Ríkisreikningur 1992

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 11:51:23 (4429)


[11:51]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Það er vissulega svo að það er erfiðara þegar umræðan slitnar í sundur eins og gerðist en ég held að það hafi ekki komið að sök í þeim umræðum sem hafa farið hér fram við 1. umr. málsins.
    Ég ætla að reyna að sneiða hjá því að ræða sérstaklega um skiptar skoðanir varðandi framsetningu á ríkisreikningi, fjáraukalögum og fjárlögum. Það er von mín að menn verði sæmilega ásáttir um þá niðurstöðu sem menn hafa verið að nálgast. Ég vil þó taka fram að það er í þessu máli eins og mörgum öðrum þannig að við getum ekki gert ráð fyrir að leysa mál í eitt skipti fyrir öll. Slík mál eins og uppgjörsmál almennt hljóta að verða til sífelldrar endurskoðunar en ég leyfi mér hér að hvetja hv. nefnd til þess að ganga frá gömlu frumvörpunum sem liggja nú þegar í nefndinni og freista þess að fá afgreiðslu bæði á ríkisreikningi og fjáraukalögum fyrri ára því ég er sammála því sem hér hefur komið fram í umræðunum, held ég hjá öllum ræðumönnum, hve mikilvægt það er að hægt sé að ljúka umræðu og fá niðurstöðu í þær niðurstöður sem liggja fyrir frá fyrra ári um yfirlit ríkisfjármálanna. Það er mjög til fyrirmyndar að Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreiknings hafa nú skilað sínu áliti, ábendingum og niðurstöðum ári síðar en við á það ár sem verið er að fara yfir. Þannig gerðist það í október á sl. ári að endurskoðun ríkisreiknings lá fyrir vegna ársins 1992. Til þess að geta haldið þessum sið þarf þingið auðvitað, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. lagði áherslu á, að vinna sitt verk og koma því frá sér. Það er ekkert stórmál fyrir þann sem hér stendur hvernig það er gert en aðalatriðið er að fá afgreiðslu málsins því í raun og veru er ekki verið að deila um efnisatriðin, það er ekki verið að deila um það hve miklir fjármunir voru notaðir heldur hvernig það eigi að setja fram í fjáraukalögum annars vegar og ríkisreikningi hins vegar. Þessi mál hafa verið til umræðu og verða áfram en vonandi hafa þau skýrst mjög mikið eins og hér hefur komið fram í umræðunni.
    Hv. 6. þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, ræddi nokkuð um flatan niðurskurð sem gerður er að umtalsefni af hálfu þeirra yfirskoðunarmanna ríkisreiknings. Það gerðu enn fremur 1. þm. Norðurl. e. og 2. þm. Norðurl. v. Ég held að það sé rétt sem fram hefur komið í umræðunum að það er mjög mikilvægt varðandi þá safnliði sem þarna urðu til og koma til með að verða í framtíðinni að aftur verði gripið til samsvarandi ráðs að þeir séu ,,glærir`` ef ég má þannig að orði komast, að það sé auðvelt að sjá til hvers þeir eru notaðir þannig að eftirlitshlutverk þingsins sé auðveldað með þeim hætti.
    Ég legg áherslu á þetta vegna þess að mér finnst að það þurfi að koma fram t.d. í fjáraukalögum ef menn eru að færa á milli liða sem kann að vera nauðsynlegt. Undir þetta vil ég taka en ég vil jafnframt segja að ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir framkvæmdarvaldshafana á hverjum tíma, þegar þeir eru settir í það verkefni að skera niður, að geta þá haft svigrúm og frelsi og sjálfstæði til þess að færa á milli liða en, eins og ég sagði, það verður að gerast með þeim hætti að eftirlitið sé auðvelt fyrir þingið. Á þetta vil ég leggja áherslu því ég held að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að ná niðurstöðu í þetta mál.
    Ég vil láta það koma fram að ég held að þessi aðgerð á árinu 1992 hafi tekist mjög bærilega og þetta ár sker sig nokkuð úr öðrum fyrri árum hvað það varðar að reksturinn fór ekki úr böndum.
    Þá vil ég aðeins nefna annað sem var mikið áberandi í umræðunni og það eru sértekjurnar. Þannig er að sértekjur dragast frá gjöldum eins og kom fram og það er að sjálfsögðu gert og er ekkert skrýtið miðað við framsetningu fjárlaga hér á landi. Auðvitað má deila um það hvað séu sértekjur og frægar deilur um það eru einmitt þær sem leystar voru með lögum um aukatekjur ríkissjóðs vegna þess að sértekjur mega í raun og veru ekki vera skattur. Sértekjur verða að miðast við það að vera innan við kostnaðinn sem hlýst af þjónustunni sem á við þannig að sé um að ræða gjald sem fer út fyrir kostnaðinn við þjónustuna þá er það skattur og skatt má ekki leggja á nema með lögum. Þetta vil ég taka undir.
    Hins vegar vil ég benda á að það er ekki nóg að ræða um sértekjurnar í þessu sambandi og sýna fram á að þær dragast frá gjöldum og lækka þess vegna gjaldakostnaðinn því hin hliðin á þessu máli er að tekna megin eru frádrættir og afslættir sem dragast frá sköttum og til að sýna fram á hvað þetta mál getur verið stórt var það á árinu 1992 þannig að staðgreiðslan án frádráttar gaf 82 milljarða kr. Þegar hins vegar var búið að draga frá persónuafslátt, sjómannaafslátt, það sem fór til sveitarfélaga og sóknar- og kirkjugarðsgjöld, barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur, þá var hlutur ríkisins eingöngu 12,7 milljarðar.
    Ég held hins vegar að það sé rétt sem kom fram hjá hv. þm. og það sé mikilvægt að umsvif ríkisins, ríkisafskiptin, lýsi sér í brúttótölunni og þess vegna höfum við í fjmrn., reyndar í samstarfi við OECD, verið með það til athugunar hvort ekki sé réttara að sýna bróttótöluna tekna megin og gjalda megin þannig að hin eiginlegu ríkisafskipti sjáist en hverfa frá nettófærslum beggja vegna eins og nú tíðkast. Það sem ég er eingöngu að segja er að það verður þá að horfa á báðar hliðar málsins, tekjuhliðina og gjaldahliðina, og ég gæti giskað á að fjárlög íslenska ríkisins mundu bólgna um u.þ.b. 20% eða svo ef við sýndum þetta með samsvarandi hætti beggja vegna. Reyndar tekna megin, ef við færðum það alveg út, gætu fjárlögin eða afskipti löggjafans verið enn þá meiri brúttó --- það mundi auðvitað gerast beggja megin --- því þá mundu frádráttarliðirnir, afsláttarliðirnir fara yfir á gjaldahliðina. Ef við færum alla leið, eins og ég las hér áður, upp í 82 milljarða þá mundum við líklega tvöfalda ríkisafskiptin en ég tel auðvitað að það eigi t.d. ekki við að setja persónuafsláttinn inn í þetta þó um það megi deila. Um þetta atriði ræddu að sjálfsögðu fleiri hv. þingmenn.
    Varðandi tölvukaupin vil ég segja frá því að þetta er stór liður og hann hefur verið sérstaklega skoðaður og nú liggja fyrir mjög ítarlegar upplýsingar um þennan þátt og handbók fyrir stjórnsýsluna og opinberar stofnanir og fyrirtæki og ég vænti þess að sú handbók komi að góðum notum til þess að ná sparnaði í þessum stóra útgjaldalið sem telur milljarða, bæði stofnkostnaður og rekstrarkostnaður tölvukerfanna. Íslenska stjórnsýslan er mjög vel tæknivædd hvað þetta snertir og það er auðvitað mikilvægt að menn nýti tækin rétt og séu ekki með óþarfa búnað og óþarfa rekstur í tölvum. En ég verð að láta það koma fram að ég tel að íslenska stjórnsýslan sé kannski einna best tæknivædd af þeim sem ég þekki til og

mun tæknivæddari en t.d. sú bandaríska og þær sem ég þekki til annars staðar í Evrópu en á Íslandi.
    Það eru ekki mörg fleiri atriði sem ég kýs að nefna. Ég vil láta það koma fram að ég tel að þær ábendingar sem koma frá yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings eigi að sjálfsögðu að eiga greiða leið til framkvæmdarvaldsins og það eigi að taka tillit til þess sem þar segir. Fjárln. hefur í raun gert það í því formi að samþykkja breytingar á fjárlagafrv. eða með því að láta koma fram í ræðu formanns og meiri hluta áhersluatriði sem hún undirstrikar. Í því sambandi vil ég m.a. segja frá launakostnaði, yfirvinnu, risnu, ferðakostnaði o.s.frv., nefndarlaunum og stjórnarlaunum vegna vinnu sem á sér stað í vinnutíma. Þessi mál eru nú til sérstakrar skoðunar. Ég vara þó við hugtakinu ,,óunnin yfirvinna`` því hún á ekki að vera til. Menn þekkja hins vegar ,,ómælda yfirvinnu`` sem þýðir að ímyndaðri yfirvinnu er dreift á árið og síðan er hún borguð þó hún eigi sér ekki stað nákvæmlega í þeim mánuði sem greiðslan á sér stað. Sé um óunna yfirvinnu að ræða þá ber auðvitað að segja frá því hvar það eigi sér stað og hýrudraga viðkomandi. Hitt er svo annað mál, og menn geta auðvitað haldið því fram, að ýmsir opinberir starfsmenn eins og annað starfsfólk í landinu og í heiminum vinni ekki nægilega vel í sínum vinnutíma sem er auðvitað allt annað vandamál og af allt öðrum toga.
    Það var aðeins rætt í umræðunni hjá hv. þm. Pálma Jónssyni um flokkun á milli A- og B-hluta og nú hefðu yfirskoðunarmenn farið meira yfir B-hluta og sjóði en áður. Ég vil aðeins geta þess að í ríkisreikninganefndinni er einmitt verið að fjalla um þessi atriði og það kann að eiga sér einhverja uppstokkun á milli A- og B-hluta eins og fram hefur komið.
    Virðulegi forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekki fjallað hér um öll þau atriði sem menn hafa rætt í þessari umræðu enda ekki ástæða til ef menn eru sammála. Ég vil eingöngu þakka fyrir hana og vænti þess að hv. nefnd taki frv. til skoðunar og afgreiði það en að sjálfsögðu tel ég rétt að frumvörpin séu afgreidd í réttri tímaröð þannig að fyrst séu afgreidd þau frv. sem eldri eru og liggja enn óafgreidd í nefndinni. Ég vil þó geta þess að sl. vor var komið fram nál. í flestum þessum málum þannig að vinna hafði farið fram um málið en ég tel eðlilegt núna að kvaddir verði til nefndarinnar, ef það hefur ekki þegar verið gert, fulltrúar ráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar til þess að við liggjum ekki enn eitt þingið með þessi mál óafgreidd.