Umboðsmaður barna

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 15:49:06 (4420)


[15:49]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Forsaga málsins er að nokkru leyti rakin í greinargerð með frv. en það kemur fram á bls. 3 að hugmyndin að þessu embætti hafi fyrst komið fram árið 1978 í greinargerð með þáltill. sem þingmenn Alþfl. fluttu.
    Það kom hins vegar fram í máli hv. 2. þm. Vesturl. að hv. 14. þm. Reykv. hefði flutt frv. um þetta efni fjórum sinnum á fjórum þingum alls. Um það er ekki orð í þessum aðfaraorðum að greinargerð um fyrri lagafrumvarp um umboðsmann barna. Þess er ekki getið í einu orði að hv. 14. þm. Reykv. hafi flutt þetta mál fjórum sinnum.
    Hæstv. félmrh. mistekst gersamlega að gera grein fyrir sögulegum staðreyndum í þessu máli öðrum en þeim að nefna Alþfl. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé kannski vegna þess að það skipti máli af hálfu hæstv. félmrh. hver flytji málið en ekki hvert málið er.
    Ég nefni nú þetta af því að mér sýnist á þessum texta sem hér er settur fram að hann sé nokkuð gallaður af því að hann segir ekki nema hálfa söguna. Fyrst á annað borð er verið að draga upp stjórnmálaflokka og hlut þeirra í málatilbúnaði þá finnst mér að menn ættu að segja söguna alla. T.d. það að þetta frv. hafi verið flutt á 115. þingi en ekki fengist afgreitt. Stjórnarmeirihlutinn fékkst ekki til þess að afgreiða málið. Hins vegar hefur það snúist svo við að nú er málið flutt af stjórnarliðinu. Hvers vegna var ekki hægt að afgreiða málið fyrir tveimur árum? Það er auðvitað spurning sem þeir sem flytja málið verða að svara.
    Ræðumenn sem hér hafa talað lögðu áherslu á að málið sé brýnt og þá er eðlilegt að menn velti

því fyrir sér fyrst málið er svo brýnt og allir um það sammála og það er löngu fram komið hvers vegna það var ekki samþykkt á sínum tíma.
    Ég vil að menn njóti sannmælis í störfum sínum og ég tel að hv. 14. þm. Reykv. eigi það alveg inni eins og þingmenn Alþfl. árið 1978 að njóta sannmælis í sínum verkum. En ég ætla ekki að gera þá kröfu til hæstv. félmrh. að hann láti það koma fram en þykir engu að síður rétt að nefna þetta, hnykkja á því úr því að það bar hér á góma.
    Um málið er margt að segja. Það er það fyrsta að þegar menn áforma að stofnsetja nýtt embætti hjá ríkinu þá þurfa menn auðvitað að finna því hlutverk og stað. Sérstaklega hlutverk og stað í stjórnsýslu ríkisins. Ég tek undir þær spurningar sem fram hafa komið hjá hv. 3. þm. Reykv. einmitt um stöðu þessa fyrirhugaða embættis í stjórnsýslukerfinu. Ég spyr: Hvernig á staða þessa nýja embættis umboðsmanns barna að vera gagnvart umboðsmanni Alþingis? En hlutverk umboðsmanns Alþingis er eins og kunnugt er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Geta menn þá skotið málum eða ákvörðunum umboðsmanns barna til umboðsmanns Alþingis? Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér til að fá það á hreint hver skilin eiga að vera þarna á milli og hvar staðsetning þessa nýja embættis á að vera í stjórnsýslukerfinu. Ég held að það skipti miklu máli að það sé vel afmarkað þannig að ekki valdi misskilningi síðar meir sem gæti auðvitað hindrað framgang mála ef hlutverk er ekki skýrt. Hitt vil ég nefna að mér finnst heitið að sumu leyti óheppilegt vegna þess að það vísar til annarrar stofnunar sem fyrir er og heitir Umboðsmaður Alþingis en hefur ekki sama hlutverk. Það kemur auðvitað að mínu mati til álita að umboðsmaður Alþingis yfirtaki verkefnið. Ég sé í raun og veru ekkert því til fyrirstöðu að hann yfirtaki að einhverju leyti þetta verkefni. En vilji menn hafa tvær stofnanir um þetta með að nokkru leyti eða verulegu leyti ólíku hlutverki þá er ég ekki viss um að það sé heppilegt að hafa sama nafnið. Þessu geta menn nú velt fyrir sér í nefnd.
    Í öðru lagi vil ég nefna 2. gr. frv. en þar er sett í fyrsta lagi ákvæði um það í 1. mgr. að skipa eigi í embættið til fimm ára í senn. Ég vil fagna þessu ákvæði. Ég tel þetta framfararspor að skipun í embætti af þessu tagi sé háð tímatakmörkunum. Í greinargerð með frv. kemur reyndar fram að af hálfu þeirra sem það flytja er ekki gert ráð fyrir að sami aðili eða sami maður sinni embættinu lengur en tíu ár í senn.
    Ég vil nefna frv. sem hafa verið lögð fram á yfirstandandi þingi af hálfu þingmanna Alþb. og lúta einmitt að því gagnvart öðrum embættum, eins og t.d. ríkissaksóknara, að hafa það tímabundna ráðningu. Ég lít svo á að með þeirri tillögu sem kemur fram í stjfrv. sé ríkisstjórnin að taka undir tillögur okkar alþýðubandalagsmanna. Það ætti auðvitað að greiða fyrir afgreiðslu þeirra frv. að þau liggja einmitt í þeirri sömu nefnd og lagt er til að þetta frv. fari til.
    Þá vil ég nefna að í 2. mgr. 2. gr. frv. eru sett hæfnisskilyrði á umboðsmann barna. Hæfnisskilyrðin eru tvö. Annað að hann hafi lokið háskólaprófi og hitt að hann sé eldri en þrjátíu ára.
    Ég vil setja nokkur spurningarmerki fyrir aftan þessi hæfnisskilyrði. Er það endilega svo að sá sem þessu verki á að halda næstu árin ef af verður eigi að veljast eingöngu úr hópi þeirra sem lokið hafa háskólaprófi? Hér eru menn að ræða í þjóðfélaginu um skipan manna í háar stöður í þjóðfélaginu eins og t.d. Seðlabankann, bankastjóra Seðlabankans, án þess að gera neinar kröfur um hæfni eða menntun. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að gera tillögu um að þó ekki væri nema að seðlabankastjóri skuli hafa háskólapróf. Mér finnst það orka tvímælis svo ekki sé meira sagt að setja þetta skilyrði um menntun. Eða öllu heldur ekki menntun heldur lærdóm því ekki er nú allur lærdómur menntun. Það er tvennt ólíkt lærdómur og menntun. Þannig að ég set í mínum huga spurningarmerki og hef efasemdir um að það eigi að hafa skilyrði um háskólapróf í þessu frv. Ég vil a.m.k. fá mun betri rökstuðning fyrir því heldur en kemur fram í frv.
    Þá spyr ég hæstv. félmrh.: Hvar á þetta embætti að vera? Það kemur hvergi fram í þessu frv. Það kemur fram í greinargerð frá fjmrn. að gert er ráð fyrir að þetta embætti muni kosta um 10 millj. kr. á ári til að byrja með og vera samtals tvö stöðugildi. Mjór er mikils vísir enda segir í niðurlagi greinargerðar fjmrn. að búist verði við því að umfang starfseminnar aukist eftir því sem líði á. Þannig að það munar nokkuð um það hvar þessi stofnun verður sett niður. Nú er umhvrh. nokkuð duglegur við að gefa a.m.k. út í fjölmiðlum yfirlýsingar um flutning ríkisstofnana út á land. Þannig að nú vildi ég spyrja hv. félmrh. hvar hann leggi til að stofnuninni verði valinn staður.
    Þá vil ég taka undir efasemdir, sem fram komu áðan í máli síðasta ræðumanns, um að gildissvið frv. nái allt upp til 18 ára aldurs. Ég hygg að þetta sé atriði sem menn þurfi að gæta að og athuga sérsaklega í nefndarstarfi hvar gildissviðið á að enda hvað þetta varðar því það er ekki að mínu viti sjálfgert að fara upp fyrir 16 ára aldur varðandi þetta frv.
    Að lokum vil ég nefna það sem mér finnst að sumu leyti vera ástæðan fyrir því að menn telja nauðsynlegt að stofnasetja nýjar ríkisstofnanir til að hafa eftirlit með framkvæmd mála eða tryggja tiltekna framkvæmd, þ.e. framkvæmdarvaldið í heild sinni. Mér finnst að einmitt krafa um embætti af þessu tagi segi okkur í raun og veru að menn séu ekkert allt of ánægðir með framkvæmdarvaldið sem slíkt og hvernig það stendur sig í sínum verkum. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur hversu vel framkvæmdarvaldið stendur sig í sínu verki. Það kemur fram í greinargerðinni, svo ég nefni nú bara sem dæmi, að umboðsmanni barna er ætlað að fylgjast t.d. með kvikmyndum og segir í greinargerðinni að ef umboðsmaður barna fær vitneskju um ólöglega sölu, dreifingu eða sýningu á ofbeldiskvikmyndum þá á hann að beina tilmælum um það til þess sem talinn er brotlegur en jafnframt vekja athygli þar til bærra yfirvalda á málinu. Það kemur fram að það eru barnaverndarnefndir sem hafa þetta mál til meðferðar þannig að við erum að setja nýjan aðila í verk sem öðrum er þegar falið. Það er ekki nema vegna þess að menn telja þörf á því. Það segir okkur þá að annaðhvort búum við þeim aðila ekki þau skilyrði að hann geti sinnt sínu hlutverki nægilega vel eða að af öðrum ástæðum sinni hann því ekki fullnægjandi. Mér finnst að atriði af þessu tagi ættu einmitt að vera okkur hvatning til að hugleiða hvort ýmsar stofnanir og ráðuneyti frá framkvæmdarvaldinu standi sig nægilega vel í sínum verkum.
    Það má nefna sem dæmi af því að hæstv. félmrh. flytur þetta mál að í sveitarstjórnarlögunum er félmrn. falin framkvæmd og eftirlit með þeim lögum. Það er að mínu mati verulegur misbrestur á því að ráðuneytið standi sig hvað þetta varðar. Sem veldur því að athugasemdir eru gerðar m.a. frá umboðsmanni Alþingis og verður ekki vart við að hæstv. félmrh. taki mark á þeim athugasemdum. Ég hygg því að menn ættu í framhaldi af þessu máli að setjast niður og velta fyrir sér hvernig til hefur tekist með löggjöf á framkvæmdarvaldinu og hvernig það stendur sig í þeim verkum sem því eru falin. Ég hygg að þar sé víðar pottur brotinn en á þessu sviði sem lýtur að málefnum barna.