Ríkisreikningur 1992

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 10:56:57 (4425)


[10:56]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1992 var lagt fram snemma vetrar og umræða hófst fyrir jól og er hægt að taka undir að það er miður að það skuli hafa þurft að slíta umræðuna svo í sundur sem raun ber vitni. Frv. er flutt í kjölfar endurskoðunar á ríkisreikningnum sem fram fer af hálfu Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum um starfsemi þeirrar stofnunar og endurskoðun yfirskoðunarmanna ríkisreikninga sem kjörnir eru af Alþingi en skýrsla um þessa endurskoðun ríkisreiknings fyrir 1992 kom út í októbermánuði 1993.
    Ég vil gjarnan geta þess að við yfirskoðunarmenn ríkisreiknings sem erum þrír, hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, Sveinn G. Hálfdánarson í Borgarnesi og sá sem hér stendur. Við lögðum kapp á það að ná því markmiði að skýrsla Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna gæti komið út í upphafi næsta þings eftir reikningsskilaár eins og raun varð á og teljum að með því sé náð nokkrum áfanga sem ekki hefur tekist í mjög mörg ár. Ég tel því að það hafi verið keppikefli af hálfu Alþingis að halda þannig á málum að þessi umræða gæti farið fram sem fyrst í kjölfar þess að skýrslan kemur út þannig að samfella sé í þessum málum.
    Í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings er tekið á ýmsum þeim málum sem varða heildarstöðu ríkisfjármála en ekki farið ofan í smærri atriði. Það er gert í ítarlegu máli í skýrslu Ríkisendurskoðunar og mun ég ekki fara yfir þá skýrslu í þessari umræðu en hún hefur legið frammi eins og áður sagði frá því í októbermánuði sl. Við yfirskoðunarmenn ríkisreiknings viljum hins vegar taka fram að við tökum undir þær ábendingar og ýmsa þá gagnrýni sem þar kemur fram en í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992 er kannski meira en áður farið yfir starfsemi B-hluta stofnana og sjóða í eigu ríkisins því stundum hafa þeir nokkuð legið eftir varðandi þá skýrslugerð sem hér er til umræðu.
    Ég tel hins vegar eðlilegt að ég geri í stórum dráttum grein fyrir skýrslu yfirskoðunarmanna eins og hún liggur fyrir í þessari skýrslu.
    Þessi skýrsla sem hér er til umræðu í tengslum við ríkisreikninginn fyrir árið 1992 er önnur tveggja skýrslna sem Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hafa gefið út á árinu 1993. Í ljósi þess þá tökum við fram að svo skammur tími var á milli þessara tveggja skýrslna um endurskoðun ríkisreiknings fyrir 1991 annars vegar og 1992 hins vegar að ekki þótti tilefni eða tóm til að gera samanburð á því hvernig til hafi tekist með þær athugasemdir sem birtar voru með ríkisreikningi 1991. Hvorki að því er varðar gagnrýni og aðfinnslur um starfsemi tiltekinna stofnana né ríkisreikningsins í heild og ekki heldur sem við boðuðum með þeim athugasemdum að ástæða kynni að vera til þess að draga einnig fram það sem sérstaklega hefði verið vel gert, bæði af hálfu hæstv. fjmrh. og fjmrn. og eins af hálfu einstakra stofnana. Þessi samanburður liggur eftir í þeirri skýrslu sem við skiluðum í október sl. en áætlun okkar er sú, af því að yfirskoðunarmenn hafa verið kjörnir aftur þeir sömu, að freista þess að gera einhverja grein fyrir því í skýrslu með endurskoðun ríkisreiknings fyrir 1993. Ég tel ástæðu til þess að láta þessa skýringu koma fram en hún er þessi eins og áður sagði um þennan skamma tíma á milli tveggja skýrslna.
    Yfirskoðunarmenn lögðu mikla vinnu í sitt starf og kynntu sér ríkisreikninginn og leituðust við að bera saman fjárheimildir sem Alþingi hefur veitt, bæði í fjárlögum og fjáraukalögum. Reikningurinn var yfirfarinn með starfsmönnum Ríkisendurskoðunar. Yfirskoðunarmenn spurðu fjölmargra spurninga og fengu svör við þeim nær öllum eða öllum, í ýmsum tilvikum þykkar bækur og skýrslur sem er gríðarlega mikið verk að fara ofan í saumana á í öllum atriðum.
    Ég held að það blandist engum hugur um að þegar litið er yfir ríkisreikninginn fyrir tiltekið ár, í þessu tilviki 1992, þá er það fjárhagsafkoma ríkissjóðs í heild sem auðvitað skiptir mestu máli og er það sem upp úr stendur. Það kemur fram í þessum greinargerðum, og kemur fram í frv. hæstv. ríkisstjórnar sem hér liggur fyrir til umræðu, að rekstrarhalli ársins varð um 10,6 milljarðar kr. en er þó minni en var á árinu 1991. Hitt vekur kannski meiri athygli að efnahagsstaða ríkissjóðs fer auðvitað versnandi með hallarekstri þannig ár frá ári og er alvarlegt ef svo á að ganga áfram. Við vitum hins vegar um skýringar á þessum efnum, við vitum líka um það að hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til margvíslegra aðgerða til þess að draga úr þessum halla og draga úr þessari skuldamyndun og hefur orðið verulega ágengt á ýmsum sviðum þótt efnahagsaðstæðurnar að öðru leyti í þjóðfélaginu hafi leitt til þess að árangur hafi ekki náðst til fulls þannig að tekist hafi að jafna þennan mismun.
    Heildarskuldir A-hluta ríkissjóðs að meðtöldum skuldbindingum vegna lífeyrisréttinda námu í árslok 1992 236,6 milljörðum kr. og höfðu skuldir A-hluta ríkissjóðs aukist um 12% frá ársbyrjun 1991. Á sama tíma jók A-hluti ríkissjóðs peningalegar eignir sínar um 8,7% frá ársbyrjun þannig að heildarniðurstaðan er sú að ríkissjóður jók peningalegar skuldir sínar umfram eignir um 18,5 milljarða á árinu 1992 eða svo til sömu fjárhæð eins og var á árinu 1991.
    Hér var af hv. 6. þm. Vestf. drepið á sérstöðu fjárlaganna fyrir árið 1992. Við gerum grein fyrir því í okkar skýrslu að þau fjárlög voru nokkuð sérstök, í fyrsta lagi vegna þess að við afgreiðslu þeirra var gert ráð fyrir að einstakir ráðherrar dreifðu hluta af svokölluðum flötum niðurskurði sem var um 5% aftur til hlutaðeigandi stofnana. Þetta var gert þannig að stofnanir fengu mjög mismunandi mikið af þessari endurgreiðslu í sinn hlut og ekki er unnt að sjá að neinar reglur hafi gilt um þá ráðstöfun fjármuna af hálfu handhafa framkvæmdarvaldsins og beinlínis ekki til þess ætlast við afgreiðslu fjárlaga en því vekjum við athygli á þessu að þetta torveldar mjög allan samanburð á fjárheimildum einstakra stofnana og einstakra fjárlagaliða og svo aftur á móti niðurstöðunni eins og hún varð.
    Við teljum því að þessari aðferð Alþingis við afgreiðslu fjárlaga fylgi vankantar. Nú er það auðvitað ekki hlutverk yfirskoðunarmanna að gagnrýna Alþingi fyrir gerð fjárlaga en við hljótum að benda á að þetta torveldar allt eftirlitsstarf og endurskoðunarstarf fyrir einstakar stofnanir.
    Á sama hátt bendum við á að svokallaðir safnliðir sem lengi hafa tíðkast hafa orðið nokkuð fyrirferðarmeiri í fjárlögum á síðari árum en áður tíðkaðist og að ekki hafa verið mótaðar reglur um ráðstöfun safnliða þannig að því fylgir gjarna að fé sem veitt er á safnliði fjárlaga er ráðstafað til margvíslegra hluta af hálfu þeirra sem með framkvæmdarvaldið fara af hálfu einstakra ráðuneyta og ráðherra og hreyfist þannig á milli mjög margra fjárlagaliða. Hluti af safnliðunum er svokallað ráðstöfunarfé ráðherra og má segja að það sé kannski sá þáttur þessara safnliða sem hæstv. ráðherra hafa til hvað frjálsastrar ráðstöfunar. Þó var í raun ætlast til þess þegar sá háttur var tekinn upp að veita á fjárlögum slíka liði til ráðstöfunar fyrir einstaka ráðherra að það gengi til þess að mæta óvæntum útgjaldatilefnum í þeim ráðuneytum, t.d. þegar tiltekin verk færu fram úr áætlun, eitthvað óvænt bæri við sem þyrfti fé til að greiða fyrir og yrði þannig til þess að draga úr þörf fyrir aukafjárveitingar sem í langan tíma höfðu tíðkast.
    Þetta hefur tekist, það hefur dregið úr þörf fyrir aukafjárveitingar enda þótt þurft hafi að leita til Alþingis um nýjar heimildir til útgjaldaauka eins og kunnugt er með fjáraukalagafrumvörpum.
    En ég vil geta þess að að verulegu leyti vegna þessara safnliða allra þá eru til þau ráðuneyti sem hafa fært á milli einstakra fjárlagaliða færslur sem jafnvel nema á annað hundrað talsins. Þessi háttur hlýtur vitaskuld eins og allir sjá að auka mjög vinnuálag þeirra sem þurfa að endurskoða og yfirfara allar slíkar fjárheimildir og niðurstöður þeirra mörgu fjárlagaliða sem fært er til.
    Þessi háttur í ráðstöfun fjármuna á milli einstakra fjárlagaliða hefur því aukið starf okkar yfirskoðunarmanna og einnig að mjög verulegu leyti starf þeirra sem vinna þetta verk í Ríkisendurskoðun sem einnig starfar af hálfu Alþingis.
    Þetta haggar ekki því að það er skoðun okkar yfirskoðunarmanna að safnliðir séu nauðsynlegir að einhverju marki en við teljum að það sé umhugsunarefni fyrir Alþingi hvort ekki sé tímabært að setja þessum safnliðum einhver mörk og einhverjar þær reglur sem a.m.k. takmarka þá miklu dreifingu sem er á þeim til hinna fjölmörgu fjárlagaliða eins og ég hef getið um sem jafnvel eru uppi í hundrað talsins í einstökum ráðuneytum.
    Í skýrslu yfirskoðunarmanna er gerð grein fyrir því að rekstur t.d. heilsugæslustöðva er með þrenns konar hætti. Í kjölfar breytinga á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga stendur ríkissjóður nú að fullu undir kostnaði við rekstur sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Í ljósi þessa er að okkar dómi tímabært að skoða hvort ekki sé eðlilegt að athuga hvaða rekstrarform henti heilsugæslustöðvum. Á árinu 1992 var rekstur þeirra með eftirfarandi þrennum hætti:
    1. Þær eru reknar með hefðbundnum hætti, sem kallað er hér, sem sérstakar ríkisstofnanir óháðar öðrum sjúkrastofnunum. Flestar stöðvanna fylla þennan flokk.
    2. Nokkrar stöðvar eru reknar með öðrum sjúkrastofnunum eða í samstarfi við aðrar sjúkrastofnanir og erfitt að greina reikningsskil á milli þeirra stofnana.

    3. Ein heilsugæslustöð er rekin af hlutafélagi í eigu lækna.
    Í tilefni þessa teljum við ástæðu til að skoða hvaða rekstrarform af þessum þremur muni henta þessari þýðingarmiklu starfsemi best og hvort ekki sé ástæða til þess að leitast við að samræma það að undangenginni slíkri rannsókn.
    Nokkur umræða hefur orðið um lífeyrissjóðamál og þær miklu skuldbindingar sem hvíla á lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Lífeyrissjóðaskuldbindingar ríkissjóðs eru tilgreindar í skýrslu yfirskoðunarmanna en í árslok 1992 námu þær alls 57,8 milljörðum kr., höfðu hækkað um 2,8 milljarða á árinu. Að sjálfsögðu eru slíkar tölur þess efnis sem fela í sér skuldbindingar fyrir framtíðina að þær verður að taka með þeirri varúð að þær geta breyst í ljósi þess að ávöxtunarkjör eru breytanleg og ekki hægt með neinni vissu að ráða í aldur þess fólks sem þarna á réttindi þannig að slíkar áætlanir um þær skuldbindingar sem á ríkissjóði hvíla verða seint óyggjandi. Á hinn bóginn er rétt að gera sér grein fyrir því að þarna hvíla á ríkissjóði gríðarlegar skuldbindingar sem bregðast þarf við eftir því sem kostur er í sambandi við langtímaáætlanir um fjármögnun.
    Ég vil aðeins geta um þann þátt í skýrslu yfirskoðunarmanna sem lýtur að launakerfi opinberra starfsmanna. Það er skoðun okkar yfirskoðunarmanna að það hafi komið æ betur í ljós að launakerfi ríkisins sé komið kannski nærri því að fótum fram. Það byggist á því að verulegu leyti að alls konar aukagreiðslur og fríðindi séu greidd einstökum starfsmönnum og þessar aukagreiðslur og fríðindi hvers konar eru því meiri sem ofar dregur í launastiganum. Þessi fríðindi eru m.a. óunnin yfirvinna, bifreiðahlunnindi, húsnæðisfríðindi, risna, greiðslur fyrir aukastörf, ferðakostnaðarhlunnindi, nefndarlaun og stjórnarlaun. Ég tel ástæðu til þess að draga þetta fram vegna þess að það hefur tíðkast í mjög langan tíma hér á landi við kjarasamninga að halda launakjörum, hinum beinu launakjörum sem mest niðri en fara síðan í kringum kjarasamninga með hvers konar slíkum fríðindum sem betur færi að væri tekið á í kjarasamningunum sjálfum og hvað ríkisstarfsmenn snertir í launakerfi ríkisstarfsmanna sjálfra, hinu opinbera launakerfi ríkisstarfsmanna sjálfra, og væri ekki haft í því horfi sem allir vita að þessi fríðindi, sem eru með margvíslegu móti og eru mismunandi á milli einstakra starfsmanna, væru í jafnmiklum mæli og nú tíðkast. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að fara hér yfir nokkur fleiri atriði en virði vitaskuld að tíma mínum er lokið og ég mun e.t.v. koma því að í annarri ræðu hér á eftir.