Norræna ráðherranefndin 1993--1994

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 14:26:59 (4447)


[14:26]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og aðeins örfá orð sem ég sé ástæðu til að viðhafa að þessu sinni.
    Þeir þingmenn sem til máls hafa tekið hafa allir rætt um að samstarf hinna norrænu þjóða sé að breytast. Það er rétt og það er eðlilegt vegna þess að samstarf norrænna þjóða tekur að sjálfsögðu tilliti til þess hvað er að gerast annars staðar í heiminum og þá ekki síst í þeim heimshluta sem þessar þjóðir tilheyra. Þó svo að samstarfið breytist eitthvað þá þarf það að sjálfsögðu ekki að þýða að samstarfið versni frá því sem verið hefur. Hv. þm. Björn Bjarnason benti á nýjungar í norrænu samstarfi, þ.e. samstarf á sviði utanríkismála og e.t.v. á sviði öryggismála. Það er ekki langt síðan umræður um utanríkismál fóru ekki fram á þingum Norðurlandaráðs og þau mál komu þar ekki á vettvang. Nú eru þau meðal þýðingarmestu atriða í umræðunum á Norðurlandaráðsþingi. Þannig hefur samstarf Norðurlanda breyst og mun halda áfram að breytast. Ég tel það ekki vera breytingu til hins verra að taka utanríkismálin inn í umræðu á Norðurlandaráðsþingi og leggja aukna áherslu á þátt þeirra í norrænu samstarfi heldur sé það af hinu góða að mínu mati.
    Í öðru lagi vil ég einnig benda mönnum á það að einn merkasti viðburður í norrænu samstarfi, þ.e. afnám vegabréfaskyldu, gerðist á meðan norræna samstarfið var miklu mun óformlegra heldur en það er í dag og hefur verið á undanförnum árum. Þannig að menn geta ekki heldur notað formlegheitin sem mælikvarða á það hvort norræn samvinna skilar góðum árangri eða miður góðum árangri. En að sjálfsögðu er umræðan um framtíð norrænnar samvinnu angi af þeirri umræðu sem fer fram um aukna alþjóðasamvinnu og aukna samvinnu í þeim heimshluta sem við tilheyrum og norræn samvinna hlýtur að taka breytingum í tímans rás eins og önnur mannanna verk.
    Aðeins nokkur orð um fyrirspurn hv. 4. þm. Austurl. um norrænu fjárlögin. Ég ítreka að ég get að sjálfsögðu ekki sett saman norræn fjárlög fyrir árið 1995 hér í ræðustól og það er aðeins búið að marka vísbendingar, fyrstu vísbendingar, um það eftir hvaða línum verið er að vinna að undirbúningi fjárlagagerðarinnar. Við munum hins vegar að sjálfsögðu, ráðherrarnir og ríkisstjórnirnar, hlusta grandgæfilega eftir því sem sagt kann að verða á þingi Norðurlandaráðs nú í marsmánuði um þessi efni. Og eins og þegar hefur verið sagt af hálfu ríkisstjórna Norðurlanda þá munum við og ætlum okkur að taka meira tillit til afstöðu þingmanna á þingi Norðurlandaráðs heldur en gert hefur verið fram að þessu þegar ákveðin hafa verið norrænu fjárlögin fyrir næsta ár.
    Ég vil aðeins benda á það svona til upplýsingar fyrir fólk að ef ná á þeim markmiðum sem menn hafa sett sér og við vinnum eftir þeim markmiðum á meðan þeim hefur ekki verið breytt, og það hefur ekki verið gert. Ef menn ætla að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, þ.e. að ekki síðar en árið 1996 nemi framlög til vísinda, menningarmála og menntamála um 50% af heildarfjárveitingum á norrænum fjárlögum, þá þarf að auka fjárveitingar til þessa málaflokks um 30 millj. kr. Ef við tökum það í tveimur jöfnum áföngum þá þarf að færa til frá öðrum viðfangsefnum 15 millj. kr. hvort árið 1995 og 1996 að því tilskyldu að menn haldi sig þá við hitt markmiðið, þ.e. núllfjárlög eða ekki raunviðbætur í norrænu fjárlögunum. Þar til viðbótar má segja að við höfum í höndunum ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar um viðbótarfjárveitingar á sama tímabili til tiltekinna viðfangsefna. Norræna húsið í Nuuk mun þannig þurfa, ef standa á við fyrri ákvarðanir, u.þ.b. 12 millj. kr. á árinu 1995. Á síðasta haustþingi í Maríuhöfn var ákveðið að efna til samnorræns átaks gegn útlendingahatri. Það er þegar hafinn undirbúningur að slíku átaki fyrir árið 1995. Þar erum við að tala um kostnað, viðbótarútgjöld við fjárlögin í ár, upp á milli 6 og 10 millj. danskra kr. Til að halda óbreyttum fjárveitingum til grannsvæða Norðurlanda verður að gera ráð fyrir um 14 millj. kr. hærri fjárveitingu en á fjárlögum yfirstandandi árs vegna þess að rekstrarafgangurinn eða tekjuafgangurinn öllu heldur á norrænu fjárlögunum 1995 mun lækka samsvarandi þannig að hann verður ekki til nota í sama mæli á árinu 1995 eins og hann hefur verið á árinu 1994.
    Þetta eru aðeins fjögur dæmi sem varpa ljósi á þá erfiðleika sem menn horfast í augu við. En auðvitað horfast menn í augu við þessa erfiðleika vísvitandi, frú forseti, því menn tóku að sjálfsögðu þá ákvörðun, að breyta um þessar áherslur á grunni núllfjárlaga, vitandi vits og með opin augun. En þetta varð til þess að ég sagði áðan í ræðu minni: Þessar staðreyndir eru einfaldlega þannig lagaðar að menn þurfa nú að skoða á raunhæfum grunni hvaða afstöðu menn eiga að taka. Hvort menn eiga að endurskoða einhverjar fyrri ákvarðanir sem menn hafa tekið eða hvort það eigi að halda sér við þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar um tilfærslu fjármuna innan hinna norrænu fjárlaga og um núllgrunns fjárlagagerð fyrir árið 1995.
    Það er of snemmt fyrir mig að greina hér frá neinum ákvörðunum í þeim efnum, þær ákvarðanir verða ekki teknar fyrr en ráðherrar hafa heyrt hvað þingmenn á þingi Norðurlandaráðs hafa um þessi mál að segja. En ég ítreka að þessi vandi hlýtur að vera öllum þingmönnum jafnljós eins og hann er okkur.