Brunavarnir og brunamál

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 13:54:40 (4406)


[13:54]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Þær breytingar sem þetta frv. felur í sér eru fyrst og fremst þær að félmrh. er heimilt að veita slökkviliðsmönnum löggildingu þegar þeir hafa lokið grunnnámi fyrir slökkviðliðsmenn eða gegnt slökkviliðsstarfi í eitt ár.
    Í frv. er ekkert um hvað slíkt grunnnám á að fela í sér og tel ég það galla á frv. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra eru samningsréttarmál slökkviliðsmanna í ólestri. Það er ábyrgðarhlutur að svo mikilvæg stétt sem slökkviliðsmenn eru séu ekki með fullgildan samningsrétt en þeir hafa verið út úr myndinni varðandi samninganefnd ríkis og sveitarfélaga og launanefnd Reykjavíkurborgar sem hefur ekki viðurkennt rétt Landssambands slökkviliðsmanna til að fara með samningsumboð þar sem talið er að Landssamband slökkviliðsmanna uppfylli ekki kröfur um fagstéttarfélög.
    Hér er gert ráð fyrir að bæta úr því og félmrh. veitir, ef frv. verður að lögum, löggildingu þeirra. En þá vaknar spurning hjá mér um það: Hvað um aðrar stéttir? Koma ekki aðrar stéttir á eftir? Og hvað um lögformlegan rétt almennt og hvernig almennt eigi að öðlast slík réttindi?
    Ég spyr hæstv. félmrh. að því: Hvað um hópa eins og húsverði og skólaritara? Koma þeir ekki í kjölfarið og biðja um slík réttindi? Ég tel það mjög eðlilegt en félmn. mun að sjálfsögðu fjalla um þetta mál. Þetta er út af fyrir sig ekki flókið mál og á ekki að taka langan tíma í vinnslu. En þessar spurningar vakna. Það hljóta að koma fleiri á eftir og vilja fá sjálfstæðan samningsrétt.