Umboðsmaður barna

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 15:27:53 (4416)


[15:27]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Aðeins út af því máli sem hér hefur borið á góma þá hygg ég að ekki sé til nein ein regla um þetta. Ég hef á fyrri árum sem ráðherra tvisvar sinnum flutt stjfrv. um að flytja málaflokka til. Í bæði skiptin var þessum stjfrv. vísað til þeirrar nefndar sem tilheyrði málaflokki ráðherrans sem flutti málið en ekki til þeirrar nefndar sem tilheyrði málaflokki ráðherrans sem fékk málið. Samkvæmt þeirri venju ættu menn, ef menn geta talað þar um venju, að vísa þessu máli nú til félmn. af því að ráðherra félagsmála flytur frv.
    Þau mál sem ég er hér að tala um, hæstv. forseti, til glöggvunar er annars vegar frv. til laga um mannanöfn, sem ég flutti sem menntmrh. og var vísað til menntmn. þó svo að málaflokkurinn væri með frv. fluttur til dómsmrh. Hitt var frv. til laga um að flytja forræði barnaverndarmála frá menntmrn. til félmrn. Það var frv. sem var flutt í minni tíð. Því var í efri deild vísað til menntmn. til að byrja með þó menn væru að flytja málaflokkin til félmrh.
    Hins vegar man ég eftir því að þetta sama frv. var svo aftur flutt í tíð núv. ríkisstjórnar með þeim hætti að barnaverndarfrv. fór, hygg ég, til meðferðar í félmn. Eða var það allshn.? ( BBj: Félmn.) Félmn. Í rauninni sannar þetta því bara eitt: Það er ekki til nein regla. ( BBj: Það er komin tillaga frá ráðherranum.) Það er komin tillaga frá ráðherranum og ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga. Ég vildi bara upplýsa að eftir því sem ég man í minni þingsögu hygg ég að þessi þrjú dæmi sanni að það sé engin endanleg regla til en menn fari gjarnan eftir því sem ráðherrann leggur til ef það er ekki þeim mun þyngri grundvallaratriði sem vega á móti þeirri tillögu sem ráðherrann gerir.