Skráning og mat fasteigna

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 12:40:44 (4437)


[12:40]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Aðeins tvö þrjú atriði sem mig langaði til að gera hér að umræðuefni varðandi frv. sem er nú á dagskrá.
    Í fyrsta lagi vil ég lýsa stuðningi mínum við þá hugmynd sem hér er sett fram að skipa stofnuninni stjórn. Ég held að það mætti gjarnan vera svo um fleiri opinberar stofnanir sem heyra vissulega undir ákveðin ráðuneyti og eru undir eftirliti og umsjá þaðan að þeim séu skipaðar stjórnir og um málefni þeirra sé fjallað á þann hátt að þar komi fleiri aðilar að en aðeins forstöðumenn stofnana og svo ráðuneytin beint. Mig langaði hins vegar að spyrja hæstv. fjmrh. --- og lýsi ánægju minni með að hæstv. félmrh. skuli ganga í salinn einmitt þegar þetta frv. er til umræðu --- sem leggur málið fram, hvort ekki komi til greina að t.d. félmrn. eigi aðild að þessari stjórn með því að tilnefna annan af þeim tveimur mönnum sem gert er ráð fyrir að skipaðir séu án tilnefningar. Það er gert ráð fyrir að einn af þremur stjórnarmönnum sé tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og vissulega tengir það stjórnina við þann þátt mála sem heyra undir félmrn. En á hvern hátt ætlar hæstv. fjmrh. síðan að tilnefna hina tvo? Er það hugsað að það sé hans ákvörðun án þess að félmrn. sem slíkt komi þar neitt að?
    Mér finnst koma til greina að félmrn. tilnefni annan þennan mann án þess að ég sé að gera neina tillögu um það. Hugsanlegt er líka og má kannski velta því aðeins upp þegar ákveðið er samkvæmt lögum að skipa skuli stjórnir í svona stofnanir hvort Alþingi eigi ekki að koma að því líka og hugsanlega kjósa eða tilnefna fulltrúa í slíka stjórn.
    Svo vil ég spyrja ráðherra að því nánar sem kemur hér fram í seinasta málsliði í seinustu málsgrein greinargerðarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Með gildistöku EES-samningsins verður öllum tryggingafélögum heimilt að sjá um brunatryggingar og því opnast sá möguleiki að Fasteignamat ríkisins taki að sér brunabótamat fasteigna gegn gjaldi.``
    Það sem ég var að hugleiða er hvernig háttað verður samræmi á brunabótamati tryggingafélaganna þegar það verður opið fyrir öll tryggingafélög að taka að sér brunatryggingar húsa og gætu jafnvel komið til, ef ég veit og skil rétt, erlend tryggingafélög allt eins og íslensk eða a.m.k. leiðréttist það ef það er rangt hjá mér. Hvernig verður háttað þessu samræmi? Þó það falli ekki beinlínis hér undir er þó er verið að nefna hugsanlegt verkefni fyrir Fasteignamatið. Mér finnst að það kæmi mjög til greina að Fasteignamatið væri einhvers konar samræmingaraðili á slíku mati einnig ekki síður en á fasteignamatinu, sem er auðvitað það sem skiptir þó opinbera aðila máli vegna skatta og gjaldheimtu.