Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 15:26:17 (4454)


[15:26]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þessa skýrslu frá þingmannavettvangi Íslandsdeildar RÖSE-þingsins og þá framsögu sem hv. þm. Tómas Olrich hafði fyrir þessari skýrslu. Mér fannst margt athyglisvert koma fram í hans máli og hann bætti þar við eigin hugleiðingum í framhaldi af þeirri skýrslugjöf sem er auðvitað gefin hér af þeim þingmannahópi sem starfar á þessum vettvangi. Svo gerðust þau --- ég vil ekki segja þau nýmæli en alla vega þeir athyglisverðu hlutir að hér skiptust sjálfstæðisþingmenn á skoðunum um þennan vettvang og höfðu nokkuð ólíkt mat á því hvort okkur Íslendingum bæri og ástæða væri til þess í almennu samhengi að hlúa að og viðhalda þessum vettvangi.
    Hér er auðvitað ekki mögulegt að fara langt út í þá sálma. Ég ætla ekki að gera það í tilefni þessarar skýrslu. Við gætum verið hér í dag og á morgun og næstu daga og tekið í rauninni tíma í almenna utanríkismálaumræðu í tilefni þessara skýrslna sem hér væru og að mörgu leyti held ég að það væri gagnlegt fyrir Alþingi Íslendinga að taka miklu betri tíma og óháð skýrslu utanrrh. til Alþingis í umræðu um viðhorf til utanríkismála og alþjóðasamstarfs af okkar hálfu og þátttöku okkar í því. Og það er einmitt það sem er á ferðinni í dag, hér liggja fyrir skýrslur um hina ýmsu þætti alþjóðasamstarfs sem við eigum aðild að.
    Það er alveg hárrétt sem fram hefur komið að það er ekki vandalaust fyrir lítið land að taka virkan þátt í samstöðu af þessu tagi og verður þar auðvitað að sýna ákveðna aðgæslu, bæði fjárhagslega og hvað snertir getu þinsins sem stofnunar að halda uppi slíkum virkum tengslum. En ég er þó þeirrar skoðunar að þó að menn geti sett spurningarmerki við þetta þá höfum við í rauninni alls ekki efni á því að eiga ekki hlut að þessu samstarfi og á það við um RÖSE-samstarfið frá mínum bæjardyrum séð og margt fleira þar sem um alþjóðlegan vettvang er að ræða að við þurfum að gæta okkar þar að halda þar uppi tengslum. Ég hef aðrar skoðanir að því er snertir þingmannasamstarfið á vettvangi NATO en ég ætla ekki að fara að ræða það hér í tilefni þessarar skýrslu. Það höfum við alþýðubandalagsmenn ekki talið að ætti að vera verkefni íslenskra þingmanna að vera að halda uppi þingmannasamstarfi á þeim vettvangi en það er önnur saga.
    Það sem fékk mig til að biðja um orðið, virðulegur forseti, var í rauninni það sem fram kom í ræðu flm. og spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort þetta sé vettvangur sem við eigum að sinna, sem við eigum að reyna að styrkja eða eins og fram kom hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni formanni utanrmn. að væri í tilvistarkreppu og við ættum að ýta undir hana, við ættum frekar að draga okkur út af þessum vettvangi. Þetta eru býsna stórar spurningar finnst mér. Ég held að eitt það þýðingarmesta fyrir Evrópu á heildina litið --- og þar er erfitt að greina á milli öryggismála og almennra málefna og stöðu almennra mála eins og hlutum er nú háttað --- sé að reyna að byggja brýr og treysta samstarf í Evrópu allri. Og við eigum síst af öllu að fara að draga okkur út af þeim vettvangi sem sameinar þó Evrópu með þeim hætti sem þessi þingmannasamkoma gerir og sá grundvöllur sem hún byggist á í samstarfi ríkisstjórna. Það er alveg rétt að hann liggur til baka til kalda stríðsins. En það skyldi nú ekki vera að RÖSE-samstarfið og Helsinki-samþykktin og fundur sá, sem hér var réttilega minnt á að átti sér stað 1975, hafi átt þátt í jákvæðri þróun og endalokum kalda stríðsins, átt ákveðinn þátt í að leggja þann grunn? Á það var einmitt minnt af framsögumanni að sá möguleiki til þess að koma mannréttindasjónarmiðum og svona ákveðnum andblæ svo að ég segi ekki meira, vindum, ég segi aðeins votti af andblæ frjálsrar fjölmiðlunar og frjálsrar umræðu austur fyrir tjald, inn í það frosna kerfi sem þar var, þar hafi RÖSE og það starf sem undir RÖSE var unnið hjálpað til. En í dag stöndum við frammi fyrir geysilegum vandamálum að því er snertir Evrópu, öryggismál í Evrópu og framtíðarstöðu Evrópu. Þá tel ég að okkur beri að leitast við að styrkja vettvang þar sem Evrópuríkin sameinast, ekki síst til þess að ræða öryggimsál sín, kannski sem fremsta verkefni. Og þar höfum við þennan vettvang og við eigum að reyna að leggja okkar litla lóð á vogarskálina þó að við fáum auðvitað ekki ráðið þar miklu um hvað þar gerist til þess að blása lífi í þetta samstarf og það verði traustara og það nái þeim tilgangi sem liggur í orðanna hljóðan og að baki þeim samningum og sáttmálum sem um er að ræða.
    Eitt þýðingarmesta mál á vettvangi Evrópu allrar er að sjálfsögðu það að ná Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu og öllu þar á milli. Þetta eru orðin dálítið fljótandi hugtök í seinni tíð, hvað er hvað, rétt eins og menn deildu um það með miklum hita, bæði á Alþingi og síðum blaða hvað væri Norður-Evrópa, í tilefni orðalags og ákvarðana á Alþingi í tilefni þáltill. 1985. Það var mikið um það rætt. Og enn heyri ég að uppi standa umræður um það á vettvangi Evrópuráðsins hvar eigi að draga mörk Evrópu til austurs. Það er mál út af fyrir sig. Ég ætla ekki að hafa sterkar eða ákveðnar skoðanir á því hér og nú. En stóra viðfangsefnið er auðvitað það að ná að treysta vettvang þar sem Evrópa öll ræðir öryggismál sín, þróar samstarf sem gæti leitt til bætts öryggis í álfunni og það sé ég ekki að við höfum neitt form skárra í dag, ég nota skárra, virðulegur forseti, í dag en þó þennan veika vísi sem RÖSE er, Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu.

    Ég ætla ekki að fara að skoða mál hér út frá sjónarhóli NATO. Það er ekki vettvangur sem ég tala fyrir. ( Gripið fram í: Þú getur það ekki.) Ég geri það ekki, með ánægju, hv. þm. En við sjáum takmarkanirnar sem þar liggja og höfnunin sem þar liggur fyrir að leysa þetta hernaðarbandalag upp í því formi sem þar hefur starfað og starfar enn með kjarnorkuvopnin og áskilnað um það að beita þeim að fyrra bragði meira að segja. Það liggur fyrir höfnun á því að taka Rússland og e.t.v. nánasta umhverfi þess inn í einhverja endurmótun þar sem litið væri til öryggishagsmuna álfunnar í heild. Og það er þetta sem er ein af stóru hættunum í Evrópu ásamt því sem hv. þm. Tómas Olrich nefndi hér alveg réttilega í sínu máli, það eru þau skörpu skil, það tjald efnahagslegs eðlis sem er dregið þvert um álfuna í dag og sem Evrópubandalagið viðheldur og er í rauninni að skerpa ef nokkuð er.
    NATO-vettvangurinn hefur átt í erfiðleikum með að veita ríkjum og ríkisstjórnum Austur-Evrópu, sem hafa verið að biðja um aðild að þeirri samkomu og að því hernaðarbandalagi, skýr svör. Og í rauninni les maður það frá talsmönnum þess hernaðarbandalags að það standi ekki til og muni ekki gerast að það verði fært í austurátt með öllum þeim skuldbindingum sem tengjast því hernaðarbandalagi, hvað þá að Rússland verði tekið inn í þann söfnuð. Hvað var það sem var að gerast einmitt núna í Júgóslavíu sem nefnt var að væri umræðuefni á vettvangi RÖSE? Þeir atburðir sem þar hafa verið að gerast og hv. frsm. nefndi sem dæmi um bál sem gæti breyst í miklu stærra og meira eldhaf? Það væri nógur efniviðurinn í það og ég er honum sammála í því. En hvað er að gerast þarna í sambandi við síðustu atburði í Júgóslavíu? Það er að þar kemur Rússland inn sem sjálfstæður aðili inn í það samhengi og fer að reyna að sýna burði sína á nýjan leik til að taka á málum sem gæti haft verulegar afleiðingar og ekki endilega til bóta fyrir það þó hörmulega ástand sem þarna er uppi vegna þess að hinn sameiginlega vettvang vantar. Ég tek það fram að ég tel að það skorti stórfellt á að RÖSE í dag, í núverandi formi, hafi þá burði til þess einn, tveir, þrír að gerast sá vettvangur en felur í sér vísi til þess að geta orðið það. Það er það sem við eigum að leggja áherslu á. Öryggi í Evrópu verður ekki tryggt nema að litið sé til álfunnar í heild, nema Rússland sé tekið með inn á þann vettvang og það sé leitast við að skapa, ég leyfi mér að nota orðalag frá síðtíma eða undir lok kalda stríðsins þegar Gorbatsjov var á leikvelli og talaði um hið evrópska hús og að Rússland þurfi að vera inni í þessu húsi þar sem talað er um öryggi álfunnar allrar og geti tekist á um hagsmuni og leitt það til lykta með friðsamlegum hætti og leitað möguleika til þess að styrkja stoðirnar undir sameiginlegu öryggi álfunnar.
    Á þetta hafa ýmsir lagt áherslu. Þetta er ekki einhver rödd langt frá vinstri sem ég er að flytja hér í þessu efni, einhver einangruð rödd frá vinstri. Það er langt frá því. Það er undir þetta tekið af fjölmörgum. Ég minni á orð Margaretha af Ugglas, utanríkisráðherra Svía, í framsögu á síðasta þingi Norðurlandaráðs í Mariehamn. Þar dró hún þetta fram mjög ákveðið sem sterkan þátt sem yrði að leggja áherslu á. Það mætti ekki gerast að Rússland yrði viðskila og yrði einangrað í austri.