Skráning og mat fasteigna

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 12:36:35 (4436)


[12:36]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þar sem ég hef áður spurst fyrir um hvað liði breytingum um skráningu og mat fasteigna þykir mér rétt að segja nokkur orð við þessa umræðu.
    Ég tel að þær breytingar sem hafa verið gerðar eftir athugasemdir sem fram komu á síðasta þingi séu til bóta. Einnig tel ég 3. gr. til bóta, þ.e. að nú skuli vera skipuð stjórn en ekki að forstjóri eigi einn að ráða innra skipulagi og starfi stofnunarinnar. Ég held að það sé réttara og meiri valddreifing í því að stjórn stýri starfinu og einnig að í henni sitji einn fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem stofnunin hlýtur óhjákvæmilega að hafa mikið samstarf við sveitarfélögin.
    Eitt vildi ég þó spyrja um í þessu sambandi. Það er að fellt verður niður að stofnunin sé A-hluta stofnun. Samkvæmt lögum um stjfrv. á umsögn fjmrn. að liggja fyrir um hvaða áhrif þetta hefur á fjárhag ríkissjóðs en frv. fylgir ekki nein umsögn fjmrn. Því vil ég spyrja hvort ekki sé gert ráð fyrir að með því að fella þetta niður muni stofnunin hugsanlega verða B-hluta stofnun og þar með eiga að fjármagna sig að mestu leyti með eigin tekjum. Það hlýtur þá að þýða að sveitarfélögin, sem mest nota þessa þjónustu, og aðrir greiði hærra verð en greitt er í dag fyrir þjónustuna. Maður getur eiginlega lesið það á milli línanna þó það standi hvergi að þetta muni leiða til talsverðrar hækkunar hjá sveitarfélögunum á þeirri þjónustu sem Fasteignamat ríkisins veitir. Einnig að aðrir aðilar sem hugsanlega þurfa að nota þessa þjónustu þurfi að greiða fyrir hana í meira mæli en verið hefur því að það hafa hingað til ekki verið mjög háar greiðslur fyrir þjónustuna.
    Þetta vildi ég aðallega spyrja um. Einnig er rétt að spyrja um það líka, þar sem hér er verið að ræða um Fasteignamat ríkisins, hvort ekki sé fyrirhugað samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar að flytja stofnanir út á land. M.a. var rætt um að flytja útibú þessarar stofnunar til Vestfjarða en á Vestfjörðum er ekkert útibú frá Fasteignamatinu. Það er í Borgarnesi og á Akureyri en engin þjónusta þessarar ríkisstofnunar er á Vestfjörðum. Það hefur áður verið spurt um það á Alþingi og því verið svarað til að það væri nánast málefni stofnunarinnar sjálfrar.
    Ég vil einnig beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann hyggst í krafti þeirra yfirlýsinga sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið um flutning ríkisstofnana beita sér fyrir því að Fasteignamat ríkisins setji upp umdæmisskrifstofu eða útibú á Vestfjörðum.