að fá að vita hvað hafi átt sér stað í samningaumleitunum milli stjórnarflokkanna í þessu máli og hvaða samkomulag sé í gildi milli stjórnarflokkanna í dag varðandi frágang og vinnu á því frv. til breytinga á búvörulögum sem nú liggur fyrir þinginu. Það er afar nauðsynlegt fyrir okkur sem erum að vinna í nefndinni að við höfum einhverja hugmynd um hver sé hin pólitíska staða málsins milli stjórnarflokkanna, hvort málið liggi e.t.v. þannig fyrir að ríkisstjórnin sé búin að taka þá ákvörðun að láta Alþingi um að skera úr málinu alveg burt séð frá því hvaða skoðanamunur kunni að vera á milli stjórnarflokkanna hvað þetta snertir.
    En ég hlýt að ganga eftir því við hæstv. utanrrh.: Hvaða samkomulag er í gildi varðandi þessi mál milli stjórnarflokkanna núna?